Viltu matjurtagarð í sumar?

Umhverfi Mannlíf

""

„Aðsókn í matjurtagarða á vegum Reykjavíkurborgar er almennt mjög góð og plássin eru fljót að hverfa á vorin,“ segir Guðný Arndís Olgeirsdóttir umsjónarmaður matjurtagarða í Reykjavík.  Íbúar í Reykjavík geta pantað matjurtagarð til afnota og var í dag opnað fyrir umsóknir á reykjavik.is/matjurtagardar.

Matjurtagarðar sem borgin leigir út eru víða um borgina.  Mögulegt er að sjá í Borgarvefsjá lausa skika á eftirtöldum stöðum:

Umsóknir sendist með tölvupósti á netfangið matjurtagardar@reykjavik.is

Reykjavíkurborg útdeilir einnig garðlöndum  í Skammadal í Mosfellsbæ, en þar eins og með fjölskyldugarðana njóta forgangs þeir sem leigðu garð í fyrra. Á þessum framantöldu stöðum eru 553 garðar og verða þeir afhentir leigjendum 1. maí eða fyrr ef veður leyfir.  Leiga fyrir garða er óbreytt frá fyrra ári.  Leiga fyrir garðland í Skammadal er 5.000 kr. og skiki í fjölskyldugörðunum kostar 4.800 kr. Garðarnir í Logafold verða á kr. 3.400 kr. kassinn (8 fermetrar) og er reiknað með að leigja út tvo kassa sem einn garð sem yrði þá 6.800 kr. (16 fermetrar).

Garðar í Breiðholti við Jaðarsel eru í rekstri hjá félaginu Seljagarður og getur fólk sótt um garð í gegnum vefinn Seljagardur.is. Þá sér Garðyrkjufélag Íslands um rekstur matjurtagarða í Stekkjarbakka og Grafarvogi skv. samningi við Reykjavíkurborg.  Nánari upplýsingar um þá er að finna á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands, www.gardurinn.is , undir Grenndargarðar.

Nýjungar við Logafold

Við Logafold hafa verið gerðar breytingar á matjurtagörðunum, en settir voru upp ræktunarkassar til að auðvelda notendum að láta græna fingur njóta sín án þess að bogra niður við jörð. Flestir eru kassarnir 40cm háir, en hluti þeirra eru 70cm hæð. „Nú geta fatlaðir og eldra fólk nýtt sér aðstöðuna með auðveldari hætti og svo auðvitað léttara fyrir alla aðra,“ segir Guðný.  Kassarnir eru 8 fermetrar og verða þeir alla jafna leigðir út tveir og tveir saman, alls 16 fermetrar. 

Guðný segir að breytingarnar í Logafold séu tilraun.  „Draumurinn hjá okkur er að taka alla okkar garða í gegn og setja þá upp svona eins og þessa. Vonandi getum við haldið áfram í ár og tekið einn garð eða fleiri á ári,“ segir Guðný. Komi aðsókn til með að aukast og sé fólk ánægt með hvernig til tókst, verður það skoðað hvort hægt sé að fara í sambærilegar framkvæmdir á fleiri stöðum í borginni.