Vika6 undirbúin

Skóli og frístund

Undirbúningur fyrir Viku6.

Undirbúningur fyrir Viku6 með nemendum úr öllum grunnskólum borgarinnar fór fram í dag en þemað sem verður til umfjöllunar næst er kynlíf og kynferðisleg hegðun.

Þemað valið af unglingum

Vinnufundur fór fram í Þróttheimum þar sem unnið var í teymum við að dýpka þemað en í sjöttu viku hvers árs er lögð sérstök áhersla á kynfræðslu og kynheilbrigði í grunnskólum og félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, jafnréttisstýra Reykjavíkurborgar, sem hefur umsjón með viku sex segir þemað vera valið af unglingum borgarinnar. Alls 1300 svör bárust þar sem flest eða 30 prósent völdu kynlíf og kynferðislega hegðun. Þar er meðal annars átt við sjálfsfróun, fantasíur, forleik, gælur, nánd og kynferðislega ánægju.

Kolbrún Hrund segir vinnuna með unglingunum hafa gengið virkilega vel. „Við fengum þarna ótrúlega flotta fulltrúa frá skólunum sem höfðu helling að segja um hvernig þau vilja gera Viku6 ennþá betri. Það er ómetanlegt að fá raddir þeirra inn í þessa vinnu og finna hversu klára og flotta unglinga við eigum,“ segir Kolbrún en hver skóli í Reykjavík valdi 2-4 nemendur sem sinn fulltrúa í vinnunni.

Myndir frá undirbúningi Viku6