From words to lyrics – Frá texta yfir í söngtexta

Mannlíf Menning og listir

""

Bókmenntaborgin og Tónlistaborgin Reykjavík í samstarfi við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar skipuleggja dagskrá þar sem fjallað verður um söngtexta, hvað einkennir góða tónlistartexta og hvernig verða þeir til. 

Á Iceland Airwaves Lounge and Conference 2018 sem haldin verður  föstudaginn 9. nóvember nk.  kl. 12 – 12:45 á Center Hotel Plaza, munu tónlistamenn og ljóskáld taka til máls og ræða um hvernig texti breytist í söngtexta. Tónlistamenn vinna á mismunandi hátt með orðlistina og ein af spurningunum sem rædd verður er hvort aðrar reglur gildi um texta sem ætlaður er til söngs en annars texta.

Sjón er rithöfundur og ljóðskáld en meðfram því starfi hefur hann samið fjölda texta fyrir Björk sem og óperutexta og söngtexta fyrir fleiri tónlistarmenn. Emilíana Torrini og Ásgeir Trausti eru bæði heimsþekktir tónlistamenn, Emilíana semur sína texta sjálf en Ásgeir Trausti vinnur með föður sínum og fleirum að sínum textum og einnig hefur hann unnið með bandaríska tónlistamanninum John Grant að þýðingum. Kolfinna Nikulásdóttir er handritshöfundur og rappari og er hún best þekkt sem hluti af rapphópnum Reykjavíkurdætur.

Elísabet Indra stýrir umræðunum sem verða á ensku.

Opinn viðburður og frítt inn meðan húsrúm leyfir.

Dagskráin er hluti af Iceland Airwaves hátíðinni en ekki þarf passa fyrir þennan viðburð.