Vel gengur að úthluta lóðum í Reykjavík

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti í dag lóðaúthlutanir og ný uppbyggingarsvæði í Reykjavík á vel sóttum fundi í Tjarnarsal Ráðhússins.

Meðal þess sem fram kom í máli borgarstjóra var yfirlit yfir lóðaúthlutanir borgarinnar á kjörtímabilinu sem alls telja 2028 íbúðir. Á næstu vikum verður svo úthlutað lóðum fyrir alls 1173 íbúðir. en alls verður fjöldi úthlutaðra lóða á kjörtímabilinu um 3201 íbúðir. Það eru lóðir fyrir þrisvar sinnum fleiri íbúðir en nágrannasveitarfélög hafa úthlutað samtals á kjörtímabilinu, þ.e. Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Garðabær og Seltjarnarnes, skv. yfirliti sem lagt var fyrir borgarráð á fundi þess í gær.

Dagur segir vel hafa tekist til með að úthluta íbúðum í borginni á kjörtímabilinu en það segi ekki nema hluta söguna: „Það sem við erum að gera er annarsvegar að úthluta þessum gríðarlega fjölda lóða sem slær öll fyrri met borgarinnar en hinsvegar erum við að auka við þær byggingarheimildir sem fyrir eru víðsvegar í borginni. Hvoru tveggja skiptir máli til að mæta þeirri miklu þörf sem er á húsnæðismarkaði. Í því sambandi er líka mikilvægt að þetta er blanda af eignar- og leiguíbúðum, bæði almennum og síðan á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru að byggja í hagnaðarskyni. Það er rétt stefna, því húsnæðismarkaðurinn þarf að mæta þörfum allra.“

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, hélt erindið „Hvernig byggjum við meira?“ Hann fór yfir þörfina fyrir hagkvæmar íbúðir og hvernig best væri að fjölga íbúðum í takt við þörf. Hann horfði á uppbyggingu á íbúðamarkaði í sögulegu ljós og hvernig hrunið breytti myndinni.  Við værum að kljást við þann vanda sem uppsafnaður skortur og fjölgun íbúða í skammtímaleigu væri að skapa.  Fyrirséð uppbygging næstu tvö árin væri að mæta þeirri þörf sem skapast, en það væri síðan langtímaverkefni að vinna niður uppsafnaðan skort.  Til lengri tíma litið þyrfti að byggja 2.200 nýjar íbúðir á ári að meðaltali fyrir landið í heild. Gjarnan meira til að byrja með til að vinna niður uppsafnaðan skort.

Mikið áhorf var á streymi frá fundinum og má nálgast upptöku af fundinum á vefsíðunni reykjavik.is/lodauthlutanir 

Tengt efni: