Á vörum þeirra verður tungan þjál

Skóli og frístund

""

Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík voru afhent við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal Hörpu í dag. Aldrei hafa fleiri fengið verðlaunin en 67 nemendur og einn nemendahópur fengu viðurkenningu.

Verðlaunin, sem nú eru afhent í tólfta sinn á Degi íslenskrar tungu, fóru til lestrarhesta, tvítyngdra nemenda sem sýnt hafa framfarir í íslenskunámi, ung-ljóðskálda, sögusnillinga, bókaorma og góðra upplesara. 

Allir grunnskólar í borginni geta tilnefnt nemendur eða nemendahópa, einn á hverju skólastigi. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir og nemendur fá viðurkenningarskjal undirritað af verndara verðlaunanna og bókina Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar. Að auki fengu verðlaunahafar bókamerki að gjöf frá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.

Auk ávarpa og verðlaunaafhendingar flutti sönghópur frá Söngskóla Sigurðar Demetz  lagið Dimmalimm eftir Atla Heimi Sveinsson og eldri kór Laugarnesskóla söng Orðin mín eftir Braga Valdimar Skúlason. Að lokum sungu allir saman Á íslensku má alltaf finna svar, sem nánast er orðið  einkennislag íslenskrar tungu, en lagið samdi Atli Heimir og ljóðið á Þórarinn Eldjárn.

Verðlaunin eru á vegum skóla- og frístundráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og er þeim ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli.

Nefnd um verðlaunin er skipuð Mörtu Guðjónsdóttur, formanni nefndarinnar og fulltrúa í skóla- og frístundaráði, Kristínu Jóhannesdóttur fyrir hönd skólastjóra, Láru Guðrúnu Agnarsdóttur fyrir hönd kennara, Nönnu K. Christiansen fyrir hönd grunnskólaskrifstofu og Kristínu Viðarsdóttur fyri hönd Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Starfsmenn skóla- og frístundasviðs sem sáu um undirbúning og framkvæmd voru Anna Garðarsdóttir, Guðrún Hjartardóttir og Sigfríður Björnsdóttir.