Viðbragðsáætlun velferðarsviðs í tengslum við kynferðisbrotamál | Reykjavíkurborg

Viðbragðsáætlun velferðarsviðs í tengslum við kynferðisbrotamál

þriðjudagur, 30. janúar 2018

Vegna frétta um ákæru á hendur karlmanni á fimmtudagsaldri vegna kynferðisbrota gegn ungum dreng vill velferðarsvið Reykjavíkurborgar koma eftirfarandi á framfæri:

  • Vegglist við Frakkastíg.
    Vegglist við Frakkastíg.

Rúm vika er síðan Barnavernd Reykjavíkur fékk upplýsingar um að viðkomandi einstaklingur lægi undir grun um kynferðislegt ofbeldi gagnvart ungum manni sem er tengdur viðkomandi utan vinnu. Brotin eru sögð hafa átt sér stað á fyrsta áratug þessarar aldar.

Viðkomandi starfsmaður var samstundis leystur frá störfum en hann starfaði á Hraunbergi, sem er skammtímaheimili fyrir unglinga á vegum Barnaverndar Reykjavíkur.

Velferðarsvið hefur þegar hrundið af stað viðbragðsáætlun vegna málsins þar sem allir sem eru eldri en 18 ára og hafa dvalið á skammtímaheimilinu og/eða tilsjónarsambýlum á þeim tíma sem um ræðir munu fá tilboð um viðtöl í Bjarkarhlíð.

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sem Reykjavíkurborg rekur í samstarfi við velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót, Drekaslóð, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjöfina. Þar hafa þolendur ofbeldis aðgang að allri sérfræðiþjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Forráðamenn þeirra sem enn eru á barnsaldri munu fá tilboð um viðtöl á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Um er að ræða 221 einstakling yfir 18 ára aldri og 36 börn sem munu fá tilboð um viðtöl og stuðning.

Á velferðarsviði starfa um 2.500 manns á yfir 100 starfsstöðvum við ýmis störf sem tengjast ólíkum hópum í samfélaginu. Allir sem ráðnir eru til starfa með börnum á velferðarsviði undirrita heimild til öflunar upplýsinga úr sakaskrá.  Velferðarsvið mun í framhaldi af þessu máli setja af stað áhættumat á starfsemi sem tengist börnum og ungmennum og endurskoða verklagsreglur. Einnig vinnur sviðið að gerð úttektar á allri starfsemi og skipulagi í starfi með börnum á grundvelli félagsþjónustu og barnaverndarlaga.

Tilboð sent til einstaklinga um að koma í viðtal í Bjarkarhlíð