Viltu breyta bílastæði í hvílustæði?

Samgöngur Umhverfi

""

Vorboðinn Torg í biðstöðu er mættur en að þessu sinni er óskað eftir hugmyndaríku fólki til að taka bílastæði í fóstur og breyta þeim í dvalarsvæði fyrir fólk.

Á ensku kallast þetta parklet sem hefur nú fengið hið fallega íslenska heiti hvílustæði. Verkefnið Torg í biðstöðu hefur verið starfrækt á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá árinu 2011 og stendur að jafnaði yfir frá maí til september ár hvert og er ætlað að skapa skemmtileg almenningssvæði.

Markmið verkefnisins í ár er að það verði hönnuð og búin til tímabundin hvílustæði úr bílastæðum á borgarlandi. Megináhersla með hvílustæðunum er að skapa skemmtileg svæði fyrir fólk í sólríkum göturýmum borgarinnar, svæðum sem geta hvatt til dvalar, samskipta og leiks.

Hvílustæðin eru tilraun sem getur í framtíðinni leitt til þess að göturýmið taki breytingum og verði gert að dvalarsvæði. Á sama tíma er reynt að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin.

Með umsókn þarf að fylgja:

  • Ítarleg lýsing á verkefninu í texta og myndum/teikningum.
  • Verk- og tímaáætlun.
  • Gróf kostnaðaráætlun: m.a. efniskostnaður og laun.
  • Ferilskrá allra umsækjenda með fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi.

Umsókn sendist á: gongugotur@reykjavik.is
Merkja í fyrirsögn: Umsókn um Torg í biðstöðu 2021.
Skilafrestur umsókna er til 12.apríl 2021.

Skoða meira um Torg í biðstöðu á vef Reykjavíkurborgar.