Borgarstjórn 2.10.2018 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 2.10.2018

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 2. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.
Fundarritari var Eyþóra Kristín Geirsdóttir.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarsviði að hefja undirbúning að nýrri starfsemi sem haldi utan um alla stuðningsþjónustu á vegum sviðsins og taki til þeirrar auknu þjónustuþarfar sem leiðir af lögum um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 37/2018 með síðari breytingum og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Enn fremur verði skoðað hvort stuðningsþjónusta á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi að tilheyra nýrri starfsemi. Tillögur að útfærslu ásamt kostnaðarmati verði lagðar fyrir velferðarráð og borgarráð eigi síðar en 1. desember næstkomandi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100184
Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna lögfestingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA). Mikilvægt er að lögfesting NPA veiti einstaklingum sem sækja um þjónustuna sjálfstætt líf eins og tilgangur þjónustunnar segir til um. Leggja þarf sérstaka áherslu á að fjármagn sem fer í NPA fari beint í þjónustu við einstaklinga og kostnaði við yfirbyggingu sé haldið í algjöru lágmarki. Enn fremur leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikla áherslu á að fullt notendasamráð verði haft við alla hlutaðeigandi aðila við áframhaldandi innleiðingu NPA og þróun þjónustunnar.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistaflokkurinn fagnar nýjum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 37/2018 með síðari breytingum og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Þar er skýrt kveðið á um samráð við hagsmunaaðila. Í tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að fela velferðarsviði að hefja undirbúning að nýrri starfsemi fyrir stuðningsþjónustu í ljósi ofangreindra laga kemur ekki nægilega skýrt fram að hve miklu leyti samráð verði haft við notendur. Sósíalistaflokkurinn leggur gríðarlega mikla áherslu á að koma valdinu til fólksins, að þeir einstaklingar sem upplifi þjónustuna komi til með að móta hana. Því er gríðarlega mikilvægt að sá hópur fólks sem kemur til með að móta starfsemi varðandi stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs innihaldi meirihluta fólks sem komi til með að nota þjónustuna. Hagsmuna þeirra er best gætt ef þeir aðilar koma sjálfir að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar um mál sem varða þau. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessi tillaga meirihlutans lítur vel út á blaði en væri án efa ekki lögð fram hér nema vegna tilkomu nýrra laga um NPA sem við öll fögnum. Flokkur fólksins vill minna á þann kalda veruleika sem ríkir í borginni sem er langvarandi, rótgróin mannekla í flest þjónustustörf sem borgarmeirihlutinn hefur ekki getað eða viljað taka á. Það lofar ekki góðu að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið reynt til að laða að starfsmenn að þeirra sögn, þá hefur það ekki tekist. Það er langur biðlisti eftir stuðningsþjónustu sem annarri heima- og aðhlynningarþjónustu í Reykjavík. Eins og margoft hefur verið bent á eru laun fyrir þessi störf skammarlega lág og útilokað fyrir fólk að lifa af þeim. Sum þessara starfa eru álagsstörf og ætti sérstaklega að vera horft til þess þegar verið er að ákvarða launin. Hvernig á þessa metnaðarfulla tillaga að verða útfærð án starfsfólks til að sinna henni? Setjum okkur sem snöggvast í spor notenda þjónustunnar sem e.t.v. þurfa að lifa í þeirri óvissu hvern dag eða viku að starfsmaður verði kannski ekki tiltækur til að veita þjónustuna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Þann 1. október tóku gildi breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem meðal annars lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem þjónustuform og ber innleiðingu að vera lokið fyrir árið 2022. Lögin eiga að tryggja jafnræði til samfélagsþátttöku og sjálfstæðs lífs þar sem það er orðað að virðing skuli borin fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði sem ber með sér miklar kröfur til stuðningsþjónustu sveitarfélaga og ljóst hefur verið í nokkurn tíma að við þurfum að skoða þá þjónustu og bæta. Í upphafi árs var gert stöðumat á þeirri stuðningsþjónustu sem veitt er á velferðarsviði. Markmiðið með því var að veita faglega, trausta og örugga þjónustu. Í ljósi þess er lagt til að stuðningsþjónusta á velferðarsviði verði samræmd og veitt á einum stað. Í greinargerð sem fylgir tillögunni er kveðið á um náið samráð við hagsmunasamtök notenda, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila við mótun tillagnanna.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að veita jöfn fjárframlög úr borgarsjóði með hverjum nemanda sem lögheimili á í Reykjavík og sækir þar grunnskóla og/eða frístundaheimili. Skal sama upphæð opinbers fjár því fylgja hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi viðkomandi grunnskóla eða frístundaheimilis. Þiggi sjálfstætt rekinn grunnskóli þessi auknu fjárframlög getur skólinn ekki innheimt skólagjöld af nemendum búsettum í Reykjavík.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100195
Lagt til að umræða um 2. og 3. mál fari fram aðskilið. 
Fellt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

-    Kl. 15:10 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundi og Líf Magneudóttir tekur þar sæti.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistaflokkurinn styður fjölbreytni í námi en vill tryggja að hagnaðardrifin sjónarmið komi ekki að rekstri skóla. Sósíalistar myndu styðja jöfn fjárframlög úr borgarsjóði, með börnum í grunnskólum og frístundaheimilum óháð rekstrarformi, um leið og búið væri að tryggja að hagnaðardrifin félög fengu ekki rekstrarleyfi fyrir skólum og frístundaheimilum. Sósíalistar fagna því t.d. að frjáls félagasamtök, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir fái möguleika á að reka skóla.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma afgreiðslu málsins. Það er réttlætismál að tryggja jöfn opinber framlög með hverju grunnskólabarni – framlögin eru réttur barnanna og fjármagnið ætti réttilega að fylgja þeim inn í skólakerfið. Með jöfnum opinberum framlögum kæmust sjálfstætt starfandi grunnskólar hjá innheimtu skólagjalda og þannig mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst í borginni. Efnahagur foreldra yrði ekki lengur ákvarðandi forsenda við skólaval. Sjálfstæðir grunnskólar eru almennt litrík viðbót við skólaflóruna. Þeir hafa gjarnan kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði og nýjar framsæknar skólastefnur. Þeir veita foreldrum fleiri valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna. Við þurfum aukið valfrelsi foreldra og tryggari starfsgrundvöll fyrir einkarekna skóla, því fjölbreytni, framþróun og jöfn tækifæri eru öllum til heilla.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Með því að vísa tillögunum til borgarráðs er verið að kalla eftir heildarmynd af fjárhagslegu umfangi sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla skóla annarsvegar og borgarrekinna skóla hinsvegar. Þau viðmið sem mynda fjárhagsramma sjálfstætt rekinna grunnskóla eru tilkomin vegna laga um grunnskóla nr. 91/2008. Í því sambandi má halda til haga að lögum um grunnskóla var breytt árið 2016 m.a. með nýju ákvæði um frístundaheimili þar sem skilgreindur var réttur allra barna til að njóta þjónustu frístundaheimila, án þess að álitaefni varðandi fjármögnun þjónustunnar væru nægilega skýrð. Sú heildarskoðun sem hér er boðuð á vegum borgarráðs skapar tækifæri til að rýna vandlega rekstrarumhverfi sjálfstætt rekinna skóla í samhengi við þá borgarreknu og setja í alþjóðlegt samhengi.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að veita jöfn rekstrarframlög úr borgarsjóði með hverju barni sem lögheimili á í Reykjavík og sækir þar leikskóla. Skal sama upphæð opinbers fjár því fylgja hverju barni inn í leikskóla, óháð rekstrarformi viðkomandi skóla. Verði áfram tekið tillit til þess hvernig kostnaður breytist eftir hlutfalli fagmenntaðs starfsfólks, sem og eftir aldri leikskólabarna, en þess þó gætt að börn á sama aldri fái alla jafna sama framlag úr borgarsjóði, óháð rekstrarformi þess leikskóla sem þau sækja. Borgarstjórn samþykkir að gera viðeigandi breytingar á samningi við sjálfstætt starfandi leikskóla Reykjavíkur, dags. 1. október 2018, og samningi við sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla, dags. 1. ágúst 2018, svo jöfn fjárframlög verði tryggð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100196
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistaflokkurinn styður fjölbreytni í námi en vill tryggja að hagnaðardrifin sjónarmið komi ekki að rekstri leikskóla. Sósíalistar myndu styðja jöfn fjárframlög úr borgarsjóði með börnum í leikskólum óháð rekstrarformi, um leið og búið væri að tryggja að hagnaðardrifin félög fengu ekki rekstrarleyfi fyrir leikskólum. Sósíalistar fagna því t.d. að frjáls félagasamtök, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir fái möguleika á að reka leikskóla.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma afgreiðslu málsins. Það er eðlilegur réttur barna að borgin leggi sömu upphæð opinbers fjár til uppeldis og menntunar þeirra – að tryggð séu jöfn opinber framlög með hverju barni inn í leikskóla borgarinnar. Með jöfnum framlögum mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri og jafnan aðgang að ólíkum valkostum, því gjaldskrár sjálfstæðra leikskóla myndu lækka og efnahagur foreldra yrði ekki lengur ákvarðandi forsenda við leikskólaval. Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla en geta þó útvistað rekstrinum. Í Reykjavík eru sjálfstætt starfandi leikskólar 18 talsins og þá sækja tæp 1.200 börn. Ef þessara leikskóla nyti ekki við mætti hugsa sér ískyggilega stöðu á biðlistum borgarinnar. Sjálfstæðir leikskólar hafa svarað eftirspurn sem borgaryfirvöld gátu ekki mætt. Framtakinu bera að fagna og það ber að styðja. Sjálfstæðir leikskólar eru mikilvæg viðbót við skólaflóru borgarinnar. Þeir bjóða foreldrum fleiri valkosti um áherslur í uppeldi og menntun barna sinna. Við viljum tryggja öllum fjölskyldum þessa valkosti, óháð efnahag. Það er mikilvægt réttlætismál fyrir börnin í borginni.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Með því að vísa tillögunum til borgarráðs er verið að kalla eftir heildarmynd af fjárhagslegu umfangi sjálfstætt rekinna leik- og grunnskóla annarsvegar og borgarrekinna skóla hinsvegar. Þau viðmið sem mynda fjárhagsramma sjálfstætt rekinna grunnskóla eru tilkomin vegna laga um grunnskóla nr. 91/2008. Í því sambandi má halda til haga að lögum um grunnskóla var breytt árið 2016 m.a. með nýju ákvæði um frístundaheimili þar sem skilgreindur var réttur allra barna til að njóta þjónustu frístundaheimila, án þess að álitaefni varðandi fjármögnun þjónustunnar væru nægilega skýrð. Sú heildarskoðun sem hér er boðuð á vegum borgarráðs skapar tækifæri til að rýna vandlega rekstrarumhverfi sjálfstætt rekinna skóla í samhengi við þá borgarreknu og setja í alþjóðlegt samhengi.

