Verðlaun fyrir framúrskarandi frístundastarf | Reykjavíkurborg

Verðlaun fyrir framúrskarandi frístundastarf

föstudagur, 4. maí 2018

Fjögur framsækin verkefni og einn framúrskarandi starfsmaður fengu í dag hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir metnaðarfullt fagstarf á vettvangi frístundastarfsins í borginni.

 • Handhafar hvatningarverðlauna fyrir hinsegin félagsmiðstöð.
  Hrefna Þórarinsdóttir aðstoðarforstöðumaður og Andrea Marel deildarstjóri unglingastarfs í Tjörninni og María frá Samtökunum 78 tóku við hvatningarverðlaunum fyrir verkefnið Hinsegin félagsmiðstöð í Tjörninni. Með þeim á mynd eru Eva Einarsdóttir borgarfulltrúi og Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs.
 • Handhafar hvatningarverðlauna í frístundaheimilinu Glaðheimum:
  Handhafar hvatningarverðlauna í frístundaheimilinu Glaðheimum: Egill Sigursveinsson frístundaleiðbeinandi og Gísli Ólafsson forstöðumaður ásamt þeim Evu Einarsdóttur og Skúla Helgasyni.
 • Andrea Marel forstöðumaður í Frosta og Þórður Jörundsson umsjónarmaður verkefnisins Amicos non Ficta
  Andrea Marel, forstöðumaður í Frosta og Þórður Jörundsson, umsjónarmaður verkefnisins Amicos non Ficta, tóku við hvatningarverðlaunum úr höndum þeirra Evu Einarsdóttur og Skúla Helgasyni.
 • Samuel Levesque, starfsmaður Kringlumýrar
  Samuel Levesque, starfsmaður Kringlumýrar fékk sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi fagmennsku, en hann hefur unnið frumkvöðlastarf á sviði útikennslu og útivistar.
 • Lilja Marta Jökulsdóttir forstöðumaður og Stella Björg Kristinsdóttir aðstoðarforstöðumaður í Laugarseli og María Guðmundsdóttir
  Lilja Marta Jökulsdóttir aðstoðarforstöðumaður, Stella Björg Kristinsdóttir forstöðumaður í Laugarseli og María Guðmundsdóttir umsjónarmaður Réttindaskólaverkefnisins í Laugarnesskóla. tóku við hvartningarverðlaununum fyrir Réttindafrístund - Réttindaskóla verkefnið.
 • Hrund Gunnsteinsdóttir þróunarfræðingur og frumkvöðull hélt innblásið erindi
  Hrund Gunnsteinsdóttir þróunarfræðingur og frumkvöðull hélt innblásið erindi á Höfuð í bleyti sem hún kallaði Hafa rækjur tilfinningar?
 • Eftir afhendingu hvatningarverðlauna og erindi var farið í málstofur þar sem starfsfólk í frístundastarfinu miðlaði af reynslu s
  Eftir afhendingu hvatningarverðlauna og erindi var farið í málstofur þar sem starfsfólk í frístundastarfinu miðlaði af reynslu sinni í hinum margvíslegu verkefnum.
 • Málstofa um sleikreglur
  Málstofa um sleikreglur
 • Málstofa um samskipti
  Málstofa um samskipti

Hvatningarverðlaunin voru afhent á fjölmennri fagstefnu starfsfólks frístundamiðstöðvanna fimm, Höfuð í bleyti, sem haldin var í Gerðubergi.  

Hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og Samtakanna 78 fékk hvatningarverðlaunin fyrir einstakt og mikilvægt starf með viðkvæmum hópi barna og unglinga. Félagsmiðstöðin hefur verið rekin undanfarin tvö ár og er fyrir unga hinsegin einstaklinga, þau sem hafa áhuga á hinsegin málefnum, eru í hinsegin pælingum eða vilja vera stuðningur eða hvatning fyrir ungmenni sem tengja við hinsegin málefni. Meðal þess sem verkefnið hefur leitt af sér er að fleiri hinsegin ungmenna á aldrinum 12 – 17 ára taka þátt í starfinu og mikilvægri þekkingu hefur verið miðlað á milli félagsmiðstöðva í borginni.

Frístundaheimilið Glaðheimar fékk hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Glaðheimapopp, skapandi tónlistarverkefni, þar sem börnin hafa fengið  tækifæri til að semja lög og texta og syngja undir handleiðslu fagfólks. Þau hafa samið lög í spuna, hljóðritað þau og miðlað á tónlistarveitunni Spotify. Þar hafa lögin vakið mikla lukku og eru spiluð nánast daglega í Glaðheimum og víðar. Þetta metnaðarfulla tónsköpunarverkefni, þar sem farið er alla leið með börnunum, hefur ýtt undir sjálfstraust þeirra og hvatt þau til frekari sköpunar.

Félagsmiðstöðin Frosti fékk hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Amicos non ficta sem miðar að því að hjálpa strákum að tala opinskátt um tilfinningar sínar í öruggu umhverfi og ræða m.a. karlmennskuhugmyndir og samskipti kynja. Strákarnir, sem eru í 10. bekk, kalla sig Amicos non Ficta, eða vinir og einlægni. Þeir hafa  lært að dýpka sig í tilfinningaumræðu, einlægni og sönnum vinskap. Einnig hafa þeir skapað saman tónlist, smíðað, prentað á föt og búið til skart.

Samuel Levesque, starfsmaður frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýri fékk sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt frumkvöðlastarf í skapandi útikennslu. Hann hefur á undanförnum árum farið á milli frístundaheimila í Laugardal, Háaleiti og Bústöðum á sérútbúnu hjóli með útieldunargræjum og verkfærum og virkjað börnin með sér í skapandi útivist. Þannig hefur hann búið til vettvang fyrir börnin til að tálga, fara í bogfimi og aðra spennandi útileiki.

Frístundaheimilið Laugarsel og Laugarnesskóli fengu hvatningarverðlaunin fyrir réttindastarf með börnum, en þessar stofnanir eru í samstarfi um að innleiða réttindaskólaverkefni UNICEF. Þetta í fyrsta skipti á heimsvísu sem það verkefni er innleitt samhliða í skóla- og frístundastarfi en Laugarsel og Laugarnesskóli eru m.a. með sameiginlegt réttindaráð barna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grundvöllur fagstarfsins og læra börnin um réttindi sín í máli og myndum.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, afhenti hvatningarverðlaunin í dag en markmið þeirra er að  vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í Reykjavík. Verðlaunin eru í formi viðurkenningar og verðlaunagrips, listaverks eftir Ingu Elínu leirlistakonu.

Að lokinni verðlaunaafhendingu í Gerðubergi hélt Hrund Gunnsteinsdóttir frumkvöðull skemmtilegt erindi sem hún kallaði Hafa rækjur tilfinningar? og fjallaði m.a. um hvaða hæfni helst ber að rækta í börnum og unglingum í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar. 

Að loknu erindi var boðið upp á fjölmargar málstofur þar sem starfsfólk í frístundastarfinu miðlaði af reynslu sinni af hinum fjölmörgu verkefnum sem eru í gangi um alla borg með börnum og unglingum.