Borgarstjórn 16.10.2018 | Reykjavíkurborg

Borgarstjórn 16.10.2018

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 16. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sabine Leskopf, Ragna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Baldur Borgþórsson, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Egill Þór Jónsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Borgarstjórn samþykkir að leggja aukna áherslu á innleiðingu þjónustustefnu borgarinnar með sérstakri áherslu á notendamiðaða nálgun í nærþjónustu við borgarbúa, skilvirkar rafrænar lausnir, fækkun skrefa og einföldun ferla í allri þjónustu borgarinnar, þar með talið skipulags- og byggingarmálum, skóla- og frístundamálum, velferðarmálum sem og öðrum þjónustuþáttum við íbúa og atvinnulíf. Tillögur að útfærslu ásamt verk-, tíma- og kostnaðaráætlun verði kynntar fyrir borgarráði. Stofnaður verði stýrihópur skipaður formanni borgarráðs og formanni mannréttinda- og lýðræðisráðs auk hlutaðeigandi formanna fagráða til að styðja við verkefnið og móta nánar forgangsröðun verkefna. Með hópnum starfi skrifstofustjóri þjónustu og reksturs ásamt sviðsstjórum þeirra sviða eftir því sem við á.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18040190
Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Nútímavæðing þjónustu borgarinnar er löngu tímabær. Þjónusta Reykjavíkurborgar við borgarbúa hefur ár eftir ár fengið falleinkunn samkvæmt þjónustukönnunum sem gerðar eru milli sveitarfélaga. Um það er ekki deilt. Sú falleinkunn hefur ekki leitt til þess að gripið hafi verið til sérstakra ráðstafana. Borgarbúar fá sein svör við erindum og hafa þurft að leita til umboðsmanns borgarbúa, dómstóla, úrskurðarnefnda og umboðsmanns Alþingis svo dæmi séu tekin. Íbúar hafa átt erfitt með að fá viðtal við æðsta embættismann og framkvæmdastjóra borgarinnar, borgarstjóra. Enda hefur borgarstjóri ekki fetað í fótspor forvera sinna sem buðu upp á vikulega viðtalstíma fyrir borgarbúa. Það hefur ekki borið á því að farið hafi verið eftir þeim stefnum sem samþykktar hafa verið á undanförnum árum. Nýleg dæmi eru um brot bæði á stefnum og reglum borgarinnar. Það eina sem er fast í hendi í þessari tillögu er skipun enn eins stýrihópsins, en engin mælanleg markmið liggja fyrir. Engin áform um mælingar. Ekki einu sinni tímamörk. Þessi tillaga um að farið verði eftir þjónustustefnu borgarinnar er því rýr í roðinu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg hefur lengi lagt áherslu á góða þjónustu og á starfsfólk borgarinnar þakkir skilið fyrir að sinna störfum sínum af alúð og árvekni. Með tillögu þessari sýnir meirihlutinn í Borgarstjórn Reykjavíkur að aukinn kraftur skuli settur í innleiðingu þjónustustefnu með sérstaka áherslu á notendamiðaða nálgun í nærþjónustu, skilvirkar rafrænar lausnir, fækkun skrefa og einfaldari ferla í allri þjónustu borgarinnar. Reykjavík á að vera þjónustuborg sem setur þarfir og væntingar íbúa í forgrunn og nýtir þjónustukannanir til að fylgjast með upplifun og ánægju þeirra. Innleiðingin sem nú er framundan er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð. Næstu skref verða unnin í nánu samstarfi við notendur hverrar þjónustu og starfsfólk borgarinnar, m.a. til þess að setja skýr þjónustuviðmið og tryggja að þjónustan mæti þörfum borgarbúa.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að minnka eða útrýma þeim mismun sem myndast hefur á milli barna innflytjenda og annarra barna hvað varðar námsárangur og þátttöku í íþróttum og tómstundum. Lagt er til að námsráðgjöf og heimanámsaðstoð til barna innflytjenda verði efld og skimað sérstaklega eftir námsörðugleikum í þessum hópi barna.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að minnka eða útrýma þeim aðstöðumun sem birtist í námsárangri og þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttum og tómstundum. Lagt er til að námsráðgjöf og heimanámsaðstoð til barna með annað móðurmál en íslensku verði efld og skimað sérstaklega eftir námsörðugleikum í þessum hópi barna, t.d. með því að taka í notkun viðurkennt matstæki sem mælir almenna þekkingu og námsfærni á móðurmáli nemanda. Áætlanir um móttöku barna innflytjenda í leik-, grunnskólum og á frístundaheimilum verði endurskoðaðar. Ríkið og aðrir aðilar sem eiga aðkomu að mótun menntakerfisins beiti sér fyrir því að gefið verði út námsefni sem hentar nemendum undir 18 ára með annað móðurmál en íslensku og jafnframt að auknu fjármagni verði varið til rannsókna og kennslu á þessu sviði. Samstarf við önnur sveitarfélög um málefni barna með annað móðurmál en íslensku verði eflt. R18100271

Samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Vísað til frekari útfærslu skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er á okkar ábyrgð að skólakerfi veiti öllum jöfn tækifæri, óháð uppruna og efnahag. Sú tillaga sem hér hefur verið samþykkt er mikilvægt innlegg í þá vinnu sem átt hefur sér stað á vettvangi skóla- og frístundaráðs. Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á upprunalegu tillögunni er haldið til haga þeim mikilvægu áherslum sem fram komu í þeirri tillögu sem við lögðum fram á fundinum, og þeirri greinargerð sem henni fylgdi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að staða barna innflytjenda í leik-, grunnskólum og á frístundaheimilum hafi loks fengið verðskuldaða umræðu í borgarstjórn og afgreiðslu meirihlutans. Mikilvægt er að tillögunni verði fylgt fast eftir á viðeigandi sviðum.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ráðist verði í aðgerðir til að bæta námsárangur barna með annað móðurmál en íslensku og brúa það bil sem er á stöðu þeirra borið saman við önnur börn. Tekið verði í notkun viðurkennt matstæki þar sem könnuð er almenning þekking og námsleg staða barna á þeirra eigin móðurmáli. Gerðar verði nauðsynlegar endurbætur á áætlunum um móttöku barna í leik-, grunnskólum og frístundaheimilum, stutt verði við námsráðgjöf og heimanám barna með annað móðurmál en íslensku og samstarf við önnur sveitarfélög aukið. Þá hvetur borgarstjórn ríkið til að beita sér fyrir því að útbúið verði námsefni sem sérstaklega er ætlað börnum með annað móðurmál en íslensku og að rannsóknir og kennsla á því sviði verði efld.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100271
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna draga tillöguna tilbaka með vísan til samþykktar borgarstjórnar á tillögu í lið 2 á fundinum.

4.    Fram fer umræða um keðjuábyrgð, félagslegt undirboð, siðræn innkaup og viðskiptahætti og hvernig staðið er að verkkaupum og samningum við aðalverktaka á vettvangi borgarinnar.

-    Kl. 18:13 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Magnús Már Guðmundsson tekur þar sæti.

Lagt er til að tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um óháða rannsókn á samningum og framkvæmd við Grensásveg 12 verði tekin á dagskrá með afbrigðum.
Fellt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að taka tillöguna á dagskrá. R18100289

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hvert málið af öðru er nú að springa framan í meirihlutann. Jafnréttislög brotin, dómur sem kostar borgina margar milljónir. Hið víðfræga braggasukk og Mathöllin á Hlemmi, þrefalt fram úr áætlun. Alvarleg málefni Félagsbústaða að springa út, undirboð á starfsmönnum Strætó bs. og aðbúnaður og öryggi á Grensásvegi 12 sem er ekki í samræmi við lög og reglur. Hvar er keðjuábyrgðin í þessum málum? Meirihlutinn segir þetta allt grafalvarlegt. Að líta mál alvarlegum augum nær skammt í ljósi alls þessa. Þegar litið er yfir þessi mál er nokkuð víst að mörg þeirra hafa fengið að grassera lengi án viðunandi eftirlits og aðhalds fyrrverandi meirihluta sem að hluta til situr nú áfram við völd. Hvað hefur farið úrskeiðis hjá borginni? Þurfa ekki vinnubrögð borgarmeirihluta síðasta kjörtímabils að vera tekin út af óháðum aðila? Hvað fór úrskeiðis við stýringu borgarinnar, eftirlit og aðhald í þessum málum? Á það má minna að Píratar sátu í síðustu borgarstjórn. Píratar og Viðreisn ganga inn í þetta samstarf og axla þar með þessa ábyrgð. Stefna þessara tveggja flokka sem hér eru nefndir er svo sannarlega ekki að fá að blómstra í þessu samstarfi í því ástandi sem nú er með hverjum degi að fá skýrari mynd.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Árið 2016 sýndi Reykjavíkurborg mikið frumkvæði með því að skuldbinda verktaka til að tryggja fólki lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum með því að skrifa undir yfirlýsingu þar að lútandi. Borgin hefur fylgt þessu margvíslega eftir en verkið er stórt miðað við fjölda fyrirtækja og samninga og vinna við innleiðinguna og upplýsingaöflun stendur nú yfir og lýkur innan nokkurra vikna. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna telja að með endurskoðun innkaupareglna borgarinnar sé tækifæri til þess að vinna enn markvissar gegn félagslegu undirboði og brotum á réttindum starfsfólks samningsbundinna fyrirtækja og að stuðla að aukinni áherslu á siðræn innkaup.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Allir verkferlar eiga að vera skýrir við innkaup borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur þverbrotið eigin reglur eins og hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum og umræðu hér í borgarstjórn. Innkauparáð samþykkti skilyrði um innkaup þann 29.4.2016, ári áður en gerður var samningur af hálfu SEA um Grensásveg 12 um byggingu íbúða. Í 5. gr. innkaupastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að við innkaup sé auk kostnaðar tekið tillit til gæða-, umhverfis- og mannréttindasjónarmiða. Lítið hefur farið fyrir þessari stefnu þegar að kemur að framkvæmdum m.a. við Grensásveg 12, þar sem ítrekað hefur verið brotið á starfsfólki sem var látið rífa niður asbest án leyfis. Þá hefur vinnueftirlitið ítrekað þurft að loka húsinu og þurft að stöðva framkvæmdir. Samiðn hefur staðhæft að borgin beri skyldur í þessu máli sem verkkaupi, en Reykjavíkurborg hélt því fram að hún hafi ekki neina aðkomu að málinu þvert á yfirlýsta stefnu borgarinnar. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir m.a. að borgaryfirvöld skuldbindi sig til að vinna að mannréttindum þeirra sem borgin á í samskiptum og viðskiptum við. Það hefur ekki verið gert. Stefnur eru lítils virði ef Reykjavíkurborg fer ekki eftir stefnum sínum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Það er ekkert launungamál að framkvæmdir á Grensásvegi, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu, eru sorgarsaga. Keðjuábyrgð á ekki við í fasteignakaupum líkt og á Grensásvegi þar sem Reykjavíkurborg er kaupandi íbúða. Eins og fram hefur komið eru íbúðir þær sem borgin keypti ekki tilbúnar og því eru framkvæmdirnar sem nú standa yfir unnar á vegum seljanda fasteignarinnar sem seldi hana sem íbúðir. Þó Reykjavíkurborg sé þriðji aðili í málinu er staðan litin mjög alvarlegum augum og hefur borgin ítrekað bent á það sem betur verður að fara. Áframhaldandi aðkoma Reykjavíkurborgar að málinu, þar með talin endurskoðun kaupsamningsins sjálfs, er í skoðun.

