Vetrarfrísdagskrá Borgarsögusafns

Menning og listir

""

Fjölbreytt fjölskyldudagskrá í Árbæjarsafni, Landnámssýningunni og Ljósmyndasafninu dagana 15.-18. febrúar. Ókeypis aðgangur fyrir börn og fullorðna í þeirra fylgd.

Vetrarfrísdagskrá Árbæjarsafns

HVAÐ? Teiknismiðja og ljósmyndahorn

HVAR? Líkn – sem er grátt tvílyft hús með svörtu þaki

HVENÆR? 15.-18. febrúar 13:00-17:00

Árbæjarsafn verður með fjölskylduvæna dagskrá í vetrarfríinu 15.-18. febrúar.

Í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands ímyndum við okkur hvernig krakkar litu út fyrir hundrað árum og hvernig þau munu líta út eftir hundrað ár  og teiknum hugmyndir okkar á blöð og hengjum upp á vegg! 

Þá verður í sama húsi hægt að klæðast búningum og taka mynd við flottan bakgrunn í ljósmyndahorninu.

HVAÐ? Prjónarnir hennar Pálínu

HVAR? Á öllu safnsvæði Árbæjarsafns

HVENÆR? 15.-18. febrúar 13:00-17:00

Prjónarnir hennar Pálínu, er skemmtileg fjölskylduþraut um safnsvæði Árbæjarsafns en Pálína var prjónakona í Reykjavík í gamla daga. Hún var síprjónandi, sokka, vettlinga, húfur, peysur og margt fleira og það sem hún prjónaði seldi hún íbúum þorpsins. Í þessum leik verður farið inn í húsin og leitað að prjónunum hennar Pálínu.

HVAÐ? Komdu að leika! og myndaþraut í Koffortinu

HVAR? Landakoti – sem er stórt hvítt hús með útileiksvæði

HVENÆR? 15.-18. febrúar 13:00-17:00

Komdu að leika! er nafn á leikfangasýningu í Landakoti þar sem börn mega leika sér. Þessi sýning er vinsælasta sýning Árbæjarsafns frá upphafi.

Í  Koffortinu, opinni geymslu í kjallara Landakots, verður boðið upp á skemmtilega myndaþraut. Koffortið er opin munageymsla safnsins og þar leynast margir forvitnilegir safngripir og mörgum krökkum finnst gaman að skoða og spjalla um það sem foreldrar, afar og ömmur þekkja frá því í „gamla daga.“

HVAÐ? Furðuverusmiðja

HVAR? Lækjargata – stórt drapplitað hús við torgið þar sem á stendur Neyzlan

HVENÆR? Sunnudag 18. feb 13:00-16:00

Þátttakendur fá tækifæri til að skapa sína eigin furðuveru sem er gerð úr endurunnum textílefnum. Allir eru hvattir til að segja söguna af furðuverunni og leyfa öðrum að kynnast henni betur. 

Leiðbeinendur í smiðjunni eru þær Andrea Fanney Jónsdóttir textílhönnuður og klæðskerameistari, Erla Dís Arnardóttir textílhönnuður og kennari og Guðný Katrín Einarsdóttir textílhönnuður og iðjuþjálfi. Leiðbeinendurnir standa fyrir verkefninu Handaband en markmið þess er að bjóða upp á skapandi vinnustofur fyrir fjölbreytta hópa.  

Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands verða gamlar ljósmyndir af fólki fyrir hundrað árum hafðar sem fyrirmyndir og innblástur í smiðjunni.

Vetrarfrísdagskrá Landnámssýningarinnar

HVAÐ? Forngripaleit, ljósmyndahorn og sýningin Dýrin – leyndardómur landnámsins

HVAR? Landnámssýningin, Aðalstræti 16

HVENÆR? 15.-18. febrúar 09:00-18:00

Landnámssýningin verður með fjölskylduvæna dagskrá í vetrarfríinu 15.-18. febrúar alla daga frá kl. 9-18.

Finndu forngripinn! - er nafn á skemmtilegum leiðangri um Landnámssýninguna þar sem markmiðið er að finna rétta gripinn. Í fræðslurými sýningarinnar er ljósmyndahorn en þar verður hægt að klæðast skikkjum, bera vopn og smella af mynd við flottan bakgrunn. Dýrin – leyndardómur landnámsins er nafn fjölskylduvænnar sýningar um mikilvægi húsdýra á landnámsöld en þar er meðal annars hægt að grafa eftir dýrabeinum. Í fjölskylduhorninu verður svo hægt að leysa rúnapúsl og spila ýmiskonar leiki.

Vetrarfrísdagskrá Ljósmyndasafns Reykjavíkur

HVAÐ? Myndþrautin Þessi eyja jörðin

HVAR? Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Tryggvagötu 15

HVENÆR? 15.-16. feb 11:00-18:00 og 17.-18. feb 13:00-17:00

Ljósmyndasafn Reykjavíkur verður með fjölskylduvæna dagskrá í vetrarfríinu 15.-18. febrúar en þar verður boðið upp á skemmtilega myndaþraut um sýninguna Þessi eyja jörðin sem fjallar um íslenskt landslag. Þrautin gengur út á samveru og samvinnu fjölskyldunnar sem þurfa að hjálpast að við að leysa það sem fyrir þau er lagt.