Vogaskóli fagnar 60 ára afmæli

Skóli og frístund Menning og listir

""

Það ríkti karnivalstemmning í Vogaskóla í dag þegar 60 ára afmæli skólans var fagnað með glæsilegri dagskrá.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri færði Jónínu Ólöfu Emilsdóttur skólastjóra blóm frá Reykjavíkurborg í tilefni dagsins.

Jónína setti hátíðina og rifjaði upp sögu skólans sem verið hefur hjartað í Vogahverfinu frá því skólastarf hófst þar fyrir 60 árum.  Vogahverfið var eitt helsta nýbyggingarsvæði borgarinnar frá stríðslokum og fram á fyrri hluta sjöunda áratugarins, og Vogaskóli varð fljótlega einn stærsti skóli landsins   Vogaskóli var framsækinn og skólastjórnendur þar hafa bryddað upp á mörgum nýjungum sem voru svo innleidd í menntastefnu og grunnskólalög.  Þar var fyrst boðið upp á valgreinakerfi, opin hús og samfellda skólagöngu fyrir börn og unglinga.

Borgarstjóri minntist líka upphafsáranna þegar fjöldi nemendanna fór yfir 1600, en faðir hans stundaði nám við skólann á þeim tíma.  Hann sagði skólann hafa haldið áfram að vera með framsæknustu skólum borgarinnar, og hefði til að mynda fengið minningarverðlaun Arthurs Morthens á síðasta ári fyrir fjölbreytta kennsluhætti fyrir öll börn með alls konar þarfir.

Skólahljómsveit Austurbæjar tók svo létta karnivalssyrpu fyrir afmælisgesti, og nemendur skólans lokuðu hátíðinni með flottum fjöllistaratriðum og söng.