Wow Reykjavík International Games nálgast | Reykjavíkurborg

Wow Reykjavík International Games nálgast

þriðjudagur, 23. janúar 2018

Íþróttahátíðin WOW Reykjavik International Games fer fram dagana 25.janúar til 4.febrúar næstkomandi.Keppt verður í 17 íþróttagreinum þar sem reiknað er með þátttöku á sjötta hundrað erlendra gesta ásamt flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga.

  • Þátttakendur í Norðurljósahlaupinu ánægðir eftir skemmtilega hlaupaupplifun í fyrra
    Þátttakendur í Norðurljósahlaupinu ánægðir eftir skemmtilega hlaupaupplifun í fyrra
  • Keppt í júdó á Wow Reykjavík International Games
    Keppt í júdó á Wow Reykjavík International Games
  • Frá Setningu Wow Reykjavík International Games 2017
    Frá Setningu Wow Reykjavík International Games 2017
Metþátttaka erlendis frá er í badmintonkeppni leikanna í ár, 172 erlendir keppendur og 18 erlendir dómarar frá 36 þjóðlöndum. Íþróttagreinarnar sem keppt er í á leikunum eru mjög fjölbreyttar og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Íþróttagreinarnar eru áhaldafimleikar, badminton, borðtennis, bogfimi, dans, frjálsíþróttir, hjólreiðar, júdó, karate, keila, kraftlyftingar, listhlaup á skautum, ólympískar lyftingar, skotfimi, skylmingar, skvass og sund. Keppnin fer að mestu fram í Laugardalnum og nágrenni hans en einnig í Egilshöll, á Skólavörðustíg og víðar.
 
Keppnisdagskráin skiptist niður á tvær helgar og verða glæsilegar lokahátíðir í Laugardalshöllinni báða sunnudagana. Einnig er ráðstefna um snemmbæra afreksþjálfun barna sem fram fer í Háskólanum í Reykjavik á fimmtudag hluti af dagskránni. Miðasala á alla viðburði er hafin á midi.is.
 
Almenningi gefst ekki aðeins kostur á að vera áhorfendur á leikunum því hluti af þeim er WOW Northern Lights Run þar sem allir geta tekið þátt. Um er að ræða skemmtiskokk um miðbæ Reykjavíkur þar sem þátttakendur hlaupa með upplýstan varning og eru hluti af glæsilegri ljósasýningu. Hlaupið sem er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavik hefst við Hörpu, fer hjá Hallgrímskirkju, í gegnum Ráðhús Reykjavíkur, og endar svo í Listasafni Reykjavíkur. Nánari upplýsingar má finna á http://nordurljosahlaup.is/