Borgarstjórn 20.11.2018 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 20.11.2018

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 20. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Líf Magneudóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sabine Leskopf, Ragna Sigurðardóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Daníel Örn Arnarsson, Björn Gíslason, Örn Þórðarson, Katrín Atladóttir, Marta Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagðar fram tillögur stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sbr. samþykkt í 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2018.

-    Kl. 16:15 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Magnús Már Guðmundsson víkur sæti. 

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að í nýja stýrihópnum sitji ekki einn frá minnihluta eins og lagt er til heldur tveir. Í minnihlutanum eru margir hæfir einstaklingar á þessu sviði og því sjálfsagt að nýta krafta þeirra. 

Breytingatillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Að starfstími nýja stýrihópsins verði styttur um helming. Starfstími hópsins er of langur að mati Flokks fólksins. Allur þessi málaflokkur þarf að keyrast hraðar, markvissar og fara í meiri forgang en verið hefur undanfarin ár.

Breytingatillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Tillögur stýrihóps um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla eru samþykktar. Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Brúum bilið verkefnið markar tímamót í uppbyggingu leikskólaþjónustu í borginni, því hér eru lagðar fram tillögur um hvernig megi tryggja leikskólarými í borginni fyrir öll börn sem eru 12 mánaða og eldri, innan fimm ára. Með tillögunum er lagt til að byggðir verði a.m.k. fimm nýir leikskólar, viðbyggingar reistar við fimm leikskóla til viðbótar, nýjar leikskóladeildir í færanlegu húsnæði opni við 5-6 leikskóla og sérútbúnar ungbarnadeildir verði opnaðar við alla stærri leikskóla. Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir að leikskólarýmum fjölgi um allt að 750 á næstu fimm árum með þessari uppbyggingu í borgarreknum leikskólum en jafnframt með umtalsverðri fjölgun í sjálfstætt reknum leikskólum. Gert er ráð fyrir að formleg inntaka barna verði framvegis tvisvar á ári. Lagt er til í fjárfestingaáætlun borgarinnar til næstu fimm ára að rúmlega 5,2 milljörðum króna verði varið í þessa leikskólauppbyggingu. Hér er um metnaðarfullar tillögur að ræða sem ætlað er að tryggja faglega menntun allra barna, auka þjónustu við foreldra og stuðla þannig að auknu jafnræði á vinnumarkaði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn telja mikilvægt að staðið verði við að fjölga leikskólarýmum enda stefnt að því að tryggja 12 mánaða börnum rými. Það er hins vegar til lítils að fjölga leikskólarýmum ef leikskólarnir standa ómannaðir. Þrátt fyrir fögur fyrirheit allt síðasta kjörtímabili voru biðlistar langir og börn gjarnan send heim vegna manneklu síðasta vetur. Auk þess er verulegur skortur á fagmenntuðu fólki í leikskólum borgarinnar. Það er því sá raunveruleiki sem þarf að hafa í huga við framkvæmdina. Eins mætti víkka sjóndeildarhringinn og leggja aukna áherslu á ráðningu starfsfólks með fjölbreyttan bakgrunn sem gæti reynst þroskandi fyrir börnin, t.d. með bakgrunn í tónlist, íþróttum eða listum. Þá má nefna að fimm ára fjárhagsáætlun frá síðasta ári var verulega vanáætluð. Enn fremur er ekki hægt að láta hjá líða að nefna að foreldrar sumra barna á leikskólaaldri eru ekki að fá leikskólarými fyrir börn sín í þeim hverfum þar sem þau eru búsett. Það eitt og sér er áhyggjuefni hjá foreldrum barnanna enda getur slík staða haft áhrif á félagsleg tengsl barnanna í hverfinu. Það er ekki nóg að gera ráð fyrir steinsteypu til að “brúa bilið”. Það þarf að vinna markvisst að því að tryggja faglega mönnun sem of lengi hefur verið í ólestri.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins var með breytingatillögur um að tveir úr minnihlutanum en ekki einn kæmu inn í stýrihópinn. Tillagan felld án raka en segir allt sem segja þar. Kraftar minnihlutafulltrúa eru ekki þegnir í þessa vinnu. Af skýrslunni sjálfri má segja að margt í henni sé fallegt. En hversu raunhæfar eru allar þessar uppbyggingartillögur þegar mannekluvandinn hefur ekki verið leystur? Eins og kom fram í máli samráðsfulltrúa leikskóla er byrjað á vitlausum enda. Á ekki að byrja á að taka á mannekluvandanum? Eða er bara verið að búa til gæsluvelli? Það er vont til þess að vita að fólk sem sinnir störfunum núna er ekki sátt og finnst sumt í þessari skýrslu skjóta skökku við og ekki ríma við raunveruleikann. Gefið er í skyn að stýrihópurinn hafi unnið þétt með fagfólki og öðru starfsfólki leikskólanna en engu að síður heyrast strax gagnrýnisraddir sem eru fullkomlega réttmætar. Það verður varla mikil uppbygging nema að fólk fáist til starfa. Aðgerðir til að leysa mannekluvandann hófust allt of seint. Allt of lengi flaut fyrri borgarmeirihlutinn sofandi að feigðarósi í þessu máli sem skilur okkur eftir í þessari stöðu sem nú er uppi.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá. Það hefur aldrei reynst vel að byggja framtíðarsýn á ófullkomnum forsendum eins og gert er í tillögum þessum. Það verður að taka á vandamálunum dagsins í dag í þessum málaflokki og þau er ærin hjá borginni. Sífellt er bent á ríkið í umræðunum um þessar tillögur af hendi meirihlutans og sýnir það eitt á hve veikum grunni þær eru reistar. Hér er um eina glansstefnuna að ræða sem teygir sig langt inn á næsta kjörtímabil. Er það gert til að drepa öðrum málum á dreif og hindra það að óþægileg mál fáist rædd.

