Borgarstjórn 17.10.2017 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 17.10.2017

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2017, þriðjudaginn 17. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Magnús Már Guðmundsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Eva Einarsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Þórgnýr Thoroddsen, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Börkur Gunnarsson, Kjartan Magnússon, Áslaug María Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar, uppfærsla í október 2017, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. október 2017. R17030164

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Hryggjarstykkið í húsnæðisstefnu borgarinnar er samvinna við traust leigu- og búseturéttarfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Staðfest áform um uppbyggingu íbúða í samstarfi við þessi félög eru rúmlega 4000 íbúðir. Það er rúmlega einn Mosfellsbær. Hluti þeirra er risinn eða í byggingu og unnið er hörðum höndum að því að koma afganginum sem fyrst til framkvæmda. Alls munu 1000 íbúðir af þessu tagi rísa í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, 1340 námsmannaíbúðir í samvinnu við stúdenta, um 450 búseturéttaríbúðir, um 450 íbúðir fyrir eldri borgara, 105 hjúkrunarrými, yfir 100 sértæk búsetuúrræði og loks yfir 650 félagslegar íbúðum á vegum borgarinnar. Ef önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu taka á húsnæðismálunum af sama krafti og Reykjavíkurborg þá myndi húsnæðisvandinn á höfuðborgarsvæðinu heyra sögunni til á mun styttri tíma en ella. Önnur sveitarfélög geta því ekki haldið áfram að skila auðu í uppbyggingu félagslegra íbúða og annarra íbúða sem munu skila sér í heilbrigðari leigu- og húsnæðismarkaði.

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja algjörlega óviðunandi að meirihlutinn í borginni, þ.e. Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Björt framtíð sem átt hafa þátt í að skapa mikinn húsnæðisvanda í borginni með einstrengingslegri þéttingarstefnu sinni misnoti aðstöðu sína korter fyrir kosningar og dreifi auglýsingabæklingi um glærusýningar borgarstjóra. Það væri nú eitthvað sagt ef aðrir flokkar myndu nota peninga borgarbúa í slíka sjálfshátíðarkosningaauglýsingu.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Upplýsingarfundir um uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Reykjavik hafa verið haldnir árlega árum saman. Gefið hefur verið út upplýsingaefni sem hefur fengið góða dreifingu af þessu tilefni sl. tvö ár. Síðasta vor var einnig opnaður sérstakur upplýsingavefur www.ibudauppbygging.is Allt eru þetta aðgerðir sem miða að því að auka upplýsingastreymi til borgarbúa og byggingaraðila um húsnæðis- og uppbyggingarmál. Það að boðað hafi verið til Alþingiskosninga með stuttum fyrirvara hefur ekkert með þessa upplýsingamiðlun að gera.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Einstrengingsleg þéttingarstefna og lóðaskortsstefna hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Strax í upphafi kjörtímabilsins var ljóst að breyta þurfti áætlunum til að koma til móts við þann húsnæðisskort sem stefndi í og er nú veruleiki. Meirihlutinn virti þær viðvaranir að vettugi og ríghélt í þröngsýnar áætlanir um þéttingu byggðar. Þá er það meirihlutanum í Reykjavík til mikils vansa að misnota almannafé í eigin þágu með því að senda auglýsingabækling inn á hvert heimili á kostnað skattborgara.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að afnema bann við kynningum á íþrótta- og æskulýðsstarfi í grunnskólum á skólatíma. Skólastjórnendum verði falið að skipuleggja þessar heimsóknir í samráði við íþrótta- og æskulýðsfélögin. R17100362

Samþykkt með níu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur að vísa tillögunni frá.
Gréta Björg Egilsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka enn og aftur þá skoðun sína að mikilvægt sé að fallið sé frá þeim reglum sem fela í sér miðstýringu og takmarkanir á kynningum íþrótta- og æskulýðsfélaga í grunnskólum. Frítíminn er stór partur af lífi fólks og það skiptir máli hvernig við verjum honum. Frítímanum getur bæði verið varið á jákvæðan og neikvæðan hátt. Þess vegna er mikilvægt að við kennum og hvetjum börn og ungmenni til að nýta frítímann á uppbyggilegan hátt sem hefur jákvæð áhrif á þroska þeirra og líðan. Íþrótta- og æskulýðsstarf hefur mikið forvarnargildi sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og dregur úr áhættuhegðun. Mikilvægt er því að efla þessar kynningar til að vekja áhuga barna og unglinga á því íþrótta- og tómstundastarfi sem er í boði og ekki síst í þeim nemendahópum þar sem þátttakan er minnst. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að kynningarstarf í skólunum á þessu starfi hefur skilað góðum árangri.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skýrar reglur um kynningar og auglýsingar heimila kynningar á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfi á skólatíma í samráði við skólastjórnendur. Allt tal um bann við slíku er tilhæfulaust. Tillöguflutningurinn er því óþarfur og var tillögunni því vísað frá.

- Kl. 16.35 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti.

3. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. október. R17010001

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi bókun:

Á fundi borgarráðs 31. ágúst sl. var samþykkt að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að leita tímabundinna lausna til aukningar á félagslegu húsnæði í Reykjavík, í samræmi við samþykkt velferðarráðs og húsnæðisáætlun borgarinnar. Á fundi borgarráðs 24. ágúst sl. komu fram áhyggjur borgarráðsfulltrúa, þá Framsóknar og flugvallarvina, yfir því að sú aðferðarfræði sem tillagan gerir ráð fyrir varðandi tímabundin úrræði myndi leiða til enn frekari verðhækkana á fasteignamarkaði og hækkana á leigu þar sem samkeppnin myndi aðeins aukast um það takmarkaða húsnæði sem fyrir er í borginni. Í umsögn fjármálaskrifstofu segir að tillagan sé ekki líkleg til að skapa hækkanir á fasteigna- og leigumarkaði og það rökstutt með að um verði að ræða óhefðbundnar lausnir. Ekki er að sjá neitt óhefðbundið við kaup í liðum 28-40 í fundargerð frá 5. okt. og 53-59 í fundargerð frá 12. okt.


4. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 13. október.
Samþykkt að vísa 4. lið fundargerðarinnar, breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna verkefna forsætisnefndar, til síðari umræðu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 10. október, menningar- og ferðamálaráðs frá 9. október, skóla- og frístundaráðs frá 11. október, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 2. október og umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. og 11. október. R17010084

5. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í dag, ellefu dögum fyrir Alþingiskosningar, lætur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, dreifa fjörutíu blaðsíðna riti á öll heimili í Reykjavík með áróðri um húsnæðismál sem er eitt helsta kosningamálið í komandi kosningum. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð enda er með öllu ótækt að borgarstjóri noti almannafé í pólitískum tilgangi með slíkum hætti. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað við þennan kosningabækling. R 17030164

6. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Nú er Reykjavíkurborg annaðhvort að kaupa sjálf fasteignir eða leigja á frjálsum markaði til að minnka biðlista eftir félagslegu húsnæði, en sá listi hefur aldrei verið eins langur. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum hversu lengi þeir aðilar sem fengið hafa úthlutaðri íbúð/húsnæðisúrræði á þessu ári, árunum 2016 og 2015, hafa verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg. Þá óskast jafnframt að lagðar séu fram upplýsingar um hvort um sé að ræða einstaklinga eða fjölskyldur. R17100381

Fundi slitið kl. 17.06

Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir Magnús Már Guðmundsson

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =