Borgarstjórn 21.3.2017 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 21.3.2017

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 21. mars, var haldinn fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að hefja innleiðingu á fullkomnu umferðarmódeli sem mæli alla samgöngumáta hvor sem það eru einkabílar, almenningssamgöngur, hjólreiðar, gangandi umferð, fyrirhuguð borgarlína eða aðrir mögulegir samgöngumátar. Leitað verði samstarfs við önnur sveitarfélög og Vegagerðina við kaup og innleiðingu á umferðarmódeli.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17030210
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að teknar verði upp viðræður við Vegagerðina um gerð mislægra gatnamóta við Reykjanesbraut – Bústaðaveg í því skyni að auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Haldið verði áfram þeirri vinnu við hönnun umræddra gatnamóta sem hafin var á sínum tíma og leitast við í góðri samvinnu á milli aðila að bæta úr þeim vanköntum sem Reykjavíkurborg taldi þá vera á tillögum Vegagerðarinnar. Í slíkri vinnu verði þess sérstaklega gætt að leggja áherslu á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem og að greiða fyrir umferð strætisvagna um gatnamótin. Áhersla verði jafnframt lögð á að mannvirkið fari sem best í umhverfinu og að ríkulegt tillit verði tekið til náttúru Elliðaárdalsins við hönnun þess. R17030211

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Lagt er til að í stað orðanna gerð mislægra komi orðið útfærslu.

Samþykkt.

Lögð fram tillagan svo samþykkt:

Borgarstjórn samþykkir að teknar verði upp viðræður við Vegagerðina um útfærslu gatnamóta við Reykjanesbraut – Bústaðaveg í því skyni að auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Haldið verði áfram þeirri vinnu við hönnun umræddra gatnamóta sem hafin var á sínum tíma og leitast við í góðri samvinnu á milli aðila að bæta úr þeim vanköntum sem Reykjavíkurborg taldi þá vera á tillögum Vegagerðarinnar. Í slíkri vinnu verði þess sérstaklega gætt að leggja áherslu á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem og að greiða fyrir umferð strætisvagna um gatnamótin. Áhersla verði jafnframt lögð á að mannvirkið fari sem best í umhverfinu og að ríkulegt tillit verði tekið til náttúru Elliðaárdalsins við hönnun þess.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja að skoðaðar verði mismunandi útfærslur á gatnamótum Reykjanesbrautar – Bústaðavegar. Ljóst er að miðað við núverandi stöðu málsins er líklegast að mislæg lausn nái helst þeim markmiðum að auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð á gatnamótunum. Þá þarf að taka tillit til náttúru Elliðaárdalsins við hönnun þess og leita lausna sem falla vel að umhverfinu. Í þessari vinnu er einnig mikilvægt að skoða tiltæka kosti í því skyni að auka umferðaröryggi á Bústaðavegi.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að hefja viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut. Markmið viðræðnanna fælist í því að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17030213
Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Upphaflega var um nokkra valkosti að ræða fyrir staðsetningu Sundabrautar en þeim hefur því miður farið fækkandi á síðustu árum og nú síðast hefur einn þessara kosta verið sleginn út af borðinu með samningi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Gelgjutanga. þá gerir aðalskipulagið 2010-2030 ekki ráð fyrir nema einni leið frá Kleppsvík yfir í Gufunes. Það er mikilvægt að sem flestir kostir komi til skoðunar þegar lega Sundabrautarinnar er skoðuð. Brýnt er að borgaryfirvöld tryggi það að fleiri kostir verði ekki útilokaðir í náinni framtíð og þess vegna verður borgarstjórn að setja málið á dagskrá strax. Mikilvægt er að tillagan dagi ekki uppi í borgarkerfinu eins og sambærileg tillaga gerði sem við sjálfstæðismenn lögðum fram í borgarstjórn 2013. Hugmyndum um Sundabraut var síðast slegið á frest með samgöngusamningi Reykjavíkurborgar og ríkisins árið 2012 um heilan áratug. Nú á síðustu misserum hefur farið fram mikil skipulagsvinna í Elliðavogi og í Gufunesi og því er mikilvægt og löngu tímabært að ákveða endanlega legu og útfærslu brautarinnar svo aðrar skipulagsákvarðanir útiloki ekki hugsanlega besta kost í þeim efnum.

4. Fram fer umræða um ferðamannaborgina Reykjavík. R17030214

5. Fram fer umræða um eftirlit með þjónustu Reykjavíkurborgar við fatlað fólk. R17030215

6. Lagt er til að Kristín Erna Arnardóttir taki sæti í hverfisráði Háaleitis og Bústaða í stað Harðar Oddfríðarsonar. Jafnframt er lagt til að Gunnar Alexander Ólafsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Kristínar Ernu. R14060119
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

7. Samþykkt að taka kosningu í hverfisráð Vesturbæjar á dagskrá.
Lagt er til að Eldar Ástþórsson taki sæti í hverfisráði Vesturbæjar í stað Margrétar Marteinsdóttur. R14060124
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. mars R17010001
14. liður fundargerðarinnar frá 9. mars; reglur varðandi afnot af borgarlandi vegna skilta og útstillinga, samþykktur. R17030045
29. liður fundargerðarinnar frá 9. mars; tillögur að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2017, samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17020176
29. liður fundargerðarinnar frá 16. mars; úthlutun lóðarinnar að Keilugranda 1, samþykktur með nafnakalli með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins. R16080064

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að nýta eigi SÍF-reitinn (Keilugranda 1) í þágu íþrótta- og útivistarstarfsemi í Vesturbænum og greiða því atkvæði gegn því að lóðinni verði úthlutað undir fjölbýlishús. Viðurkennt er að mikill og vaxandi skortur er á rými fyrir íþróttastarfsemi í Vesturbænum og er mikilvægt að bæta úr því. Enn skal minnt á að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar í Vesturbænum á næstu árum, sem gæti haft í för með sér að íbúum hverfisins fjölgi um a.m.k. 5.500 manns eða 33%. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og vinstri grænna sýnir af sér mikið fyrirhyggjuleysi í skipulagsmálum með því að leggja annars vegar mikla áherslu á þéttingu byggðar í Vesturbænum en neitar hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að slík fjölgun kallar á samsvarandi uppbyggingu innviða, ekki síst í þágu íþrótta og skólastarfsemi. Með þeirri ákvörðun meirihlutans að ráðstafa svæðinu undir þétta fjölbýlishúsabyggð er jafnframt komið í veg fyrir að hún nýtist í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að fjölga íbúðum í eigu félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða en jafnframt er mikilvægt að tryggja að aðstaða sé í hverfum fyrir íþróttastarf. Framsókn og flugvallarvinir bókuðu haustið 2015 að mikilvægt væri að KR kæmi að mótun svokallaðrar „lýðheilsubrautar“ í gegnum lóðina eins og félagið hafði óskað eftir. Framsókn og flugvallarvinir óskuðu líka eftir að lóðin yrði verðmetin af óháðum fasteignasölum en því var hafnað. Þó svo að Búseti sé rekið án hagnaðarsjónarmiða þá er félagið í eigu félagsmanna þess og þeir eru bæði innan og utan eigna- og tekjumarka. Þar sem ekki er gert skilyrði í úthlutunarskilmálum að tiltekinn fjöldi íbúða á lóðinni sé nýttur fyrir þann hóp félagsmanna sitjum við hjá.

9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. mars, íþrótta- og tómstundaráðs frá 3. mars, mannréttindaráðs frá 28. febrúar og 14. mars, menningar- og ferðamálaráðs frá 13. mars, skóla- og frístundaráðs frá 8. mars, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 6. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. mars og velferðarráðs frá 2. og 16. mars. R17010084

Fundi slitið kl. 19.13

Líf Magneudóttir

Kjartan Magnússon Skúli Helgason

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

13 + 3 =