-    Kl. 19:40 víkur Guðrún Ögmundsdóttir af fundi og Ellen Calmon tekur sæti.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65% í 1,60% þegar á árinu 2019.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100290
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í meirihlutasáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna segir: „Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir úr 1,65% í 1,60% fyrir lok kjörtímabilsins.“ Meirihlutinn vinnur í samræmi við þá nálgun og fyrirhugar ekki lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á árinu 2019.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Sósíalistaflokkurinn hafnar því að Reykjavíkurborg eigi að stunda kapphlaup við önnur sveitarfélög í að aflétta álögum á fyrirtæki. Þvert á móti ætti Reykjavíkurborg að byggja upp samstöðu meðal sveitarfélaga um að hætta slíku, enda hafa afslættir sveitarfélaga á gjöldum fyrirtækja grafið undan getu sveitarfélaganna til að sinna lögbundnum skyldum gagnvart íbúunum. Sósíalistar hvetja til þess að Reykjavíkurborg taki forystu um endurskoðun á tekjuöflun sveitarfélaga og geri kröfur um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur, aðstöðugjöld verði aftur lögð á fyrirtæki og gripið verði til annarra aðgerða svo fyrirtækin og auðugasta fólkið á Íslandi greiði sanngjarnan hlut til sveitarfélaganna. Endurreisn skattkerfisins og afnám skattfríðinda hinna ríku er frumforsenda þess að hægt verði að byggja hér upp gott samfélag.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2019 hækkar atvinnuhúsnæði um 16,6%. Þetta leiðir að óbreyttu til hundraða milljóna króna í aukna skattheimtu á fyrirtæki. Fasteignagjöld eru óheppileg skattheimta á fyrirtæki þar sem þau leggjast á eigið fé þeirra óháð afkomu og skuldsetningu. Ekki þarf að fjölyrða um áhrifin, nú þegar hægir á vexti í hagkerfinu, auk þess að launaskrið hefur verið umtalsvert á síðustu árum. Því þolir atvinnulífið í borginni síður slíkar hækkanir og þær skerða samkeppnisstöðu fyrirtækja í borginni gagnvart fyrirtækjum í sveitarfélögum með lægri skattheimtu. Af 10 stærstu fyrirtækjum landsins hafa eingöngu 4 höfuðstöðvar í Reykjavík. Það ætti að vera kappsmál fyrir Reykjavíkurborg að skapa hér góð skilyrði til reksturs fyrirtækja.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ef lækka á álögur þá ætti það fyrst og fremst að vera á barnafjölskyldur. Flokkur fólksins hefur verið að ræða um að lækka gjald skólamáltíða og fyrir liggur tillaga þess efnis að börn fátækra foreldra greiði ekki aukagjald í félagsmiðstöðvum og fái gjaldfrjáls frístundaheimili. Á sama tíma og tillögur af þessu tagi eru lagðar fram styður Flokkur fólksins ekki tillögur um að tekjur borgarsjóðs minnki.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að Reykjavíkurborg sem eigandi Félagsbústaða boði til félagsfundar í Félagsbústöðum og breyti þá samþykktum þess þannig að tveir fulltrúar frá félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum fái sæti í stjórn Félagsbústaða. Lagt er til að þeir fulltrúar hefji stjórnarsetu sína sem áheyrnarfulltrúar með tillögurétt og málfrelsi. Ef vel gengur er lagt til að þeir fulltrúar verði gerðir að fullgildum stjórnarmeðlimum að ári liðnu. Því er lagt til að stjórnarsamþykktum Félagsbústaða verði breytt og verði svohljóðandi: Stjórn félagsins er skipuð þremur aðilum en ekki er skipuð varastjórn. Stjórn er kjörin á aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Tilnefningar til stjórnarsetu koma frá eiganda félagsins, Reykjavíkurborg. Stjórnin kýs sér formann og varaformann og skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Þar að auki sitja í stjórninni tveir áheyrnarfulltrúar frá Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum, kjörnir til eins árs í senn á félagsfundi. Tilnefningar um áheyrnarfulltrúa koma frá Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi breytingatillögu: 

Lagt er til að Reykjavíkurborg sem eigandi Félagsbústaða, boði til félagsfundar í Félagsbústöðum og breyti þá samþykktum þess þannig að einn fulltrúi frá félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum fái sæti í stjórn Félagsbústaða. Lagt er til að fulltrúinn hefji stjórnarsetu sína sem áheyrnarfulltrúi með tillögurétt og málfrelsi. Ef vel gengur er lagt til að fulltrúinn verði gerður að fullgildum stjórnarmeðlim að ári liðnu. Því er lagt til að stjórnarsamþykktum Félagsbústaða verði breytt og verði svohljóðandi: Stjórn félagsins er skipuð þremur aðilum en ekki er skipuð varastjórn. Stjórn er kjörin á aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Tilnefningar til stjórnarsetu koma frá eiganda félagsins, Reykjavíkurborg. Stjórnin kýs sér formann og varaformann og skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Þar að auki situr í stjórninni áheyrnarfulltrúi frá Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum, kjörinn til eins árs í senn á félagsfundi. Tilnefning um áheyrnarfulltrúa koma frá Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum. R18100291

Breytingatillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Samþykkt að vísa tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands til meðferðar stjórnar Félagsbústaða.

Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjórn samþykkir að vísa tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands til stjórnar Félagsbústaða til meðferðar og útfærslu. Einnig beinum við því til stjórnar að auka samráð almennt við leigjendur Félagsbústaða.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að óháður aðili rannsaki hvers vegna framkvæmdir við endurbætur á Hlemmi Mathöll, Laugavegi 107, fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum. Til grundvallar rannsókninni verði athugað hverjir höfðu umsjón með verkefninu, gáfu heimildir fyrir framúrkeyrslunni, hvort verkefnið hafi verið boðið út og hvaða verktakar unnu að verkinu. Jafnframt skal rannsakað hvort leigusamningur og leiguverð standist skoðun og sé í samræmi við markaðsverð. R18100292

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Framkvæmdir við húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi eru enn annar stórskandall af þessum toga hjá borginni. Margt kom á óvart í verkinu sem olli því að kostnaður varð þrefalt meiri en áætlað var. Þetta mál verður að skoða ofan í kjölinn. Öldur mun ekki lægja fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Svona getur þetta ekki haldið áfram í borginni. Finna þarf leiðir til að tryggja að áætlanir haldi í verkefnum sem þessum. Það er ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á svona vinnubrögð þar sem farið er með fé þeirra eins og verið væri að spila fjárhættuspil. Þegar vísbendingar eru um að verk sé að fara fram úr áætlun þarf nauðsynlega að liggja fyrir einhver viðbragðsáætlun. Hversu skemmtilegur staður Mathöllin er skiptir bara ekki máli í þessu sambandi. Lífsgleði og lífshamingja sem Mathöllin er sögð veita mörgum eru ekki neinar sárabætur, alla vega ekki fyrir alla borgarbúa.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á að fram hefur komið að framkvæmdir við endurbætur á Hlemmi Mathöll hafi farið langt fram úr kostnaðaráætlun og taka undir að skoða þurfi meðferð framkvæmdarinnar. Jafnframt er bent á að ekki sé gert ráð fyrir að þessi kostnaðarauki leggist á leigutaka, líkt og gert er þegar endurbætur eru unnar á öðrum fasteignum borgarinnar, svo sem grunnskólum og leikskólum. Sömuleiðis þurfa skjólstæðingar velferðarsviðs, leigjendur Félagsbústaða, að greiða leigu sem er ætlað að endurspegla kostnað vegna endurbóta á húsnæði þeirra. Það vekur því sérstaka furðu að Reykjavíkurborg skuli ákveða að niðurgreiða húsaleigu til einkahlutafélags. Þessar niðurgreiðslur borgaryfirvalda eru til að skekkja samkeppnisstöðu í veitingarekstri í borginni og alvarleg mismunum á rekstri fyrirtækja í greininni. Alvarlegast er að borgaryfirvöld skuli kjósa að niðurgreiða húsaleigu en krefjast á sama tíma fullrar húsaleigu af skjólstæðingum Félagsbústaða og sífellt velta auknum rekstrar- og framkvæmdakostnaði stofnunarinnar á fólk í erfiðri og viðkvæmri stöðu á húsaleigumarkaði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í ljósi þess að frumkvæðisathugun innri endurskoðanda Reykjavíkur varðandi Hlemm Mathöll er nú þegar hafin er tillögu borgarfulltrúans vísað frá.

8.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að heimila akstur bifreiða með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða (P-kort) um göngugötur í miðborg Reykjavíkur og að bifreiðum með slíkt stæðiskort verði heimilt að leggja á bílastæðum í öllum göngugötum borgarinnar. Jafnframt er lagt til að borgarstjórn samþykki að leggja það til við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að hann ákveði hraðamörk á göngugötum borgarinnar við 10 km/klst. og á það bæði við um bifreiðar fatlaðra sem og bifreiðar sem keyra um göngugötur með aðföng.

Greinargerð fylgir tillögunni. R18100293
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Undanfarin ár hefur nokkrum götum í miðborginni verið breytt tímabundið í göngugötur til að auðga mannlíf miðborgarinnar. Samkvæmt viðhorfskönnun sem Maskína ehf. vann fyrir umhverfis- og skipulagssvið fyrr á þessu ári, er mikill meirihluti borgarbúa jákvæður gagnvart göngugötum í miðborginni. Tæplega 80% þeirra telja að göngugöturnar hafi jákvæð áhrif á mannlífið. Ferlinefnd fatlaðs fólks hefur fjallað um göngugötur og ekki lagst gegn þeim. Samráð við alla notendur sem og ferlinefnd fatlaðs fólks er mikilvægt og brýnt að því verði haldið áfram. Akstur um göngugötur myndi rýra verulega þau miklu umhverfisgæði sem göngugötur búa yfir. Í dag mynda göngugötur í Reykjavík ekki stórt samfellt svæði enda er akstur leyfður um þvergötur. Af því leiðir að lengsta vegalengd milli bílastæðis og verslunar er innan við 100 metrar. Mikilvægt er að kynna hin fjölmörgu P-merktu bílastæði í miðborginni, þar á meðal í bílastæðahúsum. Þegar göngugötur verða festar í sessi allt árið um kring skapast tækifæri til að auka aðgengi að miðbænum og að fjölga P-merktum bílastæðum.

9.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að fallið verði frá því að innri endurskoðun geri heildarúttekt á bragganum. Þess í stað verði utanaðkomandi aðila falið að gera úttektina. Í ljósi þeirra miklu anna sem eru hjá innri endurskoðanda vegna sérstakrar úttektar á Orkuveitu Reykjavíkur gæti það tafið fyrir rannsókn og úttekt á endurgerð braggans. Með því að fela utanaðkomandi aðila úttektina yrði rannsókn málsins auk þess hafin yfir allan vafa. Við rannsókn á málinu skal enginn angi málsins undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Enn fremur athafnir og athafnaleysi framkvæmdastjóra borgarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R17080091
Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

