Vorhátíð Breiðholtsskóla

Mannlíf

""

Foreldrafélag Breiðholtsskóla, með aðstoð góðra bakhjarla, stendur fyrir Vorhátíð Breiðholtsskóla laugardaginn 8. júní, 2013 kl. 11.00. Að þessu sinni er lögð áhersla á íþróttir, forvarnir og umferðaröryggi. Skátafélagið Segull og íþróttafélögin í Breiðholtinu, ÍR og Leiknir, munu kynna starfsemi sína á skólalóð og í þróttasal. Bókasafnið í Gerðubergi mun einnig vera með kynningarbás. Sirkus Bakkasels sýnir m.a. mannlegan pýramída í íþróttasalnum. Dr. Bæk mun sjá um ástandsskoðun reiðhjóla frá kl. 11:15 og börnin eru því hvött til að koma með reiðhjólin sín. Veltibíllinn mun einnig mæta á svæðið.

Dagskráin hefst kl. 11.00 við aðalinngang Breiðholtsskóla þaðan sem lagt verður af stað í stutta skrúðgöngu um Bakkahverfið með Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts í broddi fylkingar. Foreldrar og börn eru hvött til að marsera með!

Nemendur grilla pylsur fyrir svanga gesti og fjármagna nemendaferð með pylsusölu. Þá verður Tombóla/markaður á vegum unglingadeildar skólans til styrktar nemendafélaginu.

Tryggingamiðstöðin, Landsbankinn og Krónan eru bakhjarlar hátíðarinnar í ár.

Um Vorhátíð Breiðholtsskóla

Markmið Vorhátíðar Breiðholtsskóla er að stuðla að markvissu samstarfi íbúa og félagasamtaka í þágu forvarna og félagsauðs með eflingu skólasamfélags Breiðholtsskóla að leiðarljósi.

Áhrif öflugs foreldrasamstarfs með samveru og sameiginlegri þátttöku foreldra og barna í samfélagslegum viðburðum eru mikilvægir þættir til eflingar forvarna í þágu barna og unglinga.

Samvera barna og foreldra og þátttaka í því starfi sem samfélagið býður uppá til eflingar æskunni er einnig mikilvægt innlegg til jákvæðrar ímyndarsköpunar. Fátt mótar sjálfsmynd barna og unglinga eins sterkt og það umhverfi sem þau alast upp í og ímynd þess.

Dagskrá Vorhátíðar Breiðholtsskóla er að þessu sinni mótuð og unnin í samstarfi við eftirfarandi samstarfsaðila:

Borgarbókasafn Reykjavíkur, Gerðubergssafn Frístundaheimilið Bakkasel Íþróttafélag Reykjavíkur Íþróttafélagið Leiknir Skátafélagið Segull Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts