Yfirgnæfandi ánægja með göngugötur í Reykjavík

Mannlíf Samgöngur

""

Meirihluti íbúa Reykjavíkur er verulega jákvæður gagnvart göngugötum í miðborginni, samkvæmt nýrri viðhorfskönnun Maskínu ehf. fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur.

Maskína ehf. framkvæmdi annað árið í röð könnun meðal íbúa Reykjavíkur á viðhorfi til göngugatna í miðborginni. 71% svarenda segjast nú jákvæðir gagnvart göngugötunum en 11% eru neikvæðir.

Jákvæðnin eykst eftir því sem fólk fer oftar á göngugötusvæðið og eins í síðustu könnun eru íbúar í Miðborg og Hlíðum jákvæðastir allra. Ekki er mikill munur á afstöðu kynjanna til göngugatnanna þó eru fleiri karlar en konur sem eru mjög jákvæðir með þetta fyrirkomulag.  

Alls telja 77% íbúa að göngugöturnar hafi jákvæð áhrif á mannlífið í miðborginni en 8% telja að þær hafa neikvæð áhrif.

Eftirfarandi götum hefur verið breytt í göngugötur undanfarin ár: Laugavegi og Bankastræti, milli Vatnsstígs og Þingholtsstrætis. Skólavörðustíg milli Bergstaðastrætis og Laugavegar. Austurstræti, Veltusundi og Vallarstræti. Pósthússtræti, milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis.

25% vilja göngugötur allan ársins hring

Aðspurðir um tímabil göngugatna, frá 1. maí til 1. október, segja tæplega 40% að tímabilið sé hæfilega langt, 30% vilja lengja tímabilið og 30% vilja stytta það.

Mun fleiri en áður vilja göngugötur allt árið eða 25% svarenda en var 12% í fyrra, en tæplega 5% segjast alfarið á móti göngugötum, sem er sama hlutfall og í síðustu könnun.

Könnunin fór fram á netinu dagana 26. júlí til 22. ágúst. Svarendur voru alls 768, af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára úr öllum hverfum borgarinnar. Skýrslan hefur verið kynnt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar sem fylgdi því eftir með samhljómandi bókun: „Fulltrúar ráðsins lýsa ánægju með niðurstöður skýrslunnar. Skýrslan sýnir stöðugleika milli ára og áframhaldandi ánægju meirihluta borgarbúa með fyrirkomulagið. Það vekur athygli að eingöngu 11% borgarbúa lýsa óánægju með göngugötur. Ráðið mun vinna áfram að þróun verkefnisins en hafa í huga sveigjanleika með hliðsjón af sértækum þörfum. Markmiðið verði ætíð að bæta mannlíf og skapa áfram mannvænt umhverfi í miðborg."

Tengill

Könnun - VIÐHORF TIL GÖNGUGATNA