Vel sóttur íbúafundur um hverfisskipulag

Hverfisskipulag Skipulagsmál

""

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur stóð fyrir opnum kynningarfundi á tillögum að hverfisskipulagi fyrir íbúa í Ártúnsholti, Árbæ og Selási, fimmtudaginn 7. febrúar í Árbæjarskóla.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs og Ævar Harðarson verkefnisstjóri hverfisskipulags kynntu helstu stefnur og skilmála hverfisskipulags. Einnig var kynnt hvernig gera má athugasemdir við tillögur að hverfisskipulagi Ártúnsholts, Árbæjar og Seláss, sem nú eru til kynningar á Borgarbókasafninu í Árbæ. Á fundinum voru sérfræðingar frá Umhverfis- og skipulagssviði til að svara spurningum. Fundarstjóri var Þorkell Heiðarsson .

Íbúar sátu þétt í Árbæjarskóla enda komu eitt hundrað manns. Spurt var um fjölbreytta hluti, m.a. um umferðarmál, félagslega innviði, menningarmiðstöð, aðgengi fyrir hjólandi, mengun, matvöruverslun ofl. 

Áhyggjur komu fram um að hverfisskipulagið myndi bitna á grænum svæðum. En í svörum kom fram að skipulagið muni festa græn og opin svæði í sessi og fjölga þeim. Þá var spurt hvort t.d. aukaíbúð í bílskúr myndi auka á bílastæðavanda. Fram kom í svari að bílastæði skulu leyst innan lóðar. Spurt var um hækkun fjölbýlishúsa við Hraunbæ/Rofabæ og kom fram m.a. í svari að allir lóðarhafar þurfi að samþykkja slík, ekki aðeins einn stigagangur. Auk þess þarf lyfta að fylgja framkvæmdinni.

Hér er hægt að sjá fundargerð og lesa spurningar og svör.

Heimasíðan hverfisskipulags Reykjavíkur

Frétt um boðun fundar