Verslunarmannahelgin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Menning og listir Mannlíf

""

Það er opið alla verslunarmannahelgina í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá kl. 10 til 18. Hefðbundin dagskrá verður í kringum dýrin og leiktæki, gömul og ný, verða opin. Veðurspáin er góð og því upplagt fyrir borgarbúa og gesti að eyða dagsparti í garðinum. 

Sunnudaginn 4.ágúst kl. 16:00 kemur ungt tónlistarfólk til að skemmta gestum garðsins. Um er að ræða hljómsveitirnar Karma Brigade, Blóðmör og tónlistarkonuna Kristínu Sesselju.  Þau munu koma fram á sviðinu í Fjölskyldugarðinum. Hefðbundinn aðgangseyrir gildir og tónleikunum verður lokið þegar garðinum er lokað kl. 18:00. 

Karma Brigade leikur eigin tónlist að auki við þekktar ábreiður. Karma Brigade var stofnuð árið 2016 og sigraði jólalagakeppni Rásar 2 sama ár.  Hún var valin hljómsveit fólksins á Músíktilraunum 2018 og 2019.  Sérstakur gestur þeirra á tónleikunum í garðinum verður saxafónleikarinn Björn Kristinsson eða Bjössi Sax.   Þau hafa komið fram á tónleikum víða um land sem og erlendis. 

Blóðmör er íslenskt tríó sem spilar hávært og hratt þungarokk og pönk. Hljómsveitin var stofnuð árið 2016 en byrjaði að spila á tónleikum árið 2018. Þeir eru sigurvegarar Músíktilrauna 2019 og hafa vakið mikla athygli í kjölfarið.

Hin 19 ára Kristín Sesselja hefur verið að spila í ýmsum keppnum og hátíðum síðan hún var 13 ára. Mesta athygli vakti hún þegar hún var 16 ára og fékk gullhnappinn í Ísland got talent. Kristín Sesselja hefur gefið út EP plötu að nafninu Freckles ásamt nokkrum lögum sem sum hafa fengið í kringum 45.000 spilanir. Kristín Sesselja semur öll lögin sín sjálf sem er oftast popp tónlist.