Viðhorf og væntingar til félagslegs húsnæðis

Velferð

""

Á fundi velferðarráðs þann 6. febrúar voru kaup Félagsbústaða á húsnæði á næstu fimm árum kynnt auk þess sem farið var yfir könnun velferðarsviðs á væntingum og þörfum þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði og þjónustukönnun meðal leigjenda Félagsbústaða.

Kannað var viðhorf þeirra sem eru heimilislausir og þurfa búsetu með stuðningi og nýta sér neyðarskýli Reykjavíkurborgar í dag, þeirra sem eru á lista eftir almennu félagslegu húsnæði og þeirra sem leigja félagslegt húsnæði bæði almennt og sértækt.

Þarfir og væntingar þeirra sem eru á biðlista eru ólíkar enda um fjölbreyttan hóp að ræða og sama má segja um viðhorf þeirra sem leigja hjá félagsbústöðum. Niðurstöður styðja við áform um félagslega blöndun og fjölbreyttar lausnir í húsnæðismálum meðal annars að bjóða þeim sem búa við ótryggt húsnæði tímabundnar lausnir meðan beðið er.

Jaðarsett heimilislaust fólk

Viðtöl voru tekin í Gistiskýli og Konukoti við fólk sem þar fær þjónustu og vildu 13 af 14 viðmælendum í Konukoti og Gistiskýlinu vilja komast í sjálfstæða búsetu en allir viðmælendur í Konukoti og fjórir af átta viðmælendum í Gistiskýlinu sögðust vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í sínu bæjarfélagi og áttu viðmælendur það sameiginlegt að vilja vita meira um stöðu sína á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Nær allir Reykvíkingar sögðust hafa leitað sér aðstoðar hjá Þjónustumiðstöðum borgarinnar vegna aðstöðu sinnar. Þeir sem bíða eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir jaðarsett fólk virðast bera traust til Vettvangs-og ráðgjafateymis borgarinnar og sækja nánast allir stuðning þangað sem og í neyðargistiskýlin.  

Viðmælendur sögðust hafa verið heimilislausir frá allt að fjórum mánuðum upp í 15 ár. Allir sögðust hafa gist meira og minna í neyðarskýlunum þann tíma sem þeir hefðu verið heimilislausir. Einnig sögðust viðmælendur hafa gist í bílnum sínum, á áfangaheimili og hjá vinum og ættingjum. Einn viðmælandi var á biðlista eftir að komast í smáhýsi. Öll vildu þau búa í sjálfstæðri búsetu en flest vildu einhvern stuðning og misjafnt var hvort fólk vildi halda áfram í neyslu.

Rýnihópar

Þrír rýnihópar eða 18 manns mættu á fundi hjá velferðarsviði og ræddu væntingar sínar til húsnæðis. Áhrif þess að vera ekki í tryggu húsnæði og á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði voru margvísleg og væntingar viðmælenda hvað húsnæði varðaði voru fyrst og fremst þær að húsnæðið væri öruggt og heilnæmt.

Fjölgun íbúða og úthlutun á síðasta ári

Félagsbústaðir hyggjast fjölga íbúðum um rúmlega 600 á næstu fimm árum, eða á tímabilinu 2018 til 2023. Á árinu 2018 voru 99 íbúðir keyptar eða byggðar og fengu 146 einstaklingar úthlutað almennum félagslegum íbúðum auk þess sem 66 einstaklingar fengu úthlutað þjónustuíbúðum fyrir aldraða. . Loks fengu 30 úthlutað sértækum íbúðum.

Af þeim sem fá úthlutun í almennar félagslegar íbúðir er meðalbiðtíminn 36 mánuðir eða þrjú ár.

Í ársbyrjun 2019 voru 901 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði en 1. september síðastliðinn  þegar rannsóknin á þörfum og væntingum fór fram voru þeir 944.

Þjónustukönnun meðal leigjenda

Um 79% íbúa Félagsbústaða eru frekar eða mjög ánægðir með að leigja hjá félaginu en 13% eru frekar eða mjög óánægðir og 7% segjast hvorki ánægðir eða óánægðir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem MMR gerði fyrir Félagsbústaði á viðhorfum leigjenda félagsins. Alls voru 846 leigendur Félagsbústaða í úrtakinu og var svarhlutfallið 35%.

Samkvæmt könnuninni eru 63% leigjenda frekar eða mjög ánægðir með þjónustu Félagsbústaða, 22% eru frekar eða mjög óánægðir og 15% taka ekki afstöðu til spurningarinnar.

Bið eftir húsnæði

Samkvæmt rannsókninni eru ríflega helmingur þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði karlar og tæplega 60% eru yngri en 39 ára. 62% einstaklinganna eru sjúklingar eða öryrkjar. Atvinnulausir með eða án bótaréttar eru 11%. Tæp 19% þeirra eru með atvinnu, annað hvort launþegar eða atvinnurekendur/einyrkjar. 70% einstaklinga eru ógift, 4% gift og 25% fráskilin. 26% einstaklinga eru skráð með börn á framfæri og af þeim eru 3,5% karlar.

Tæplega helmingur býr í íbúð eða í herbergi á almennum leigumarkaði, fjórðungur býr hjá foreldrum eða öðrum ættingjum eða vinum, 16% eru húsnæðislausir og 6,5% dvelja á stofnun eða á stuðningsheimili/sambýli.  70% einstaklinganna hafa sótt um eins til tveggja herbergja íbúðir. Langflestir á biðlistanum eru barnlausir og jafnvel einhleypir. 89,7% þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði eru með íslenskt ríkisfang. Af þeim sem eru með erlent ríkisfang eru flestir frá Póllandi.

Verið er að bregðast með ýmsum hætti við lausn húsnæðismála fyrir þann hóp sem rannsóknin nær til. Neyðarskýli fyrir unga fíkniefnaneytendur verður opnað á Grandagarði í vor  og  unnið er að skipulagi á lóðum fyrir smáhýsi sem verða staðsett í nokkrum þyrpingum.   Auk þess er áætlað  að 600 nýjar félagslegar leiguíbúðir verði byggðar eða keyptar í Reykjavík til ársins 2023.

Skýrslan í heild sinni