2.    Lögð fram menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember 2018.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að stefnunni verði vísað aftur í stýrihópinn sem skal skoða þau atriði sem nefnd eru í greinargerð og sem ekki hafa verið nægjanlega ávörpuð í stefnunni.

Greinargerð fylgir tillögunni. 

Málsmeðferðartillagan er felld með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030 er samþykkt. 
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030 endurspeglar mikinn metnað og framsýni skólasamfélagsins í Reykjavík fyrir hönd barna og ungmenna í borginni. Kjarni menntastefnunnar er valdefling barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfinu með áherslu á að efla tiltekna hæfniþætti sem skólasamfélagið hefur sett í forgang. Þeir lúta að félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði og undirstrikar þá áherslu á heildstæða menntun og þroska barna sem einkennir stefnuna í anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er í góðu samræmi við aðalnámskrár leik- og grunnskóla og frístundastefnu borgarinnar. Þá fylgja stefnunni almennar aðgerðir sem snerta á mörgum mikilvægustu viðfangsefnum menntamála á komandi árum, s.s. aukinni áherslu á náttúruvísindi og stærðfræði; eflingu list- og verknáms; einföldun og eflingu stoðþjónustu við börn með sérstakar þarfir; aukið faglegt samstarf og starfsþróun starfsmanna og umbætur er lúta að endurbótum á húsnæði og öðru vinnuumhverfi starfsfólks. Stefnan er afrakstur víðtæks samstarfs barna og ungmenna, foreldra, kennara, skólastjórnenda, almenns starfsfólks, kjörinna fulltrúa, innlendra og erlendra ráðgjafa á undanförnum tveimur árum þar sem þúsundir einstaklinga hafa lagt hönd á plóginn. Gert er ráð fyrir 200 milljóna króna fjárveitingu til að hefja innleiðingu menntastefnunnar strax á næsta ári. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í febrúar 2009 samþykkti borgarstjórn einróma, að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, að hefja vinnu við mótun menntastefnu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Það er gott að nú liggi loks fyrir þessi tillaga níu árum síðar. Skólastefnan leggur áherslu á sköpun og almennt læsi sem er mikilvægur grunnur undir framtíðina. Mikilvægt er að tryggja faglegt sjálfstæði skóla, minnka miðstýringu og yfirbyggingu og færa fjármagn beint til kennara og nemenda. Þá er mikilvægt að áhersla er á læsisfærni á íslensku í lokadrögum skólastefnunnar. Mikilvægt er að fjármagn fylgi fyrirheitum. Án þess eru orðin tóm. Áherslu á sköpun og listir er ekki að finna í fjárhagsáætlun og því ber að endurskoða þá liði í fjárhagsáætlun við aðra umræðu. Þá er gagnrýnivert að í menntastefnunni er ekki að finna neinar tímasettar aðgerðir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja auka jafnræði milli sjálfstæðra skóla og borgarekinna. Þá vantar áherslu á forritun og tölvunarfræði í nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar. Tölvur og þjarkar eru hluti af daglegu lífi flestra og munu verða enn veigameiri þáttur þegar fram líður. Forritunarkunnátta er í raun samskiptamáti við tölvur og því mikilvægur hluti af læsi 21. aldarinnar. Öllu máli skiptir að áhersla verði lögð á forritun, sköpun og listir með því að fjármagni verði varið í þessar greinar við aðra umræðu fjárhagsætlunar. Tölvunarfræði er kennd á grunnskólastigi í flestum þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við, m.a. er hún kennd í Finnlandi frá fyrsta bekk í grunnskóla. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá. Það hefur aldrei reynst vel að byggja framtíðarsýn á ófullkomnum forsendum eins og gert er í tillögum þessum. Það verður að taka á vandamálunum dagsins í dag í þessum málaflokki og þau er ærin hjá borginni. Hér er um eina glansstefnuna að ræða sem teygir sig langt inn á næstu kjörtímabil. Er það gert til að drepa öðrum málum á dreif og hindra það að óþægileg mál fáist rædd.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins hefur áhyggjur af vaxandi vanlíðan barna í skólum og að ekki eigi að bregðast við biðlistum í úrræði eins og Klettaskóla sem er fullur. Það vekur ugg þessi ofuráhersla á að draga úr vægi greininga. Vísað í Breiðholtsmódelið þótt engin könnun liggi fyrir um álit foreldra á því módeli. Ítrekað er talað um snemmtæka íhlutun eins og hún eigi ekki að vera sjálfgefin. Það á alltaf að hlutast til í máli barna og gera það snemma og helst strax og vanlíðan verður ljós. En eitt útilokar ekki annað. Dæmin hafa sýnt m.a. annars úr Breiðholti að börn hafa útskrifast úr grunnskóla brotin á sálinni eftir áralanga vanlíðan í skólanum. Í mörgum málum var vissulega hlutast til en engin greining gerð. Flótti skólaráðsins frá greiningum býður upp á hættur. Hér er verið að spara á röngum stað. Hætta er á að verið sé að veita barni ranga meðferð vegna þess að aldrei var kannað hver raunverulegur vandi þess er. Þetta er allt eins og að fara með veikt barn til læknis og veita því einhverja meðferð án þess að kanna upptök og orsök veikindanna. Flokkur fólksins ákvað engu að síður að greiða atkvæði með menntastefnunni í þeirri von að ofangreind atriði yrðu tekin alvarlega til greina.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fara þess á leit við hin sveitarfélögin í landinu að mynda samstöðu til að beita sér fyrir því að aðstöðugjöld verði aftur lögð á fyrirtæki, svo að þau greiði fyrir þá innviði sem rekstur þeirra byggir á. Aðstöðugjöld voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna og má líta á sem nokkurs konar útsvar á fyrirtæki og eðlilegt er að þau greiði slíkt í sameiginlegan sjóð okkar borgarbúa. Þá samþykkir borgarstjórn einnig að leita til hinna sveitarfélaganna í landinu til að mynda samstöðu með þeim til að krefjast þess að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. Á síðustu áratugum hafa miklar breytingar átt sér stað í skattinnheimtu, þar sem skattbyrðin hefur verið færð af hærri tekjuhópum og yfir á lægri tekjuhópa, þá sem geta síst borið þær byrðar. Nauðsynlegt er að fjármagnseigendur greiði skatta í sameiginlegan sjóð okkar allra en þess má geta að fjármagnstekjur bera ekkert útsvar, ólíkt launatekjum. Sveitarfélögin fá því ekki nægileg framlög frá hinum allra auðugustu en þau eru nauðsynleg til þess að sveitarfélögin geti sinnt öllum þeim verkefnum sem þeim ber að sinna og til þess að hægt sé að veita borgarbúum sem besta þjónustu. Þótt Borgarstjórn Reykjavíkur geti ekki lagt á skatta án laga frá Alþingi, þá ber henni að berjast fyrir endurreisn skattkerfisins. 

Tillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hér er meðal annars lagt til að álögur á fyrirtæki í borginni verði auknar með upptöku nýrra gjalda. Þær tillögur sem hér eru settar fram eru ekki í takt við samstarfssáttmála þeirra flokka sem mynda meirihlutann. Þvert á móti er fyrirhugað að lækka kostnað fyrirtækja, t.d. með lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Einnig leggjum við áherslu á að styðja við fyrirtæki, ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki því raunveruleikinn er sá að 99% fyrirtækja eru lítil eða meðalstór. Núverandi meirihluti vill sérstaklega hlúa að og vinna með fyrirtækjum því heilbrigt og öflugt atvinnulíf er grunnur að hagsæld fyrir íbúa borgarinnar.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Lagt er til að komið verði á laggirnar rými í miðbænum þar vímuefnanotendur sem sprauta sig geta komið í hreint og öruggt athvarf og fengið hreinan sprautubúnað, aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt aðra aðhlynningu sem þeir þarfnast. Rými sem hér um ræðir yrði, ef til kæmi, samstarfsverkefni heilbrigðisráðuneytisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins í Reykjavík. Heilbrigðisráðuneytið hefur eyrnamerkt 50-60 milljónir í uppsetningu á rými af þessu tagi fyrir vímuefnaneytendur í Reykjavík og er hlutverk Reykjavíkurborgar að finna húsnæði sem hentar starfseminni, innrétta húsnæðið og sjá um rekstur á húsnæðinu. Gott væri að gera það í samvinnu við Frú Ragnheiðar verkefnið hjá RkR, en starfsfólkið þar þekkir markhópinn vel og þarfir hans. Að svo stöddu er hópur af einstaklingum sem notar vímuefni í æð utandyra og á almenningsstöðum í Reykjavík. Þessi hópur hefur engan stað til að vera á og algert úrræðaleysi ríkir í málefnum hans. Mjög brýnt er að opnað verði rými í Reykjavík til að þjónusta þennan afar viðkvæma hóp, með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi.

Greinargerð fylgir tillögunni. 
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðsluna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Umræða um sértæka heilbrigðisþjónustu við þá sem nota vímuefni um æð hefur verið í gangi um nokkurt skeið, enda sýna rannsóknir að hópurinn mætir miklum fordómum í heilbrigðiskerfinu og fær ekki þjónustu í samræmi við þörf. Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi í þjónustu við þennan hóp og er þjónustan grundvölluð á skaðaminnkandi nálgun og einstaklingsbundinni þjónustu við hvern og einn. Nú hefur ríkið eyrnamerkt 60 milljónir í rekstur neyslurýmis á árinu 2019 sem er mjög mikilvægt og viðbót við þjónustu sem Rauði krossinn hefur veitt með Frú Ragnheiði. Það hefur verið skýr afstaða borgarinnar frá upphafi að um heilbrigðisþjónustu sé að ræða sem er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg veitir notendum þjónustunnar félagslega þjónustu og ýmsan stuðning.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að auka fjárframlög um 113 milljónir íslenskra króna til SÁÁ vegna skorts á stuðningi og úrræðum fyrir: a. búsetu- og meðferðarúrræði fyrir tíu konur með alvarlega fíknisjúkdóma, b. stuðning og sálfræðiþjónustu við börn á aldrinum 8-18 sem eru aðstandendur fólks með fíknisjúkdóm auk sérhæfðs stuðnings með áherslu á foreldrafærni í þeirri viðleitni að styðja foreldra til bata, c. þjónustu við einstaklinga 25 ára og yngri sem eiga við áfengis- og fíknivanda að stríða, d. sérhæfða eftirfylgni og stuðningsþjónustu við einstaklinga á aldrinum 50-75 ára með langvarandi fíknivanda að stríða.

Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi breytta tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að auka fjárframlög um 140 milljónir íslenskra króna til SÁÁ vegna skorts á stuðningi og úrræðum fyrir: A. Búsetu- og meðferðarúrræði fyrir tíu konur með alvarlega fíknisjúkdóma. B. Stuðning og sálfræðiþjónustu við börn á aldrinum 8-18 sem eru aðstandendur fólks með fíknisjúkdóm auk sérhæfðs stuðnings með áherslu á foreldrafærni í þeirri viðleitni að styðja foreldra til bata. C. Þjónustu við einstaklinga 25 ára og yngri sem eiga við áfengis- og fíknivanda að stríða. D. Sérhæfðri eftirfylgni og stuðningsþjónustu við einstaklinga á aldrinum 50-75 ára með langvarandi fíknivanda að stríða.

Greinargerð fylgir tillögunni.

-    Kl. 21:30 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum og Ragna Sigurðardóttir víkur sæti. 

Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Afstaða meirihluta Reykjavíkurborgar eru vonbrigði, en ekki er vilji af þeirra hálfu að auka þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur með fíknivanda. Fíknivandi hefur aukist gríðarlega síðustu ár. Birtingarmyndir fíknivandans eru margs konar og hafa mikil áhrif á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt. Sóknarfæri Reykjavíkurborgar í bættri þjónustu við viðkvæman hóp fólks með vímuefnavanda eru gríðarleg en markmið með bættri þjónustu ætti að snúa að forvörnum, snemmtækri íhlutun fólks í áhættuhóp fyrir vímuefnaneyslu og eftirfylgni eftir meðferð. Enn fremur stuðlar líf án vímuefna að aukinni virkni einstaklinga, sjálfstæðu lífi og möguleika á fjárhagslegu sjálfstæði án afskipta félagsþjónustunnar. Að vísa málinu frá lýsir metnaðarleysi meirihlutans í málaflokknum hvað varðar félagslegan stuðningi við fólk í fíknivanda.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hlutverk ríkisins er að veita heilbrigðisþjónustu og er fíknimeðferð hluti af þeirri heilbrigðisþjónustu. Reykjavíkurborg og SÁÁ eru í víðtæku samstarfi sem hefur gengið vel síðan fyrsti samningurinn var gerður árið 2007 og var þá fyrsti samningur sveitarfélags við samtökin. Annars vegar er gerður samningur á grundvelli um búsetuúrræði og hins vegar er gerður samningur sem tekur til þjónustu þeirra sem fjallað er um í tillögunni að frátöldum meðferðarhlutanum. Reykjavíkurborg er nú eitt tveggja sveitarfélaga sem gert hafa þjónustusamning við SÁÁ sem styður við þá velferðarþjónustu sem borgin á að veita lögum samkvæmt, en framlög Reykjavíkurborgar til þeirrar velferðarþjónustu nemur 1,2 milljörðum. Þær tillögur sem hér eru til afgreiðslu falla að miklu leyti undir heilbrigðisþjónustu og er því ábyrgð ríkisins að fjármagna þær. 

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hverfa frá arðgreiðslukröfum í eigendastefnu Orkuveitunnar. Gjaldskrár Orkuveitunnar verði lækkaðar á Reykvíkinga til samræmis. Fjármálaskrifstofu og stjórn Orkuveitunnar verði falin nánari útfærsla gjaldskrárlækkana.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. 

