Vel sóttur kynningarfundur um Heklureit | Reykjavíkurborg

Vel sóttur kynningarfundur um Heklureit

mánudagur, 30. apríl 2018

Fimmtudaginn 22. mars var haldinn mjög vel sóttur kynningarfundur í Borgartúni 12-14 vegna skipulags um nýja byggð á svæðinu milli Laugavegs og Skipholts. Hér má finna gögn og fundargerð en um er að ræða breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, nýlega samþykkt Rammaskipulag fyrir svæðið í heild og drög að deiliskipulagi fyrir Heklureit á lóðunum 168-176 við Laugaveg.

 

 

  • Heklureitur
    Heklureitur
  • Heklureitur
    Heklureitur

Dagskrá fundar og gögn voru eftirfarandi:

Ávarp - Hjálmar Sveinsson form umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar

Breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur – Haraldur Sigurðsson verkefnisstjóri

Rammaskipulag – Yngvi Karl Sigurjónsson kynnir, Yrki arkitektar

Deiliskipulag – Ásdís Helga Ágústsdóttir, Yrki arkitektar

Myndband -  Magnús Már Þorvarðarson arkitekt

Fyrirspurnir -  sjá fundargerð

Aðrir sem komu fram á fundinnum: Þorsteinn Rúnar Hermannsson samgöngustjóri, Björn Axelsson skipulagsfulltrúi, Erna Hrönn Geirsdóttir lögfræðingur,  Ásgeir Björgvinsson skóla- og frístundasviði. Fundarstjóri var Gunnar Hersveinn. Verkefnastjórar og ritarar voru Jón Kjartan Ágústsson og  Björn Ingi Edvardsson hjá skipulagsfulltrúa.

Forsaga

Hugmyndasamkeppni var haldin um skipulagssvæðið árið 2017 og báru Yrki arkitektar sigur úr býtum. Reykjavíkurborg stóð að keppninni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, Heklu og Reiti fasteignafélag hf., sem eru lóðarhafar hluta reitsins. Í dómnefndaráliti þótti tillagan sýna byggð með látlaust yfirbragð, þar sem fíngerð randbyggð fellur vel að því byggðamynstri sem er í Holtunum. Tillagan býður einnig upp á mikinn sveigjanleika til frekari þróunar í sterku heildarsamhengi.

Í byrjun árs 2017 komust Reykjavíkurborg og lóðarhafar við Laugaveg 168-174 að samkomulagi um tilfærslu á starfsemi Heklu frá lóðinni. Einnig lá fyrir áhugi lóðarhafa Laugavegs 176 að auknum uppbyggingarmöguleikum frá því sem nú er. Í framhaldi hófst undirbúningur að skipulagssamkeppni um lóðina og nærliggjandi svæði með það að markmiði að stuðla að uppbyggingu blandaðrar byggðar íbúðar, verslunar og annarrar atvinnustarfsemi ásamt þróunar á ásýnd Laugavegs yfir í borgargötu. Samkeppnissvæðið var afmarkað af Nóatúni til vesturs, Brautarholt og Skipholti til suðurs, Bolholti til austurs og Laugavegi til norðurs.

Markmið Reykjavíkurborgar var að kalla er eftir hugmyndum um skipulag svæðisins sem myndi stuðla að framgangi meginstefnu gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Um yrði að ræða þétta, blandaða og vistvæna byggð í tengslum við góðar almenningssamgöngur í samræmi við stefnu aðalskipulagsins um t.d. hæðir húsa, gæði í manngerðu umhverfi og grænum lausnum.

Það skipti líka máli að sannfærandi tengingar væru sýndar á milli svæða og að tekið væri tillit til aðliggjandi byggðar með styrkingu svæðisins sem megin markmið til að skapa ný tækifæri til búsetu og þjónustu á svæðinu. Áhersla verði lögð á þjónustu á jarðhæðum og ný og spennandi almenningsrými. Reiturinn er lykilsvæði á samgöngu og þróunarás, Borgarlínu, sem tengir saman vestur- og austurhluta borgarinnar.

Nú hefur rammaskipulag fyrir svæðið verið klárað, aðalskipulagsbreytingu sem m.a. gert er ráð fyrir fjölgun íbúða og skipulagslýsing og deiliskipulagsbreyting fyrir fyrsta svæðið sem nær yfir lóðir Heklu við Laugaveg 168-174 og Laugaveg 176.

Í umhverfis- og skipulagsráði 11. apríl var aðalskipulagsbreytingin samþykkt og 25. apríl var samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir Heklureit og bíður hún samþykkis í Borgarráði áður en tillagan fer í hefðbundið kynningarferli í sex vikur.

Tenglar

Aðalskipulag Reykjavíkur, Laugavegur-Skipholt, reitur 25