-    Kl. 16:55 víkur Sabine Leskopf af fundinum og Ragna Sigurðardóttir tekur þar sæti.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Borgarstjórn beinir því til stjórnar Strætó að mótaðar verði útfærslur á því að auka aksturstíðni á stofnleiðum Strætó þannig að þær aki á 7,5 mínútna tíðni á háannatíma. Óskað er eftir upplýsingum um farþegafjölda á hverri leið, núverandi kostnað við hverja leið og mati á því hve mikið það myndi kosta að auka tíðnina á hverri leið upp í 7,5 mínútur. Óskað er eftir því að þeirri vinnu verði lokið fyrir 1. janúar 2019. Stefnt skuli að því að leiðir 1, 3 og 6 aki á 7,5 mínútna tíðni frá og með ársbyrjun 2020.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100265
Lagt til að tillögunni verði vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs. 
Fellt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn 10 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Samþykkt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Aukin tíðni strætó á stofnleiðum er hagkvæm leið til að bæta þjónustuna þar sem hennar er mest þörf. Öflugt stofnleiðakerfi bætir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu öllu, léttir álagið á vegakerfinu og tryggir að þeir sem vilja eða þurfa að fara ferða sinna á bíl geti gert það hraðar og betur. Við vonumst eftir góðu samstarfi við aðra eigendur Strætó, hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þegar kemur að endanlegri útfærslu tillögunnar og fjármögnun hennar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn fagna áformum um aukna aksturstíðni á stofnleiðum Strætó. Kannanir meðal notenda almenningssamgangna hafa leitt í ljós að aukin tíðni og styttri ferðatími séu nauðsynlegir liðir í því að bæta þjónustuna og fjölga þeim sem nýta almenningssamgöngur. Mikilvægt er að fá nákvæma kostnaðargreiningu á verkefninu og tryggja verður að verkefnið fari ekki framúr áætlunum. Áformum um bætta þjónustu við notendur í Grafarvogi og Breiðholti er fagnað, en við söknum þess þó að þjónusta sé bætt við fleiri hverfi í efri byggðum. Við teljum málið brýnt og þætti rétt að setja aukinn þrýsting svo útfærslan geti komið til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2019.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins telur að tillaga meirihlutans um að beina því til stjórnar Strætó að mótaðar verði útfærslur á því að auka aksturstíðni á stofnleiðum Strætó þannig að þær aki á 7,5 mínútna tíðni á háannatímum sé ekki nógu vel útfærð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram málsmeðferðartillögu um að þessari tillögu meirihlutans yrði vísað í skipulags- og samgönguráð til frekari útfærslu. Sú málsmeðferðartillaga var felld. Ljóst er að margt er enn að vefjast fyrir meirihlutanum í þessu sambandi sem þarfnast nánari skoðunar og er því lag að ofangreint ráð fái tillöguna til að útfæra hana frekar. Sérstaklega þarf að horfa til þess að notendur strætó komi meira að tillögunni t.d. er varðar forgangsröðun á hvaða leiðir ættu að vera á 7,5 mínútna tíðni.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistar fagna tillögu um að auka tíðni á stofnleiðum Strætó þannig að þær aki á 7,5 mínútna tíðni á háannatíma. Skiljanlegt er að það taki tíma að útfæra þá tillögu en spurningarmerki er sett við það hví það er talið taka svo langan tíma að innleiða breytingarnar. Tillagan stefnir að því að ofangreindar breytingar taki ekki gildi fyrr en frá og með ársbyrjun 2020. Sósíalistaflokkurinn vonast til þess að þessar breytingar verði innleiddar inn í þjónustu Strætó sem allra fyrst. Mikilvægt er að allar framtíðar bætingar í þjónustu Strætó séu unnar út frá þörfum og væntingum þeirra sem treysta á Strætó, svo að hægt sé að veita bestu þjónustuna.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Lagt er til að Reykjavíkurborg hækki lágmarkslaun í áföngum, þannig að enginn verði með lægri laun en 350 þúsund krónur 1. desember 2018 og enginn með lægri laun en 400 þúsund krónur 1. apríl 2019.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18090169
Samþykkt með 12 atkvæðum Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Kjarasamningar eru samningar sem gerðir eru milli stéttarfélaga og atvinnurekenda eða samtaka þeirra og hafa að geyma þýðingarmikla þætti sem varða kaup og kjör. Hækkun launa hefur lengi verið náð fram með samningagerð milli aðila vinnumarkaðarins þar sem viðsemjendur ná niðurstöðu með kjarasamningi. Ekki eru fordæmi fyrir því á nýliðinni öld að borgarstjórn hafi einhliða úrskurðað um laun starfsmanna sinna ef frá er talinn Gúttóslagurinn árið 1932. Mörg skref hafa verið tekin á undanförnum árum í samstarfi við verkalýðshreyfinguna þar sem laun hafa hækkað. Starfsmatið var unnið sem hluti af kjarasamningum auk þess sem tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hefur gengið afar vel. Þá er hluti af sáttmála flokkanna sem mynda meirihluta borgarstjórnar að endurskoða starfskjarastefnu borgarinnar.

-    Kl. 19:18 víkur Skúli Helgason af fundinum og Ellen Calmon tekur þar sæti.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að óháður aðili rannsaki hvers vegna framkvæmdir við endurgerð braggans í Nauthólsvík fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum. Til grundvallar rannsókninni verði athugað hverjir höfðu umsjón með verkefninu, gáfu heimildir fyrir framúrkeyrslunni, hvort verkefnið hafi verið boðið út og hvaða verktakar unnu að verkinu. R17080091

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til innri endurskoðunar. 
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðsluna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er alltaf mikilvægt að fara vel með almannafé. Því er brýnt skoða vel hvers vegna kostnaður við endurbyggingu braggans fór jafnmikið fram úr áætlun og raun ber vitni líkt og kynnt var í borgarráði 20. september síðastliðinn. Þann 14. desember árið 2017 var samþykkt í borgarráði að gera úttekt á verkefnum í tengslum við útboð og innkaup og er sú vinna enn í gangi. Því er tilefni til að óska eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar taki einnig upp mál Braggans og skoði málið í heild. Mikilvægt er að málið sé skoðað frá upphafi til enda, allt frá frumkostnaðaráætlun til verkloka og endanlegs kostnaðar, með það að markmiði að kanna hlítni verklags- og innkaupareglna um útboð, framkvæmd og eftirlit. Einnig er óskað eftir því að innri endurskoðun borgarinnar leggi til betrumbætt ferli við undirbúning framkvæmda sem varða minjar og minjavörslu á vegum borgarinnar og áhættumat sem framkvæmt er sem hluti af þeim undirbúningi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Gera verður alvarlegar athugasemdir við framúrkeyrslu framkvæmda hjá Reykjavíkurborg almennt en endurgerð braggans í Nauthólsvík er eitt skýrasta dæmi þess. Upphaflega var ákveðið að varðveita braggann með tilheyrandi kostnaði sem fór langt fram úr áætlun, úr 158 í rúmar 400 milljónir en enn sér ekki fyrir endann á kostnaðinum þar sem nú er komið í ljós að framkvæmdum er ekki enn lokið. Þá er enn fremur komið í ljós að ekki er um raunverulega varðveislu að ræða heldur endurgerð eða nýbyggingu þar sem fátt er upprunalegt annað en tveir húsgaflar. Ljóst er að fara þarf ofan í saumana á hver tók ákvarðanir á framkvæmdastigi, hver heimilaði aukin fjárframlög til verkefnisins og fleira. Samkvæmt yfirliti frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem lagt var fyrir í innkaupráð á síðasta fundi ráðsins var kostnaður við aðkeypta sérfræðiþjónustu og önnur vörukaup, án útboðs, við braggann um 100 milljónir króna. Þetta verður að teljast afar óábyrgt þar sem vinnulag þetta fer þvert geng innkaupareglum Reykjavíkurborgar og brýtur öll siðferðisleg viðmið um meðhöndlun opinberra fjármuna. Jafnframt hefur komið fram að önnur vinna við braggann hafi verið keypt í tímavinnu þar sem erfitt hafi reynst að áætla kostnað við endurgerðina. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja því afar brýnt að óháð rannsókn fari fram á þessari framúrkeyrslu.