-    Kl. 00:24 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm tekur þar sæti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Miðflokkurinn harmar að meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna hafi lagst gegn tillögu Miðflokksins á síðasta fundi borgarastjórnar, þann 2. október síðastliðinn, um að óháður aðili yrði fenginn til að gera úttekt á framkvæmdum við svonefndan bragga við Nauthólsveg 100 og fagnar því tillögu Sjálfstæðismanna nú. Borgarbúar geta ekki sætt sig við að þurfa að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir niðurstöðu, sbr. úttekt á framkvæmdum við Írabakka 2-16 þar sem tveggja og hálfs árs bið var eftir niðurstöðu IE, í jafn alvarlegu máli og þar um ræðir, 44 milljóna króna áætlun sem endaði í 728 milljónum. Sá möguleiki er fyrir hendi að á einhverju stigi málsins þurfi að vísa því til frekari meðferðar. Það er því mikilvægt að úttekt sé framkvæmd af aðila sem á enga aðkomu að málum. Enga.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Á meðan sagt er að þetta sé litið grafalvarlegum augum þá eru allt of margar réttlætingar í gangi í þessu braggamáli. Framúrkeyrsla annarra verkefna réttlætir ekki braggann og það að enginn kjörinn fulltrúi hafi tekið pokann sinn vegna framúrkeyrslu eru heldur engin rök fyrir því að borgarstjóri ætti ekki að segja af sér. Stærð verkefnis eða upphæð framúrkeyrslunnar er ekki siðferðileg mælistika í þessu sambandi. Þótt upphæðin sé ekki af sömu stærðargráðu og Ráðhúsið eða Orkuhúsið er það ekki minna alvarlegt. Siðferðiskennd borgarbúa er misboðið og hún er hin siðferðislega mælistika. Hver svo sem gerir úttektina þá er ekki séð að niðurstaða hennar fríi æðsta valdhafa borgarinnar ábyrgðinni. Málið er alltaf að taka á sig á alvarlegri myndir. Borgarfulltrúa er annt um að saklaust fólk verði ekki ásakað en nú hafa litið dagsins ljós upplýsingar um alvarlega misnotkun á skattfé borgarbúa. Hér er verið að vísa í nautasnitsel að andvirði 35 þúsund króna. 1300 klukkustundir í hönnun, 114 vettvangsferðir og fundir vegna hönnunar, 33 milljónir til verkfræðistofu. Þessum upplýsingum og fleirum er sagt frá í einum af fjölmiðlum landsins sem segist hafa þetta staðfest. Að baki þessu eins og öðru liggur einhver sálfræði sem ekki síður þarf að skoða.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn vísaði því þann 2. október sl. til innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar að gera úttekt á því hvers vegna kostnaður við endurbyggingu Nauthólsvegar 100 fór jafnmikið fram úr áætlun og raun ber vitni. Beiðni um úttekt var ítrekuð á fundi borgarráðs þann 11. október sl. með tillögu sem gekk enn lengra; að við viljum allar upplýsingar á borðið til að geta hafist handa við úrbætur á kerfinu. Innri endurskoðun er óháð stofnun og sækir utanaðkomandi aðstoð eftir þörfum og í takt við aukið verkefnaálag.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Eðlilegast væri að fela utanaðkomandi aðila úttekt í þessu máli, enda er innri endurskoðun störfum hlaðin. Innri endurskoðun var falin umfangsmikil úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum hennar. Það er mikilvægt að úttekt á braggamálinu bitni ekki á Orkuveitu-úttektinni. Þá er braggamálið þess eðlis að mikilvægt er að fá niðurstöðu í úttekt þess sem fyrst en úttekt innri endurskoðunar á viðhaldsverkefni Félagsbústaða, sem var framkvæmt án útboðs og fór 330 milljónum íslenskra króna fram úr ætlun við Írabakka 2-16, tók tvö og hálft ár eða 30 mánuði.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti leigusamninga bæði á Bragganum í Nauthólsvík og Hlemmi Mathöll.

10.    Lagt til að Vilborg Guðrún Sigurðardóttir taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar. R18060087
Samþykkt.

11.    Lagt til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar í stað Alexöndru Briem og að jafnframt að Valgerður Árnadóttir taki sæti Rannveigar sem varamaður í stjórninni. R18060110
Samþykkt.

12.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. október 2018. R18010002
- 11. liður fundargerðarinnar frá 4. október; auglýsing vegna breytingar á deiliskipulagi Úlfarsfells, er samþykktur með með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R17110067

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Miðflokkurinn leggst alfarið gegn fyrirhuguðum framkvæmdum á einum vinsælasta útsýnisstað borgarinnar. Eftirtekt vekur hversu hart Reykjavíkurborg hefur gengið fram í þessu máli þvert gegn vilja íbúa Úlfarsárdals, Grafarholts sem og íbúa borgarinnar almennt. Það má sjá á þeim óleyfisframkvæmdum sem þegar hefur verið ráðist í og standa nú á Úlfarsfelli. Nú skulu téðar óleyfisframkvæmdir notaðar sem helstu rökin fyrir frekari framkvæmdum. Samkvæmt upplýsingum er helsti ávæningur af téðum framkvæmdum tengdur fm-útvarpssendum. Á sama tíma eru fm-rásir á undanhaldi víðast hvar í Evrópu. Málsrök bera með sér að slá skuli ryki í augu sjáandans með fyrirheitum um útsýnipalla og náttúruleg byggingarefni. Það er ekkert náttúrulegt við 50 m hátt stálmastur hlaðið tækjabúnaði sem sendir frá sér slíka geislun að búnaðurinn var tekinn niður í Kópavogi vegna ógnar við heilsu íbúa. Að ætla sér að færa vandann yfir á íbúa Reykjavíkur er ekki lausn. Það er ósvífni. Fyrir liggur að hér er um að ræða hagsmuni einkafyrirtækis, ekki íbúa.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Útsýnispallurinn mun draga að gesti og er fyrsti útsýnisstaðurinn í borginni sem verður aðgengilegur öllum. Með mastrinu mun útvarpsþjónusta á svæðinu batna, almannavarnarhlutverki útvarps verður betur sinnt og að sama skapi verður aðgangur göngufólks að fjallinu ekki hindraður. Sviðsstyrkur í nágrenninu við mannvirkin verður vel undir mörkum ICNIRP-staðalsins og því hættulaus.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Úlfarsfellið er orðin ein helsta útivistarperla Reykvíkinga og vaxandi fjöldi gengur á fjallið dag hvern. Þá er Ferðafélag Íslands með skipulagðar göngur á Úlfarsfell vikulega. Það er ljóst að með þéttingu byggðar í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási þá verður ekki prýði fyrir þá sem stunda útivist á Úlfarsfelli eða ekki síður hjá þeim sem búa á svæðinu af 50 metra háu fjarskiptamastri á toppi Úlfarsfells. Sjónræn áhrif verða því alltaf mikil af mastrinu. Fullt samráð þarf að vera við íbúa svæðisins og Ferðafélag Íslands þegar farið er í jafn viðamiklar framkvæmdir og fyrirhugaðar eru á Úlfarsfelli. Nú hefur komið í ljós að samráð hefur ekki átt sér stað við þá aðila sem málið varðar mestu.

- 10. liður fundargerðarinnar frá 11. október; synjun á erindi Félags tónlistarskólastjóra vegna endurskoðunar á ársreikningum er staðfestur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. R18050102
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Tónlistarskólarnir samþykkja ársreikninga í samræmi við lög. Það að ætlast til þess að tónlistarskólar skili endurskoðuðum og árituðum ársreikningi gerir ekkert annað en að íþyngja þeim fjárhagslega umfram það sem lög og reglur segja til um. Tónlistarskólar eru ekki lífeyrissjóðir eða fjármálastofnanir. Tónlistarskólarnir eru menntastofnanir á sviði tónlistar og hafa þannig ekki ótakmarkað fjármagn. Þá hafa þeir enn fremur lítið svigrúm til að auka tekjur sínar og gæti þessi ákvörðun leitt til þess að skólarnir neyðist til að hækka skólagjöld sem íþyngir foreldrum þeirra barna sem stunda nám við tónlistarskólana.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tónlistarskólar eiga eins og aðrir lögaðilar að skila endurskoðuðum ársreikningum og sérstakar kvaðir gilda um þá skóla sem reknir eru sem sjálfseignastofnanir sem á við um þá flesta. Það er eðlilegt að gera kröfur til þeirra aðila sem borgin semur við og fá rekstrarframlög úr borgarsjóði um óháða og faglega skoðun ársreikninga frá hlutlausum sérfræðingum sem hafa hlotið viðeigandi löggildingu. Reykjavíkurborg ber að hafa skilvirkt eftirlit með ráðstöfun fjármuna til að tryggja að þeir fari í það sem um er samið. Það er því réttmæt krafa að fá endurskoðaða og áritaða ársreikninga tónlistarskólanna frá löggiltum endurskoðanda.

- 15. liður fundargerðarinnar frá 11. október; viðauki við fjárhagsáætlun vegna flutnings á afgangi og halla, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Sósíalistaflokks Íslands, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17100024

- 16. liður fundargerðarinnar frá 11. október; viðauki við fjárhagsáætlun vegna endurskoðunar á útsvarstekjum, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. R17100024
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

- 17. liður fundargerðarinnar frá 11. október; viðaukar við fjárhagsáætlun, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R17100024

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Hér er kominn fram kostnaðarauki upp á heilar 69 milljónir króna vegna fjölgunar borgarfulltrúa. Það var ljóst frá árinu 2011 að kostnaðarauki myndi eiga sér stað vegna fjölgunar þeirra. Þrátt fyrir að það hafi verið fyrirséð var áætlun vanáætluð bæði varðandi framkvæmdakostnað og þennan lið sem er meðal annars vegna biðlauna. Þessi frávik eru mikil og kostnaðurinn mjög hár.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Þegar fjárhagsáætlun var undirbúin haustið 2017 var ekki unnt að sjá fyrir með fullri vissu hver kostnaður yrði vegna fjölgunar borgarfulltrúa, hver kjör þeirra yrðu vegna ákvörðunar kjararáðs um endurskoðun á kjörum þingmanna og hver útgjaldaaukinn yrði vegna biðlauna. Þetta leiddi til þess að þegar áætlunin var kynnt var borgarráð upplýst um þessa óvissuþætti og að gera yrði viðauka við fjárhagsáætlun á þessu ári. Það er sú tillaga sem nú liggur fyrir.

13.    Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 12. október.
1. liður fundargerðarinnar; tillaga að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, lagður fram til síðari umræðu.
Samþykkt. R18060129

Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 24. september og 11. október, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. október, skóla- og frístundaráðs frá 9. október, skipulags- og samgönguráðs frá 14. september og 3. og 10. október, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 14. september og velferðarráðs frá 25. september og 10. október 2018. R18010074

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

„Ráðdeild í rekstri borgarinnar er einn af hornsteinum meirihlutasamstarfs Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna,“ segir í bókun vegna tillögu Sjálfstæðismanna um aukna niðurgreiðslu til dagforeldra. Þessi bókun verður að teljast ansi kaldhæðnisleg í ljósi umfjöllunar síðustu daga. Þessi mikla „ráðdeild“ hefur ekki verið viðhöfð í verkefnum á borð við braggann, Hlemm Mathöll eða Vitann við Sundabraut svo fátt eitt sé nefnt. Þarna er verið að sýna „ráðdeild“ og mismuna foreldrum þeirra barna sem ekki komast inn á leikskóla Reykjavíkurborgar þrátt fyrir fögur loforð um að koma öllum 18 mánaða börnum að í leikskólum borgarinnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Með þeim aðgerðum sem samþykktar voru í dag er skotið sterkari stoðum undir dagforeldraþjónustuna í Reykjavík. Tilgangurinn er þríþættur, í fyrsta lagi að bæta rekstrarskilyrði starfandi dagforeldra, í öðru lagi að fjölga dagforeldrum og síðast en ekki síst að auka gæði og öryggi þjónustunnar. Niðurgreiðslur til dagforeldra hækka um 15% sem er meiri hækkun en dæmi eru um á liðnum árum. Tekinn er upp stofnstyrkur til nýrra dagforeldra, námsstyrkir eru hækkaðir og aukinn faglegur stuðningur við dagforeldra. Þá er gripið til ýmissa aðgerða til að auka öryggi, faglegt mat og eftirlit með þjónustunni auk þess að efla upplýsingagjöf til foreldra um þjónustu dagforeldra. Með aðgerðunum er lagður grunnur að því að þjónusta dagforeldra verði öruggari valkostur fyrir foreldra ungra barna samhliða þeirri kröftugu uppbyggingu á leikskólaþjónustu sem framundan er.

14.    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Þegar Strætó bs. gerist milligönguaðili um innheimtu húsaleigu, fær Strætó þá einhverja þóknun fyrir það, í þessu tilfelli frá Elju starfsmannaleigu? Var ákvæði í ráðningasamningum vagnstjóra um að Strætó bs. mætti innheimta leigu fyrir þriðja aðila af launum þeirra sem störfuðu hjá Strætó bs? Óskað er eftir heildaryfirliti greiðslna Strætó bs. til Elju starfsmannaleigu, annars vegar vegna ráðninga á erlendum vagnstjórum og hins vegar vegna upphæða sem Strætó bs. hefur innheimt af vagnstjórum vegna leigu og annars kostnaðar. 

Vísað til meðferðar borgarráðs. R18100295

Fundi slitið kl. 01:02

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Marta Guðjónsdóttir  Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 16 =