Viðhorfskönnun sýnir almenna ánægju starfsfólks

Hópur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg á stjórnendadegi.
Hópur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg á stjórnendadegi.

Viðhorfskönnun sýnir ánægju með styttingu vinnuvikunnar og að starfsfólk borgarinnar er almennt ánægt í starfi þrátt fyrir áhrif COVID-19 á starfsumhverfi og álag.  Könnunin, sem gerð var í febrúar sl., sýnir að 87% aðspurðra eru ánægðir í starfi.

Niðurstöðurnar sýna einnig að 87% líður vel í vinnunni, 72,4% er ánægt með styttingu vinnuvikunnar og 67,3% telja hana hafa haft jákvæð áhrif á gæði vinnunnar. Starfsfólk upplifir mikinn sveigjanleika í störfum en 85,3% segjast hafa sveigjanleika til að samræma starf og einkalíf.

Niðurstöðurnar sýna jafnframt að Covid-19 hefur haft mikil áhrif á starfsumhverfi, álag í starfi og dagleg störf starfsfólks Reykjavíkurborgar og 57,6% segja Covid-19 hafa haft mikil áhrif á álag í starfi.

Niðurstöður sýna að á heildina litið upplifir starfsfólk Reykjavíkurborg sem góðan og metnaðarfullan vinnustað þar sem það fær fræðslu og þjálfun sem nýtist í starfi auk þess sem starfsandi er góður.

Borgin mælir reglulega viðhorf starfsfólks til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta.  Ofangreind viðhorfskönnun var lögð fyrir dagana 21. febrúar - 22. mars sl., náði til 9948 starfsmanna og var svarhlutfallið 51%. Niðurstöður könnunarinnar eru á heildina mjög jákvæðar.

Starfsstöðum borgarinnar verða kynntar niðurstöðurnar þar sem farið verður yfir niðurstöður fyrir hvern starfsstað.

Að sögn Lóu Birnu Birgisdóttur, sviðsstjóra á mannauðs- og starfsumhverfissviðs, eru sóknarfæri til að nýta niðurstöður til skapa enn betra starfsumhverfi  og til að gera Reykjavíkurborg að vinnustað með aðdráttarafl fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt starfsfólk sem vinnur í þágu borgarbúa.

Nánar um niðurstöður viðhorfskönnunar