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Rándýrar íbúðir eru að rísa í miðborg Reykjavíkur þar sem granít og marmari leika aðalhlutverk og er fermetraverðið um 900 þúsund. Fermetraverð braggans er komið yfir eina milljón og komið hefur í ljós að verkinu er hvergi nærri lokið. Áætla má að verkið fari yfir hálfan milljarð og leiði til 350 milljóna framúrkeyrslu, eða því sem nemur heilum leikskóla. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu Reykjavíkur. Ég kalla eftir að einhver axli ábyrgð út af þessu máli. Að sólunda með opinbert fé með þessum hætti er fullkominn hroki og yfirgangur. Þessi vinnubrögð má sjá víða í gæluverkefnum borgarstjóra, á meðan lögbundin verkefni og grunnþjónusta eru svelt. Gerður var samningur við: arkitekta, landslagsarkitekta, verkfræðinga, verkefnisstjóra, verktaka, byggingastjóra og húsasmíðameistara á grundvelli tímagjalds. Múrarameistari, rafvirkjameistari, málarameistari, pípulagningameistari og blikksmíðameistari voru ráðnir ýmist á grundvelli einingaverða, tilboðsverða eða umsamins tímagjalds. Þessi vinnubrögð eru klárlega brot á innkaupareglum Reykjavíkurborgar. Reglunum er ætlað að stuðla að því að Reykjavíkurborg hagi innkaupum sínum í samræmi við góða viðskiptahætti og tryggi að stjórnsýsla Reykjavíkurborgar á sviði innkaupa sé í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Kallað hefur verið eftir afsögn fyrir minni sakir en hér eru undir í þessu máli.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Braggamálið er einn stór skandall. Rúmar fjögur hundruð milljónir í verkefni sem átti að kosta 155 milljónir. Engra spurninga spurt, alla vega hefur almenningur ekki vitneskju um þær. Svo virðist sem borgarmeirihlutinn hafi bara borgað og brosað? Mikil óvissa var í þessu máli segir borgarstjóri. Þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa er óvissa ekki í boði. Borgarstjóri hefur komið með alls konar skýringar sem nú eftir á breytir ekki þessari alvarlegu niðurstöðu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins segir að þennan bragga átti bara að rífa. Ekki nema einhver fjársterkur aðili hefði viljað gera eitthvað við hann. Borgarbúar eru bálreiðir og krefjast skýringa og það strax. Á meðan verið er að fella tillögur minnihlutans er varða að veita börnum í Reykjavík betri þjónustu er stórum upphæðum sóað í hégómleg verkefni eins og þetta og fleiri. Mörgum finnst hér næg ástæða komin fyrir að borgarstjóri segi af sér. Á fundi borgarráðs í síðustu viku var það gefið í skyn að Minjastofnun væri allt eins ábyrg fyrir þessari framúrkeyrslu en nú hefur komið í ljós að Minjastofnun sver alla ábyrgð af sér, segist ekki hafa komið nálægt ákvörðunum sem leiddu til þessara framúrkeyrslu á áætluðum kostnaði. Það er ólíðandi að svona sé farið með útsvarsfé borgarinnar. Fram hefur komið að fela á innri endurskoðun (IE) að rannsaka málið? Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem IE geti varla verið „nógu“ óháður enda hefur endurskoðunin fylgst með þessu máli allan tímann og séð hvernig það hefur þróast. Hvernig á IE allt í einu núna að geta komið að rannsókn þessari sem óháður aðili?

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að öllum leik- og grunnskólum borgarinnar verði gert kleift m.a. fjárhagslega sem og hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein (grænfáninn). Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í miklu umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Fáninn er engu að síður góður og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann. Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur börnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum. R18090168
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands að vísa tillögunni frá. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Grænfánaverkefni Landverndar er frábært verkefni til að efla umhverfisvitund skólasamfélagsins og hefur opnað augu m.a. nemenda, kennara og foreldra um hversu mikið hvert og eitt okkar getur áorkað til að bæta umhverfi okkar með margvíslegum hætti og verið umhverfisvæn í öllum okkar athöfnum, samfélagi og veröld til heilla. Það er hins vegar mikilvægt að verkefni af þessum toga sé sjálfsprottið og ekki skylda og að hver og einn skóli finni sínar leiðir til að uppfylla ákvæði aðalnámskrár og þá stefnumörkun sem hefur verið samþykkt á vettvangi borgarinnar. Nú þegar hafa leik- og grunnskólar val um að taka þátt í skólum á grænni grein og kallar verkefnið ekki á umtalsverð fjárútlát. Það kann hins vegar ekki góðri lukku að stýra að auka enn frekar miðstýringu í skólakerfinu og taka eitt verkefni framyfir önnur þegar skólar velja sér leiðir til að fara í átt að umhverfisvernd og sjálfbærni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins vill bóka vegna viðbragða borgarmeirihluta við tillögu um að borgin geri skólum kleift m.a. fjárhagslega og þeir hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein. Fram kemur að verið sé með þessari tillögu að skikka skóla til að taka upp grænfánaverkefni Landverndar en það er ekki rétt. Hér er ekki verið að leggja til miðstýringu að neinu leyti. Það er leitt að borgarmeirihlutinn og í þessu tilfelli borgarfulltrúi Vinstri grænna skuli taka tillögu sem þessari með þessum hætti í stað þess að fagna henni. Fram kemur að betur eigi við að draga úr verkefnum í skólum og hefur því borgarmeirihlutinn ákveðið að vísa tillögunni frá. Enn og aftur vill borgarfulltrúi Flokks fólksins endurtaka að þessi tillaga felur ekki í sér skyldu eða skikkun af neinu tagi, hvað þá miðstýringu heldur hvatningu fyrst og fremst. Fram kemur hjá borgarfulltrúa VG að verkefnið myndi kosta rúmar 7 milljónir og telur borgarfulltrúi Flokks fólksins að hér ætti borgarmeirihlutanum að vera bæði ljúft og skylt að fjárfesta í þessari tillögu fyrir börnin og umhverfið. Að vísa henni frá skýtur skökku við í ljósi óheyrilegra fjárútláta í ýmis önnur afar umdeild verkefni svo sem uppbyggingu bragga upp á hálfan milljarð.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það þurfa ekki allir skólar að vera grænafánaskólar til að ná markmiðum aðalnámskrár um umhverfisfræðslu. Þeir geta gert það með ýmsum hætti og á sínum forsendum. Staðreyndin er sú að nú þegar er reykvískum skólum gert það kleift og þeir hvattir til að sinna grasrótarverkefnum sem snúa að grunnþáttum náms um umhverfismenntun eins og að taka þátt í skólum á grænni grein sem er grænfánaverkefni Landverndar. Það er því ekki æskilegt að samþykkja þau markmið borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgin eigi að nota þennan eina mælikvarða Landverndar fyrir alla leik- og grunnskóla svo þeir geti flaggað grænfánanum. Í einhverjum kreðsum gæti það kallast grænþvottur.

