Velferðarsvið og Háskóli Ísland í samstarfi á sviði velferðarmála

Velferð

""

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu á dögunum samning um áframhaldandi samstarf Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands um kennslu og rannsóknir á sviði velferðarmála.

Samningurinn tryggir m.a. að nemendur við Félagsráðgjafardeild sæki áfram starfsþjálfun á vegum borgarinnar.

Samningurinn er gerður á grunni eldri samnings milli aðilanna tveggja frá árinu 2013 og er tilgangur hans m.a. að nýta sem best sérþekkingu, efnivið og aðstöðu sem samningsaðilar búa yfir á sviði velferðarmála.

Markmiðin með samningnum eru m.a. að stuðla að framgangi vísindarannsókna í velferðarmálum og þróun og nýsköpun í þjónustu á sviði velferðarmála, styrkja nýliðun félagsráðgjafa í starfi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og afla þekkingar á viðhorfum og þörfum þeirra sem nota þjónustu velferðarsviðs.

Einnig er samningnum ætlað að tryggja nemendum í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands starfsþjálfun undir faglegri handleiðslu sérþjálfaðra starfsþjálfunarkennara á velferðarsviði.  Þannig getur Félagsráðgjafardeild leitað til velferðarsviðs um að leiðbeina allt að 20 nemendum á hverju starfsþjálfunartímabili en deildin og sviðið skipuleggja það í sameiningu. Þá er gert ráð fyrir að velferðarsvið geti nýtt sér vinnuframlag kennara eða nemenda og niðurstöður rannsókna þeirra samkvæmt samkomulagi hverju sinni.

Samningurinn gerir einnig ráð fyrir að forseti Félagsvísindasviðs geti boðið sérfróðum einstaklingi innan velferðarsviðs að gegna akademísku gestastarfi við Félagsráðgjafardeild, uppfylli hann kröfu um faglegt hæfi samkvæmt reglum Háskólans.  Þá ætla aðilar samningsins að efla rannsókna- og vísindastarf á sviði velferðarmála með það fyrir augum að efla þjónustuhlutverk velferðarsviðs.

Samningurinn nú er til þriggja ára.