Vinsælustu útivistarsvæðin í Reykjavík

Umhverfi

""

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjarborgar lætur kanna heimsóknir á útivistarsvæði. Spurt er: Hefur þú heimsótt neðangreind útivistarsvæði á síðastliðnum 12 mánuðum?

Laugardalur var það svæði sem hlutfallslega flestir heimsóttu síðastliðna 12 mánuði eða 60% aðspurðra. Reykjavíkurtjörn kemur næst með 58% og Elliðaárdal (56%) fylgir fast á eftir. Þess má þó geta að heimsóknir voru ekki eins miklar þá þessi þrjú svæði og árin á undan og má ef til vill kenna veðurfari um en rok og rigning einkenndi sumarið í Reykjavík.

Aftur á móti má sjá má aukningu á milli mælinga í heimsóknum fólks síðustu 12 mánuði til tveggja svæða, annarsvegar Klambratún (+2) sem 44% höfðu sótt og hins vegar Fossvogsdalur (+3) sem 38% aðspurðra sóttu.

Netkönnunin var gerð 5.-14. október 2018 en 1476 voru í úrtakinu og svöruðu 800 manns eða 54%. Gallup framkvæmdi fyrir umhverfis- og skipulagssvið. 

Nokkur orð um Laugardalinn

Laugardalurinn er án efa vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda er svæðið einstaklega heppilegt fyrir útiveru, skjólgott og gróðursælt með vel skipulagða göngu- og hjólastíga. Laugardalurinn er jafnframt ein meginmiðstöð íþróttaiðkunar í Reykjavík og er þar að finna íþróttamannvirki svo sem Laugardalshöllina, Laugardalsvöllinn, Laugardalslaugina og Skautahöll Reykjavíkur. Þá er Laugardalurinn miðstöð garðyrkju og er Grasagarður Reykjavíkur staðsettur í hjarta dalsins. Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn í Laugardal er vinsæll meðal barna og fjölskyldufólks og er þar að finna öll íslensku húsdýrin og helstu villtu landspendýrin svo sem refir og hreindýr auk selanna sívinsælu. Í Laugardalnum er jarðhiti, einkum við Þvottalaugarnar þar sem Reykvíkingar þvoðu þvott sinn úr heitum jarðlaugum. Þá er aðaltjaldstæði Reykjavíkur í Laugardal og dalurinn því vinsæll viðkomustaður ferðalanga.

Tenglar

Upplýsingavefur um græn svæði

Könnun Gallup um ferðavenjur og útivistarsvæði