Virkni og velferð flóttafólks

Velferð

""

Á síðasta ári var farið að halda sérstök kynningarnámskeiði fyrir flóttafólk undir yfirskriftinni Virkni til velferðar hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Námskeiðin hafa gefist vel og í þessum mánuði sat 25 manna hópur spænskumælandi fólks frá Venesúela slíkt námskeið.

Á námskeiðinu læra þátttakendur allt um réttindi og skyldur einstaklinga sem eru á framfærslu sveitarfélagsins.  Farið er yfir þjónustu og úrræði sem standa þeim til boða í samfélaginu auk þess sem farið er yfir almenn hagnýt atriði í íslensku samfélagi eins og skattframtal, persónuafslátt og atvinnuleysisbætur.  Kynnt er þjónusta ýmissa stofnanna sbr. Vinnumálastofnunar, Ríkisskattstjóra, Virk og margt fleira sem gæti gagnast nýjum borgarbúum.  Það voru 180 einstaklingar frá Venesúela sem sóttu um alþjóðlega vernd á síðasta ári og af þeim fengu 157 einstaklingar dvalarleyfi.  

Þegar hafa verið haldin tvö námskeið fyrir flóttafólk  sem fengið hefur alþjóðlega vernd og/eða mannúðarleyfi og talar arabísku og halda á a.m.k þrjú slík fyrir spænskumælandi flóttafólk. Það er mikil ánægja með þetta framtak meðal þátttakenda og eru þeir sammála um að þetta sé skemmtileg og áhugaverð vinna með ráðgjöfum velferðarsviðs.

Á velferðarsvið starfar sérstakt flóttamannateymi þar sem í sitja fulltrúar frá öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar, miðlægri skrifstofu velferðarsviðs, Barnavernd og teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Flóttafólki hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár á Íslandi og í fyrra höfðu 531 einstaklingar og fjölskyldur fengið vernd á Íslandi og meirihluti þeirra býr í Reykjavík.