8.    Fram fer umræða um stefnu Reykjavíkurborgar í erlendum samskiptum. R18090019

9.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að minnka eða útrýma þeim mismun sem myndast hefur á milli barna innflytjenda og annarra barna hvað varðar námsárangur og þátttöku í íþróttum og tómstundum. Lagt er til að námsráðgjöf og heimanámsaðstoð til barna innflytjenda verði efld og skimað sérstaklega eftir námsörðugleikum í þessum hópi barna.

Greinargerð fylgir tillögunni.  R18100271
Frestað.

10.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/ fyrrverandi starfsmönnum borgarinnar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt er til að skimað verði hvort þolendur telji að kvörtun/tilkynning hafi fengið faglega meðferð. Lagt er til að hvert þeirra mála sem kunna að koma fram verði skoðuð að nýju í samráði við tilkynnanda og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvort og þá hvernig skuli halda áfram með málið. Lagt er til að mannauðsdeild verði falið að taka saman upplýsingar um fjölda starfsmanna (tímarammi ákveðinn árafjöldi aftur í tímann) sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/kynferðislegri áreitni/kynbundnu ofbeldi í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg. Fram komi hversu mörg mál hafi leitt til starfsloka þolanda, hvernig tekið hafi verið á málum, hvort og hvernig gerendum í þeim málum sem einelti hafi verið staðfest hafi verið gert að taka ábyrgð. Lagt er til að metið verði til fjár hver fjárhagslegur kostnaður/skaði borgarinnar er vegna eineltis/kynferðislegrar áreitni/ kynbundins ofbeldis á starfsstöðvum borgarinnar. Hafa skal í huga að hvert mál er einstakt og að ástæða er til að skoða hvert mál fyrir sig. Lagt er til að mannauðsdeild borgarinnar verði falið að yfirfara málin með fyrirvara um hugsanlegt vanhæfi að mati tilkynnanda/þolanda.

Lagt til að tillögunni verði vísað til meðferðar velferðarráðs. R18100270
Fellt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands.

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins og Miðflokkurinn vilja gera bókun vegna viðbragða meirihlutans við tillögu Flokks fólksins þess efnis að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/fyrrverandi starfsmönnum sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt var til að skimað yrði eftir hvort þolendur kunni að telja að mál þeirra hafi ekki fengið fullnægjandi og/eða faglega meðferð mála sinna hjá Reykjavíkurborg og ef ekki yrði þeim boðið að fara, í sumum tilfellum aftur, yfir mál sín með mannauðsdeild. Þessi tillaga hugnast ekki meirihlutanum sem vísar tillögunni frá þrátt fyrir að fullyrða að hann láti sig þessi mál varða af alvöru. Borgarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins þykja þetta kaldar kveðjur til þeirra sem mögulega eru í stöðunni sem hér hefur verið lýst og líklegt til að auka enn frekar á sársauka þeirra og vonbrigði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Um er að ræða afar umfangsmikið verkefni. Spurt hefur verið um áreitni og ofbeldi í viðhorfskönnunum starfsmanna og nú þegar eru ferlar í föstum skorðum þegar kemur að einelti, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Í tillögum sem samþykktar voru í febrúar síðastliðnum var mannauðsdeild falið að meta umfang vandans og endurskoða siðareglur starfsmanna, viðbragsáætlanir og að framkvæmt verði áhættumat á öllum starfsstöðvum Reykjavíkurborgar. Tillagan hefur því þegar verið samþykkt og er komin til framkvæmda.

