Borgarstjórn 17.1.2017 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 17.1.2017

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 17. janúar, var haldinn fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Dóra Magnúsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um biðlista eftir félagslegu húsnæði. R17010199

- Kl. 13.04 tekur Hildur Sverrisdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 13.19 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Áætlanir meirihlutans um að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 100 á ári hafa ekki gengið eftir. Á árinu 2016 fjölgaði almennum félagslegum leiguíbúðum um 27 íbúðir, þ.e. 26 voru keyptar á almennum markaði og ein af Búseta. Borgin byggði enga slíka íbúð. Þá fjölgaði borgin sértækum búsetuúrræðum um sex, þ.e. ein íbúð var keypt á almennum markaði og Félagsbústaðir byggðu íbúðakjarna fyrir fimm einstaklinga. Það var því fjölgun um 33 eignir hjá Félagsbústöðum á árinu 2016. Í glærum borgarstjóra er samtalan hins vegar 124 sem skýrist af því að auk þessara 33 eigna var 91 eign færð úr eignasjóði Reykjavíkurborgar til Félagsbústaða því var ekki um raunverulega fjölgun að ræða. Umsækjendum á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum fjölgaði um tæplega 25% á einu ári. Í árslok 2016 voru 893 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum, þar af voru 643 metnir í mikilli þörf. Til samanburðar má geta þess að í árslok 2015 voru 723 umsækjendur á biðlista, þar af voru 535 metnir í mikilli þörf. Áætlanir eru eitt, framkvæmdir annað. Meirihlutinn áætlar án þess að framkvæmdir fylgi. Er það miður og augljóst merki um arfaslaka stjórnun meirihlutans. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Félagslegum íbúðum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum, nú síðast um 124 á árinu 2016. Sé fjöldi félagslegra íbúða borinn saman við fjöldann í nágrannasveitarfélögum kemur í ljós að þær eru langflestar í Reykjavík eða um 15,5 á hverja 1.000 íbúa sem jafngildir tæplega 5% af heildarfjölda íbúða í Reykjavík. Framkvæmd húsnæðisáætlunar stendur nú sem hæst en þar er gert ráð fyrir að fjölga félagslegum íbúðum um 500 á næstu fimm árum. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg standi ekki ein í því að fjölga félagslegum íbúðum heldur setji nágrannasveitarfélögin nú fram áætlanir um fjölgun félagslegra íbúða af jafnmiklum metnaði og gert er hér í Reykjavík. Heildarfjöldi íbúða í Reykjavík árið 2015 var 51.231, þar af voru 2.326 í eigu borgarinnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Biðlisti eftir almennum félagslegum leiguíbúðum lengist enn en þar eru 893 manns í dag. Þetta er staðan þrátt fyrir að kosningaloforð Samfylkingarinnar í kosningunum 2014 hafi verið 2.500 til 3.000 leiguíbúðir á kjörtímabilinu 2014-2018. Þegar það er skoðað kemur í ljós að það hefur fjölgað um 138 almennar félagslegar leiguíbúðir frá árinu 2010. Miðað við 3.000 íbúðir á kjörtímabilinu vantar þá ennþá 2.862 íbúðir upp í það kosningaloforð. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vöruðu við þessu kosningaloforði 2014 og töldu það óráð að borgin væri að seilast svona mikið sjálf inn á húsnæðismarkaðinn. Um leið héldu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins því til haga að standa yrði undir þeirri þjónustu í húsnæðismálum sem borginni ber skylda til en það er að útvega þeim sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði lausn í þeim málum. Það vantar mikið upp á að meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar standi undir þeirri lögboðnu skyldu.

2. Fram fer umræða um lóðaúthlutanir borgarinnar frá 1. janúar 2012 fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum. R17010203

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar frá árinu 2011 hefst á þessum orðum: „Stefna Reykjavíkurborgar er að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki.“ Síðan eru liðin rúm 5 ár og ástandið aldrei verið verra. Stór hluti vandans eru alltof fáar lóðaúthlutanir borgarinnar. Á 5 ára tímabili eða frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2016 hefur Reykjavíkurborg einungis úthlutað 12 lóðum fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum. Þar af hefur einungis sex af lóðunum verið úthlutað á þessu kjörtímabili. Flestar lóðirnar sem verið er að byggja á eða til stendur að byggja á hafa verið lengi í höndum fasteignafélaga og banka á dýrustu stöðunum í borginni. Til að takast á við húsnæðisvandann sem nú er orðinn að viðvarandi er nauðsynlegt að auka lóðaframboð borgarinnar undir fjölbýlishús. Ekki gengur lengur að útbúa áætlanir og skrifa undir vilyrði meðan vandinn eykst. Það þarf að framkvæma en slíkt hefur vafist fyrir meirihlutanum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Við lóðaúthlutanir borgarinnar bætist fjöldinn allur af þéttingarverkefnum á þessu kjörtímabili þar sem verið er að auka byggingarmagn á þegar byggðum reitum og byggja á auðum reitum sem eru ekki í eigu borgarinnar, lóðum sem áður hefur verið úthlutað. Fjöldi íbúða í uppbyggingu á þessu ári gæti náð 2000 íbúðum, þar af hátt í 700 leigu- og búseturéttaríbúðir. Á árunum 2018 og 2019 gæti miðað við áætlanir hafist uppbygging á um 1.300 íbúðum hvort árið, þar af um 45% leigu- eða búseturéttaríbúðir þar sem borgin ýmist úthlutar lóðum eða styður við þéttingu á þegar byggðum reitum. Að nota fjölda lóðaúthlutana á undanförnum árum sem mælikvarða á hversu vel gengur að framfylgja húsnæðisáætlunum er því ansi villandi. Nær væri að líta til heildarfjölda uppbyggingarverkefna og þess byggingarmagns sem í gangi er í borginni hverju sinni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar hefur ítrekað fellt tillögur okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að bæta við fleiri lóðum í Úlfarsárdal til að létta þungann í húsnæðismálum í borginni. Það vantar 5.000 íbúðir nú þegar og það gengur hægt að byggja á þéttingarreitum enda eru slíkar lóðir dýrari og þyngri í vöfum en nýskipulagðar lóðir í hverfi í vexti eins og í Úlfarsárdal. Þessi seinagangur og tregða meirihlutans við að úthluta fleiri lóðum hefur þau áhrif að verð íbúða hefur rokið upp í borginni með auknum erfiðleikum fyrir fólk við að koma þaki yfir höfuðið og ráða við húsnæðiskostnaðinn. Reykjavíkurborg getur haft jákvæð áhrif á húsnæðismarkaði með því að úthluta fleiri lóðum en núverandi meirihluti sýnir því ekki áhuga.

3. Fram fer umræða um málefni Vesturbæjarins. R17010200

4. Lagt er til að Sverrir Þór Sverrisson taki sæti sem varamaður í hverfisráði Háaleitis og Bústaða í stað Ágústu Kristínar Andersen. R14060119
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 12. janúar. R17010001

6. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 12. desember 2016 og 9. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 11. janúar, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 12. desember 2016 og 9. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. janúar og velferðarráðs frá 15. desember 2016. R17010084

Fundi slitið kl. 16.41

Líf Magneudóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

11 + 0 =