Vetrarhátíð 2020

Umhverfi Skóli og frístund

Loftmynd af Hallgrímskirkju og Skólavörðuholti á Vetrarhátíð.

Vetrarhátíð verður haldin dagana 6. – 9. febrúar nk. Hátíðin er nú haldin í 19. sinn og fer fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Aðgangur er ókeypis.

Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta gestum á höfuðborgarsvæðinu og gefa þeim tækifæri til að njóta menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína.

19.45 Setning Vetrarhátíðar – Sálumessa jöklanna

Setning Vetrarhátíðar fer fram við Hallgrímskirkju, þann 6. febrúar nk. Verkið Sálumessa jöklanna eða Introit er óður til jökla heimsins og er eftir Heimi Frey Hlöðversson, listamann. Verkinu verður varpað á kirkjuna sem verður í formi jökuls sem er að bráðna. Verkið er þrískipt og er önnur útgáfa verksins sýnt í Ásmundarsal og þriðja útgáfan verður á Hafnartorgi.

20.00 Sálumessa jöklanna - KYRIE ELEISON Ásmundarsalur - Verkið var unnið þannig að jökulís var myndaður á meðan hann bráðnaði á vinnustofu listamannsins. Dropahljóðunum sem mynduðust við bráðnunina var breytt í tóna og þannig var jökulísinn notaður sem hljóðvaki. Útkoman er verk sem einblínir á bráðnun jöklanna í sinni smæstu mynd - smásýn á risavaxið viðfangsefni.

20.00 Sálumessa jöklanna - SANCTUS - Myndum af bráðnandi jöklum er varpað á glugga í verslunarrýmum á Hafnartorgi og skilaboðum um áhrif hnattrænnar hlýnunar miðlað til áhorfenda.

20.00 Tónleikar í Hallgrímskirkju - 20 ára sálmasamstarf Sigurðar Flosasonar og Gunnars Gunnarssonar. Organistinn Gunnar Gunnarsson og saxófónleikarinn Sigurður Flosason fagna tuttugu ára samstarfsafmæli með glæsilegum tónleikum í samvinnu við Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar. Aðgangur ókeypis.

Ljósaganga

Ljósaganga Vetrarhátíðar lýsir upp skammdegið á skapandi hátt og myndar skemmtilega gönguleið. Sex ljóslistaverkum verður varpað öll kvöld yfir hátíðina frá klukkan 19.00 -23.00. Staðsetning verkanna:

Sálumessa jöklanna, Introit – Hallgrímskirkja, Kyrie Eleison – Ásmundasalur, Sanctus – Hafnartorg Verk eftir Heimi Frey Hlöðversson listamann á þremur mismunandi sýningarstöðum.

Vetrarblót – Upptaktur - Harpa tónlistarhús - Sjónlistamennirnir Allenheimer (Atli Bollason), DVDJ NNS (Katla Blahutova) og Grainy Picker (Dominika Ożarowska) „spila á“ 40 metra háan ljósahjúp Hörpu á Vetrarblóti laugardagskvöldið 8. febrúar. Á fimmtudagskvöldinu, föstudagskvöldinu og sunnudagskvöldinu verða þau hins vegar með ný og sérsamin ljósaverk til sýnis á hjúpnum. Hver listamaður fær eitt kvöld til umráða þannig að það er nýtt verk á hjúpnum á hverju kvöldi.

Millistig // Liminal SpaceSkólavörðustígur – Ljóslistaverk eftir Maríu Guðjohnsen, þrívíddarhönnuð. Í verkinu er íslensk náttúra könnuð og hvort hún rími við draumkenndan  þrívíddarheim.

Outside-Context Problem - Hafnarstræti/Tryggvagata – Ljóslistaverk eftir margmiðlunarlistamanninn Boris Vitazek frá Slóvakíu. Verk hans eru oft byggð á jaðarvísindum, trúarbrögðum og tækni.

Krossgötur - Austurstræti/Pósthússtræti - Verk eftir hóp nemenda í Fornámi við Myndlistaskólann í Reykjavík. Verkið tekur mið af umhverfinu þar sem tekist er á við ljós sem efnivið til að skapa myndlist í almannarými.

Tengoku – Austurvöllur. Gagnvirk innsetning eftir Abby Portner þar sem blandað er saman skúlptúr ljósum og myndbandi.

Hreyfimyndir – Ráðhús Reykjavíkur. Nemendur Barna-og unglingadeildar Myndlistaskólans í Reykjavík sýna hreyfimyndir á vegg Ráðhúss Reykjavíkur, Vonarstrætis megin. Verkin eru unnin í klippiforriti og teiknuð í tölvu.

Tákn í nýju ljósi – Arnarhvoll - Listaverkið Tákn eftir Steinunni Þórarinsdóttur, sem er á þakbrún Arnarhvols, verður lýst upp á Safnanótt 7. febrúar nk. Við það tilefni verður frumflutt kórverk eftir breska tónskáldið Deborah Pritchard við ljóð Dave Neita. Verkið heitir "Trophies of Peace" eða ,,Sigurtákn friðar". Það er 10 manna kór, Cantoque Ensemble, sem flytur verkið. Klukkan 20.00 á Safnanótt.

Safnanótt

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 7. febrúar frá klukkan 18.00 til 23.00. Gestum Vetarnætur býðst að fara á 50 söfn og skoða ótal sýningar á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið verður upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin.

Borgarbókasafn í Grófinni - Þögult þrumustuð! - Svarthvítt og þögult kvikmyndaþema svífur yfir vötnum í Grófinni og verður boðið upp á dulúðlega stemningu, en líka þrumustuði! Skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna.

Árbæjarsafn – Draugaganga fyrir fullorðna -  Farnar verða sex hrollvekjandi draugagöngur um myrkvað safnið sem fá hárin til að rísa! Fyrstu tvær göngur kvöldsins verða barnvænar og bannaðar fullorðnum en seinni göngurnar verða hræðilegri.

Landnámssýningin – Glerperlur, mjöður og djass. Á Safnanótt verður blásið í gler og búinn til mjöður að hætti víkinga. Djassbandið Píanótríóið leikur fyrir gesti.

Listasafn Reykjavíkur – Örleiðsagnir - Á Safnanótt verða reglulegar örleiðsagnir um valin verk á sýningum í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum verður hægt að fara í heimsókn í listaverkageymslur.

Sjóminjasafnið – Safna Quiz og uppistand – Á Safnanótt verður boðið upp á leiðsögn um sýningu safnsins, spurningakeppni, sprenghlægilegt uppistand og heimsókn í varðskipið Óðinn.

19:00 Vígsla vitans - Borgarstjóri vígir vitann við Sæbraut og Karlakór Reykjavíkur og Fóstbræður syngja.  Í framhaldi af því verður opið hús í Höfða til klukkan 21.00.

Samtal milli kórs og striga – Ráðhús Reykjavíkur - Sigrún Harðardóttir myndlistamaður flytur gjörning í Ráðhúsi Reykjavíkur á Safnanótt í samvinnu við Harmoníukórinn undir stjórn Krisztinu Kalló Szklenár.

Þetta er aðeins brot af þeirri dagskrá sem í boði er á Safnanótt. Nánar á vetrarhatid.is

SAFNANÆTURLEIKUR

Á Safnanótt fer fram Safnanæturleikur þar  sem gestir geta tekið þátt með því að svara 3 spurningum. Leikurinn fer fram á safnanott.safnadu.is þar eru spurningarnar en svörin er hægt að finna á hverju safni eða sýningu sem tekur þátt á Safnanótt. Vegleg verðlaun eru í boði t.d. miðar á Iceland Airwaves, Tjarnarbíó, Fly Over Iceland, leiðsagnir á söfn og  margt fleira.

Laugardagur 8. febrúar

Kramhúsið - 16:00 Dansbræðingur - opið hús í Kramhúsinu milli 16-20. Gestum gefst tækifæri á að taka þátt í rassahristipartý þar sem leitað er að sínum innri ofni.

Vetrarblót -21:00    Vetrarblót – Næturklúbbur Vetrarhátíðar í Hörpu. Sjónlistamennirnir Allenheimer (Atli Bollason), DVDJ NNS (Katla Blahutova) og Grainy Picker (Dominika Ożarowska) „spila á“ 40 metra háan ljósahjúp Hörpu á Vetrarblóti laugardagskvöldið 8. febrúar.

Sunnudagur 9. febrúar

17:00-22:00 Sundlauganótt 

Skemmtidagskrá í tólf sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Sundlaugagestir fá frítt inn og boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í mögnuðu myrkri.

Kynnið ykkur dagskrána á vetrarhatid.is