7.    Umræðu um Laugaveginn og stöðu miðborgarinnar er frestað. 

8.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Borgarstjórn samþykkir að fela viðeigandi sviðum innan borgarinnar að hefja undirbúning að stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar, sem hefur það að markmiði að byggja íbúðir fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem eru í mestum húsnæðisvanda. Markmið byggingarfélagsins verði að sjá um allt ferlið frá upphafi til enda og er umhverfis- og skipulagssviði ásamt skrifstofu eigna og atvinnuþróunar falið að skoða hvernig megi útfæra slíkt, í samvinnu við velferðarsvið og fjármálaskrifstofu borgarinnar. Þar þarf að skoða innflutning byggingarefnis og möguleg magninnkaup sem standa þar til boða og útfæra hugmyndir um ráðningu byggingaraðila í verkið. Hlutverk byggingarfélagsins verði að sjá um uppbyggingu íbúðanna á borgarlandi og leigja út íbúðirnar í óhagnaðardrifnum rekstri. 

Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.

9.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings. Notendasamráð er skilgreint sem aðferð þar sem notandi kemur að mótun sinnar eigin þjónustu í samráði við þjónustuaðila og byggir á valdeflingu og þátttöku notenda. Nú þegar er þetta í starfsáætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram að auka vægi hlutdeildar notenda á öllum sviðum borgarinnar. Notendasamráð á rætur sínar að rekja til aukinnar áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Notendasamráð styrkir vald og þátttöku notenda. „Notendasamráð“ hefur vakið áhuga háskólanema sem hafa rannsakað það m.a. í lokaverkefnum og haldnir hafa verið opnir fundir um notendasamráð. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um félagsþjónustu sem fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.

10.    Umræðu um málefni Félagsbústaða er frestað.

11.    Umræðu um málefni Ferðaþjónustu fatlaðs fólks og samning Strætó bs. við Far-Vel er frestað.
 
12.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að listaverkaeign Listasafns Reykjavíkur verði gerð sýnilegri í skólum borgarinnar í þeim tilgangi að efla áhuga nemenda á menningu og listum. Safnstjóra Listasafns Reykjavíkur verði falið að koma á samstarfi við skóla- og frístundasvið og þess gætt við útfærslu verkefnisins að haft verði samstarf við skólastjóra og kennara. Jafnframt er lagt til að verk Listasafns Reykjavíkur verði sýnilegri í öðrum stofnunum borgarinnar í þeim tilgangi að sem flestir geti notið þeirra fjölda verka sem eru í eigu borgarinnar. Skoðað verði að koma upp sérstökum sýningum á safnaeigninni og á einstökum verkum eftir atvikum í skólum og stofnunum borgarinnar.

Frestað. 

13.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að Reykjavíkurborg hverfi frá áformum sínum um samstarf við Heimavelli vegna íbúðauppbyggingar á Veðurstofureitnum. Í krafti stærðar sinnar hefur hagnaðardrifna leigufélagið Heimavellir haft mikil neikvæð áhrif á leigumarkaðinn, sem er leigjendum ekki til bóta. Þess má geta að frá því að Heimavellir tóku til starfa í febrúar 2015 hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 40 prósent. Þó að skilyrði séu sett um að leigufélagið megi ekki hækka leigugjald íbúða á Veðurstofureitnum nema með leyfi borgarinnar, þá er mikilvægt að Reykjavíkurborg styðji ekki enn frekar við hagnaðardrifin leigufélög í þeirri gríðarlegri húsnæðiskreppu sem við búum nú við.

Frestað. 

14.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Fjárhagsaðstoð borgarinnar er veitt þeim sem ekki geta séð sér farborða án aðstoðar og er ekki veitt nema að allar aðrar leiðir hafi verið kannaðar til hlítar. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er því síðasta úrræðið sem stendur einstaklingum til boða og er oft hugsuð sem öryggisnet til skemmri tíma en sumir þurfa að lifa á þessari upphæð til lengri tíma. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðarinnar nemur allt að 189.875 kr. á mánuði fyrir einstakling og þá á eftir að draga frá skatt af þeirri upphæð. Upphæð fjárhagsaðstoðar er ekki til þess fallin að bæta viðkvæma stöðu þeirra sem framfleyta sér á henni og er langt frá því að vera nóg til að tryggja að einstaklingur og fjölskyldur geti lifað mannsæmandi lífi. Því er lagt til að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu verði bundin við upphæð lágmarkslauna fyrir fullt starf, sem verkalýðsfélögin hafa sett við 300.000 kr. á mánuði. Einnig er lagt til að fjárhagsaðstoðin þróist í takt við hækkun lágmarkslauna. Mikilvægt er að litið sé á fjárhagsaðstoð til framfærslu sem rétt einstaklingsins en ekki sem þátt sem stuðli að því að letja fólk til atvinnuþátttöku. Einstaklingar sem eru ófærir um að sjá sér farborða án aðstoðar eiga ekki að þurfa að sætta sig við upphæð sem dugar vart til grunnframfærslu.

