Visitreykjavik.is betri upplýsingavefur fyrir erlenda gesti borgarinnar

Menning og listir Mannlíf

""

Visitreykjavík.is, upplýsingavefur fyrir erlenda gesti borgarinnar, hefur nú fengið nýtt útlit og aðgengilegra viðmót. Vefurinn er rekinn af Reykjavíkurborg og er í umsjón Höfuðborgarstofu.

Visitreykjavik.is veitir upplýsingar um Reykjavík og nágrannasveitarfélög sem áfangastaði fyrir erlenda ferðamenn, svo sem helstu kennileiti, fjölbreytt menningarstarf, borgarhátíðir, söfn, sund og aðra afþreyingu.

Nýr og bættur vefur tekur við af eldri útgáfu og hefur verið í undirbúningi í tæpt ár. Áhersla er lögð á að kynna Reykjavík og nágrenni undir merkjum Reykjavíkurborgar, eða vörumerkinu Reykjavík Loves. Reykjavík og nágrannasveitarfélögin hafa undanfarin ár sammælst um slíka sameiginlega markaðssetningu.

Uppfærsla vefsins er liður í heildstæðu endurmati á markaðssetningu Höfuðborgarstofu gagnvart erlendum gestum með það að leiðarljósi að einblína betur á markhópa og nýta betur fjármagn. Jafnframt er í undirbúningi nýtt svokallað spjallmenni í samstarfi við Ferðamálastofu, sem einnig á að auðvelda upplýsingaleit og veita sjálfkrafa svör.

Höfuðborgarstofa heldur utan um markaðssetningu og kynningu Reykjavíkurborgar gagnvart erlendum gestum, meðal annars í gegnum vefinn visitreykjavik.is og samfélagsmiðla, en einnig með utanumhaldi um Gestakort og þátttöku í kaupstefnum og samstarfsverkefnum á borð við Ráðstefnuborgina Reykjavík (Meet in Reykjavík) og markaðsverkefnið Iceland Naturally.

Á þessu ári tekur Reykjavíkurborg þátt í viðamiklu samstarfsverkefni með ríkinu um Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem veitt verða í Hörpu 12. desember nk. Visitreykjavik.is sinnir lykilhlutverki í því verkefni sem snýr að markaðssetningu og kynningu á Reykjavík og Íslandi sem áfangastað fyrir erlenda gesti.

Höfuðborgarstofa starfar samkvæmt ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar en núgildandi stefna nær til ársins 2020. Miðað er við að ný ferðamálastefna líti dagsins ljós á næstu vikum.