Viðamikill vefur fyrir foreldra

Skóli og frístund

""

Foreldrar í Reykjavík hafa nú aðgang að nýjum og efnismiklum vef sem hefur að markmiði að styðja þá og efla sem virka þátttakendur í starfi og námi barna sinna.

 Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, opnaði vefinn formlega í dag. Hún sagði við það tækifæri að foreldravefurinn ætti án efa eftir að nýtast foreldrum vel, hann væri lifandi upplýsingaveita sem ætti vonandi eftir að þróast í samvinnu við notendur. „Góður foreldravefur er afar mikilvægur til að byggja brú milli foreldra og skóla- og frístundasamfélagsins.“

Foreldravefurinn er hugsaður sem hagnýtt verkfæri fyrir foreldra barna á fyrstu tveimur skólastigunum og nær yfir helstu þjónustu borgarinnar við börn á aldrinum 0-16 ára. Gengið er út frá þeirri grunnforsendu að gott samstarf foreldra og skóla tryggi vellíðan, virkni og námsárangur barnsins.

Á Foreldravefnum má m.a. finna hagnýt ráð um hvernig best megi stuðla að velferð barnsins í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi, ráð um hvernig fylgjast megi með skólastarfinu, styðja barnið í námi og undirbúa sig fyrir foreldraviðtöl. 

Vefurinn var unnin í samstarfi við foreldra og sérfræðinga í foreldrasamstarfi. Hann var hannaður af Önnu Margréti Sigurðardóttur og er ríkulega myndskreyttur.

www.reykjavik.is/foreldrar.