Frestað. 

15.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að skóla- og frístundasvið kanni hve mikill kostnaður var innheimtur af börnum og foreldrum og/eða forráðamönnum þeirra á síðasta ári vegna skemmtana, viðburða og ferða á vegum grunnskóla borgarinnar. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda þeirra barna sem tóku þátt í skemmtunum, viðburðum og ferðum á vegum grunnskólanna á síðasta ári og fjölda þeirra sem ekki tóku þátt. Með því má áætla heildarkostnað fyrir þátttöku allra grunnskólabarna í öllum skemmtunum, viðburðum og ferðum á vegum skólanna. Óskað er eftir þessum upplýsingum svo hægt sé að meta það hvort innleiða megi þann lið inn í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, svo að félagslegir viðburðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsir. Hér er mikilvægt að taka fram að um er að ræða alla þá viðburði sem eru á einn eða annan hátt á vegum grunnskólanna, þ.m.t. skólaferðir, dansleiki, bekkjarkvöld og viðburði foreldrafélaga. Þá er einnig óskað eftir því að skóla- og frístundasvið kanni hvort munur sé á milli hverfanna í borginni hvað varðar útlagðan kostnað nemenda og foreldra og/eða forráðamanna þeirra vegna viðburða, skemmtana og ferða.

Frestað. 

16.    Lagt er til að Guðrún Ögmundsdóttir, Björn Gíslason og Rannveig Ernudóttir taki sæti í öldungaráði Reykjavíkur. 
Samþykkt. 
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

17.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. nóvember sl. 
15. liður fundargerðarinnar frá 15. nóvember; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2018, er samþykktur. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. nóvember: 

Samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsspá munu skuldir Orkuveitu Reykjavíkur hækka um tæpa 2,5 milljarða króna á milli áranna 2018 og 2019. Áætluð lántaka nemur um 21,3 milljörðum króna árið 2018 og 14,9 milljörðum króna árið 2019. Nettóskuldir hækka á tímabilinu og veltufjárhlutfall fer úr 1,1 niður í 1,0. Það eru vonbrigði að frekari niðurgreiðsla skulda skuli ekki lögð til grundvallar í framlagðri fjárhagsáætlun. Eins gefur fjárhagsspá Orkuveitunnar fyrirheit um nærri 14 milljarða arðgreiðslur til eigenda á næstu sex árum. Við teljum rétt að Orkuveitan leggi áherslu á kjarnastarfsemi og hverfi frá arðgreiðsluáformum. Svigrúm í rekstri Orkuveitunnar ætti mun fremur að nýta til niðurgreiðslu skulda, fjárfestingar í innviðum og lækkunar þjónustugjalda. Samkvæmt eigendastefnu á Orkuveita Reykjavíkur að bjóða viðskiptavinum þjónustu á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði. Við teljum rétt að horfið verði frá arðgreiðsluáformum og þjónustugjöld lækkuð. Þannig mætti færa Orkuveitu Reykjavíkur nær sínu réttilega hlutverki sem orkufyrirtæki í almannaeigu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Þegar horft er á áætlaða þróun vaxtaberandi skulda móðurfélags OR að viðbættri Gagnaveitu, er aukningin milli niðurstöðu 2017 og áætlaðrar útkomu 2018 um 2,6 ma.kr. sem skýrist af verðbótum og gengismun en milli 2018 og 2019 lækkun sem nemur um 400 m.kr. – en verðbætur og gengismunur hækka töluna um 2 ma.kr. Þetta eru niðurstöður þrátt fyrir miklar fjárfestingar í veitum og fráveitu sem eru löngu tímabærar. Fjárfestingar 2019 nema um 18 milljörðum eins og fram kemur í áætlun fyrirtækisins. Gjaldskrár hafa lækkað og fyrirtækið sækir fram. Snjallmælavæðing er í farvatninu, styrking rafdreifikerfisins sem styður við orkuskipti í samgöngum er hafin auk frekari forðaöflunar fyrir hitaveitu. Gjaldskrár Orkuveitunnar hafa lækkað á undanförnum árum. Í bókun Sjálfstæðisflokks kemur fram sú skoðun að hafna eigi arðgreiðslum en nýta frekar fjármagnið til að lækka gjaldskrár til þeirra sem nota þjónustu félagsins. Arðgreiðslurnar má rekja til mikilla eigna sem íbúar í Reykjavík hafa fyrst og fremst lagt til félagsins auk þeirra björgunaraðgerða sem ákveðnar voru 2011 og námu tæpum 12 milljörðum. Það er ekki óeðlilegt að arðgreiðslurnar skili sér þess vegna í borgarsjóð til að fjármagna bætta þjónustu og fjárfestingar og draga úr lántökuþörf borgarinnar í stað þess að dreifa arðinum á alla notendur þjónustunnar sem eru flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember: 

Hér staðfestist hversu mikil ábyrgð borgarinnar er af dótturfélögum sínum. Hér er um hreina ábyrgð borgarsjóðs að ræða upp á eitt hundrað milljarða króna. Hundrað þúsund milljónir. Það er því nauðsynlegt fyrir borgina að vera með varasjóð til að mæta mögulegum áföllum hjá fyrirtækjum hennar. Auk beinna ábyrgða „ber borgin mikla ábyrgð á Félagsbústöðum í heild“ eins og segir í greinargerð. Ófjármagnað er gat í fjárhagsáætlun Félagsbústaða sem ekki hefur verið leyst. Þá er bent á að tekjur OR í erlendum gjaldeyri voru á síðasta ári 6,2 milljarðar en vaxtagjöld og afborganir 11,6 milljarðar og er því gengisáhætta til staðar. Eðlilegast væri að OR fjármagnaði sig án ábyrgðar borgarsjóðs í stað þess að borgin þurfi að stofna sérstakan ábyrgðarsjóð.

18.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. nóvember, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 8. nóvember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. nóvember, skipulags- og samgönguráðs frá 7. og 14. nóvember, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 14. nóvember og velferðarráðs frá 7. nóvember. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun við 12. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 7. nóvember: 

Hljóðvist er mikilvæg fyrir íbúa borgarinnar. Hljóðvarnir gagnast á sumum stöðum til að minnka hávaða frá umferðaræðum. Ekki síður mikilvægt er að verja þau svæði sem mest kyrrð er í svo sem Elliðaárdalinn sem er stærsta náttúrulega svæði borgarinnar innan byggðarinnar. Það er því mikilvægt að samhliða því að gerðar eru hljóðvarnir þar sem hávaði er hvað mestur er jafnframt brýnt að varðveita lífsgæði á grænum náttúrulegum svæðum borgarinnar. Því ber að hætta við áform um atvinnustarfssemi í Elliðarárdal og uppbyggingu í Laugardal. Þá væri rétt að skoða meiri notkun á gróðri á hljóðvörnum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Góð hljóðvist er lýðheilsumál og skiptir gríðarmiklu máli í umhverfi okkar og sér í lagi í þéttri byggð. Hávaðamengun í borginni er of mikil. Hún er af mannavöldum og stafar að miklu leyti af mikilli og hraðri bílaumferð og flugumferð. Þá er ennþá of mikil notkun nagladekkja í Reykjavík. Ein árangursríkasta leiðin til að draga úr hávaðamengun í borginni er að draga almennt úr umferðarhraða og efla vistvæna ferðamáta og vistvænar samgöngur.


Fundi slitið kl. 22:13

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir    Vigdís Hauksdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

7 + 1 =