11.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að íþrótta- og æskulýðsfélögum verði heimilað á ný að kynna starfsemi sína í grunnskólum Reykjavíkur. Mikilvægt er að auka áhuga og hvetja nemendur til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi enda sýna allar rannsóknir að þeim börnum sem taka þátt í slíku starfi líður betur, gengur betur í skóla og eru ólíklegri til að neyta fíkniefna, reykja og drekka. Með þessu móti er minni hætta á mismunun, ekki síst hjá börnum af erlendum uppruna. R18100200

Frestað.

12.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 20. september. R18010002

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Miðflokkurinn leggst alfarið gegn fyrirhuguðum framkvæmdum á einum vinsælasta útsýnisstað borgarinnar. Eftirtekt vekur hversu hart Reykjavíkurborg hefur gengið fram í þessu máli þvert gegn vilja íbúa Úlfarsárdals, Grafarholts og íbúa borgarinnar. Það má sjá á þeim óleyfisframkvæmdum sem þegar hefur verið ráðist í og standa nú á Úlfarsfelli. Nú eiga téðar óleyfisframkvæmdir að vera notaðar sem helstu rökin fyrir frekari framkvæmdum. Samkvæmt upplýsingum er helsti ávinningur af framkvæmdum tengdur fm útvarpssendum. Á sama tíma eru fm rásir á undanhaldi víðast hvar í Evrópu. Málsrök bera með sér að slá skuli ryki í augu almennings með fyrirheitum um útsýnipalla og náttúruleg byggingarefni. Það er ekkert náttúrulegt við 50 metra hátt stálmastur sem hlaðið verður tækjabúnaði sem sendir frá sér slíka geislun að búnaðurinn var tekinn niður í Kópavogi vegna ógnar við heilsu íbúa. Að ætla sér að færa vandann yfir á íbúa Reykjavíkur er ekki lausn, það er ósvífni. Fyrir liggur að hér er um að ræða hagsmuni einkafyritækis, ekki íbúa. Afstaða Miðflokksins er skýr. Gæta skal hagsmuna íbúa og er það tillaga Miðflokksins að þessari aðför ljúki hér og vilji íbúa verði virtur og að núverandi óleyfisbúnaður verði fjarlægður án tafar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við væntanlegra skerðingu á þjónustu Ferðaþjónustu fatlaðra vegna yfirvofandi gjaldþrots Prime Tours. Strætó bs. útvistar þjónustu til Prime Tours en ber ábyrgð á þjónustunni við einstaklinga sem notfæra sér þjónustuna og eru oft á tíðum háðir henni. Í fréttinni „Gjaldþrot þýddi verri þjónustu við fatlað fólk“ á ruv.is þann 2. október 2018 um málið telur framkvæmdastjóri Strætó bs. að ef til gjaldþrotsins kæmi „gæti það þýtt verri akstursþjónustu Strætó við fatlaða.“ Þetta gæti valdið skerðingu lífsgæða þeirra sem nota þjónustuna og væri afturför í baráttu fatlaðs fólks við hindranir samfélagsins. Því þarf að bregðast strax við.

13.    Lagðar fram fundargerðir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. september, skóla- og frístundaráðs frá 25. september, skipulags- og samgönguráðs frá 19. september og umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. september. R18010074

14.    Samþykkt að taka kosningu í ofbeldisvarnarnefnd á dagskrá.
Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í ofbeldisvarnarnefnd í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R18060106
Samþykkt.

Fundi slitið kl. 23:27

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =