Verðlaun fyrir meistaraverkefni í kennslu- og tómstundafræðum | Reykjavíkurborg

Verðlaun fyrir meistaraverkefni í kennslu- og tómstundafræðum

fimmtudagur, 5. apríl 2018

Allt að tólf meistaraverkefni í leikskólakennara-, grunnskólakennara- og tómstundafræðum verða verðlaunuð í fyrsta sinn í haust, en skóla- og frístundaráð efndi til verðlaunanna m.a. til að hvetja meistaranema til að gera Reykjavík að vettvangi rannsókna, náms og starfs. Verðlaunin verða samkvæmt samþykkt skóla- og frístundaráðs veitt árlega. 

  • Úr skólastofu
    Úr skólastofu

Meistaraverkefnin þurfa að vera unnin á vettvangi skóla- og frístundastarfs í borginni og hafa hagnýtt gildi fyrir framþróun í formlegu og óformlegu námi barna og unglinga. Verðlaun fyrir sérhvert verkefni nemur 250.000 krónum. 

Meistaranemar sem vilja koma til álita þurfa að skila inn verkefni sínu fyrir 10. júní 2018 ásamt rökstuðningi fyrir hagnýtu gildi verkefnisins og umsögn prófdómara. Eingöngu koma til álita meistaraverkefni sem skilað var inn til á tímabilinu 1. júní 2017 - 31. maí 2018. Öll gögn skal senda á netfangið sfs@reykjavik.is merkt Viðurkenning fyrir meistaraverkefni.

Fjögurra manna dómnefnd, skipuð sérfræðingum í starfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs, metur verkefnin og verður tilkynnt um verðlaunahafa í ágúst 2018. Efnt verður til kynningar á verðlaunaverkefnum fyrir stjórnendur og starfsfólk skóla- og frístundasviðs.

Markmið þessara verðlauna er að auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum í borginni, vekja athygli á skóla- og frístundastarfi í borginni og hvetja meistaranema til að gera Reykjavík að vettvangi rannsókna, náms og starfs.

Umsóknareyðublað um verðlaunin.