Vilja að fleiri taki þátt í verkefninu Göngum í skólann

Börn ganga í skóla

Verkefnið Göngum í skólann hefst um miðja næstu viku þegar það verður sett í sextánda sinn þann 7. september. Verkefninu er ætlað að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta, í og úr skóla og auka á sama tíma færni þeirra í umferðinni á öruggan hátt. Verkefnið mun standa til 5. október.

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt. Fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls voru 78 skólar skráðir til leiks árið 2021. Vonir standa til að fjölga íslenskum skólum meðal þátttakenda og skólar því hvattir til að skrá sig til leiks.

Á heimasíðu Göngum í skólann www.gongumiskolann.is er að finna upplýsingar og ráð um það hvernig megi hvetja börn til þess að ganga í skólann. Embætti landlæknis hefur líka gert Handbók í umferðarfræðslu sem Samgöngustofa gefur út og má finna á www.umferd.is og www.landlaeknir.is.