Viltu draga úr heimilissorpi?

Umhverfi Skipulagsmál

""

Umhverfis- og skipulagssvið styður vakningu í loftslagsmálum og stendur fyrir fundaröðinni Liggur okkur lífið á? Næsti fundur fjallar um aðferðir og nýbreytni til að draga úr heimilssorpi. Hann er þriðjudaginn 11. febrúar kl. 20. á Kjarvalsstöðum.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir fundaröðinni ásamt Líf Magneudóttur formanni umhverfis- og heilbrigðisráðs og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttir, formanni skipulags- og samgönguráðs, þar sem loftslagsmál eru skoðuð og rædd út frá ýmsum sjónarhornum.

Á fundinum munum við glíma við efni eins og: Hvernig geta heimili forðast sorpmyndun og sóun með vistvænum lífsstíl? Hvernig getum við breytt heiminum á jákvæðan hátt með daglegum ákvörðunum? Hvernig söfnum við lífrænum úrgangi, stundum heimajarðgerð og hvernig getum við lært að lifa lífinu hægar?

Þóra Margrét Þorsteinsdóttir flytur upphafserindi um hvernig fjölskyldur geti dregið úr heimilisorpi, Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðsins talar um heimajarðgerð, Friðrik K. Gunnarsson sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg fjallar um söfnun á lífrænum úrgangi og Björk Brynjarsdóttir frumkvöðull í umhverfismálum flytur hugleiðingu.

Markmiðið er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Fundirnir eru mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar og síðan eftir því hvert umræðuefnið er. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni.

Byggjum á staðreyndum. Hlustum á fagfólk og grasrótina. Tökum þátt í umskiptunum. 

Verið öll velkomin þriðjudaginn 11. febrúar kl. 20. á Kjarvalsstöðum, heitt á könnunni. Viðburður á facebook hér.

Upptökur af fyrri fundum:

Er náttúran svarið?

Eru orkuskipti í samgöngum nóg?

Liggur okkur lífið á?

Eru peningarnir þínir loftslagsmál?