Viðurkenningar fyrir góðan árangur í starfi veittar í dag

Fulltrúar velferðarráðs ásamt þeim sem hlutu hvatningarverðlaunin í dag.

Óeigingjarnt starf og mikill metnaður einkennir einstaklinginn, starfsstaðinn og verkefnið sem tóku við Hvatningarverðlaunum velferðarráðs við hátíðlega athöfn í dag. Sama gildir með starfsstaðina fjóra sem hlutu viðurkenningu velferðarsviðs fyrir jákvæðar niðurstöður úr viðhorfskönnun sem gerð var meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar.

Hvatningarverðlaun velferðarráðs hafa verið veitt árlega frá því árið 2011 en markmið þeirra er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi. Þrjátíu og ein tilnefning barst í ár.

Veitt eru verðlaun í þremur flokkum: Flokki einstaklinga, flokki hópa og starfsstaða og hópi verkefna.

Verðlaunuð fyrir ötula baráttu, áhuga og framlag í þágu eldri borgara

Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, hlaut hvatningaverðlaunin í flokki einstaklinga. Í starfi sínu hjá velferðarsviði þykir hún hafa sinnt málefnum aldraðra, sem lúta að velferð, andlegri heilsu og félagslegri þátttöku, af einstökum dugnaði og alúð. „Hún fylgist vel með, er sívakandi fyrir nýjungum sem bætt geta þjónustuna og óþreytandi við að miðla þekkingu og upplýsingum. Þórhildur Guðrún er einstaklega góður samstarfsmaður sem hefur einlægan áhuga á að miðla og bæta umhverfið,“ er meðal þess sem fram kemur í rökstuðningi valnefndar. Þar segir jafnframt að Þórhildur sé áhugasöm, jákvæð, lausnamiðuð og gott sé að leita til hennar.

Starfsmannahópur í sérflokki

Íbúðakjarninn Jöklasel 2 hlaut verðlaun í flokknum hópar og starfsstaðir. Á íbúðakjarnanum býr fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir á ýmsum aldri og fær þar stuðning til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi. Starfsmannahópurinn í Jöklaseli þykir í sérflokki. „Í baráttunni við Covid-19 steig starfsmannahópur Jöklasels upp og gott betur en það. Það var ómetanlegt hversu jákvæð, boðin og búin þau voru til þess að aðstoða við að manna vaktir ásamt því að vinna við breyttar, flóknar og krefjandi aðstæður. Án þeirra hefði þetta ekki getað gengið upp,“ segir í rökstuðningi valnefndar.

Fagaðilar sem vinna „á dýptina“ með foreldrum

Verkefnið Ella hlaut hvatningarverðlaun í flokki verkefna. Það hóf göngu sína árið 2021 en markmið þess er að styðja og styrkja einstæða foreldra með félagslegan vanda. Í gegnum Ellu vinna fagaðilar á dýptina með foreldrunum, þar sem tíð og mikil samvinna er á milli notenda og fagaðila. Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars að fagaðilar sem vinni í Ellu hafi sýnt foreldrum mikinn stuðning og hlýju, sem mikið hafi vantað í þeirra líf. Þá hafi foreldrar eflst, bæði sem virkir samfélagsþátttakendur og við uppeldisaðferðir barna sinna.   

Í valnefnd vegna verðlaunanna í ár voru Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, og Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs.

Hér fyrir neðan má sjá allar tilnefningarnar sem bárust vegna hvatningarverðlaunanna 2021:

Í flokki einstaklinga:

  • Arne Friðrik Karlsson
  • Álfhildur Hallgrímsdóttir
  • Bára Steinunn Jónasdóttir
  • Birna Björnsdóttir
  • Dagný Dögg Halldórsdóttir
  • Eybjörg Geirsdóttir
  • Guðjón Örn Helgason
  • Gunnhildur Olga Jónsdóttir
  • Hanna María Karlsdóttir
  • Heiða Hrönn Harðardóttir
  • Hjónin Guðbrandur Stígur og Brynhildur á Ásvallagötu
  • Inga Kolbrún Hjartardóttir
  • Katrín Helga Hallgrímsdóttir
  • Ólafía Magnea Hinriksdóttir
  • Sigurbjörn Rúnar Björnsson
  • Þórhildur Guðrún Egilsdóttir
  • Harpa Guðný Hafberg
  • Sigurbjörg Sigurðardóttir
  • Ólafía Helgadóttir
  • Anna Kristín Bjarnadóttir
  • Þórir Hall

Í flokki hópa eða starfstaða:

  • Íbúðakjarninn Jöklaseli
  • Íbúðakjarninn Hringbraut 79 

Í flokki verkefna:

  • Ella – Austurmiðstöð
  • Félagsstarf í Árskógum – þróun samfélagsvinnu, félagslegs stuðning og samstarf við Rauða Krossinn
  • Framfararteymi Keðjunnar
  • Greining og ráðgjöf heim – PMTO þjónusta Barnaverndar Reykjavíkur inn á heimili foreldra
  • Memmm play
  • Verkefni fyrir unga Sómala / Sómalaverkefni hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts
  • Ylja – færanlegt neyslurými
  •  Þróunarverkefni vegna heilabilunar

Verðlaunuð fyrir góða útkomu í viðhorfskönnun

Viðhorfskönnun starfsfólks var framkvæmd rafrænt á bilinu 21. febrúar til 21. mars. Tilgangurinn er að fá viðhorf starfsfólks til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta og eru niðurstöðurnar nýttar til að bæta árangur í mannauðsmálum og gera Reykjavíkurborg að betri vinnustað.

Í dag var voru sem fyrr segir þeim starfsstöðum velferðarsviðs sem best komu út úr viðhorfskönnuninni veitt viðurkenning. Hástökkvari í hópi stærri starfsstaða var Barnavernd Reykjavíkur en vinnu- og virknimiðaða stoðþjónustan Gylfaflöt í hópi minni starfsstaða. Viðurkenningu fyrir besta árangur á sviðinu hlaut Norðurmiðstöð í hópi stærri starfsstaða og íbúðakjarninn Hraunbæ 153 í hópi minni starfsstaða.