Veirusjúkdómur í kanínum í Elliðaárdal

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Kominn er upp skæður veirusjúkdómur í hálfvilltum kanínum í Elliðaárdal. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur mönnum en kanínueigendur þurfa að gæta sérstaklega að því að bera ekki smitið í dýr sín með því að sótthreinsa skó og annað eigi þeir leið um svæðið. 

Matvælastofnun (MAST) hefur gefið út tilkynningu vegna veirusjúkdóms sem komið hefur upp í kanínum í Elliðárdal. Um 100 kanínur hafa drepist úr sjúkdómnum en meindýravarnir Reykjavíkurborgar hafa tínt upp hræin af dýrunum,  komið til rannsóknar hjá MAST og héraðsdýralækni í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Þá hefur meindýraeyðir komið hræjunum í brennslu á Suðurnesjum.

Tilkynning MAST;

Vegna veirusjúkdóms sem upp er kominn í kanínum í Reykjavík er nauðsynlegt að sveitarfélög á öllu landinu séu vakandi yfir heilbrigði kanína á stöðum þar sem er þekkt að kanínur haldi sig.

Samkvæmt 7. gr. um hjálparskyldu í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, skal koma dýri til hjálpar þegar það er sjúkt. Sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að gripið sé til þessara aðgerða sé um villt eða hálfvillt dýr að ræða. Hálfvillt dýr eru dýr sem ekki eru merkt í samræmi við 22. gr. laganna og ganga laus.

Sveitarfélag ber allan kostnað sem stofnað er til vegna þessa þegar um er að ræða hálfvillt dýr.

Þar sem engin lækning er til við sjúkdómnum ber að aflífa veikar kanínur sem allra fyrst. Þess vegna er nauðsyn á minnst daglegu eftirliti á þeim stöðum þar sem kanínur halda sig, á meðan faraldurinn gengur yfir. Fanga þarf þær kanínur sem eru veikar og annaðhvort færa þær til aflífunar hjá dýralækni eða kalla hann til á staðinn til aflífunar, sem gæti verið heppilegra m.t.t. smitvarna.

Í reglugerð nr. 80/2016 er m.a. fjallað um velferð kanína. Dýralæknum er einum heimilt að aflífa gæludýr, nema í neyðartilfellum þegar fullreynt er að ekki næst í dýralækni og ætla má að sjúkdómur dýrs eða meiðsl valdi dýrinu óbærilegum kvölum eða séu banvæn. Hræ af kanínum eru skilgreind sem sóttmengaður úrgangur. Því ber að farga/eyða hræjunum sem slíkum. Ef aðilar leita eftir því við sveitarfélög að fá að fanga hálfvilltar kanínur sem virðast vera frískar, í því skyni að koma þeim til hjálpar, getur sveitarfélagið gert samning um það við viðkomandi aðila skv. 24. gr. laga nr. 55/2013.

Í samningi þarf að koma fram:

  • Skylt er að lesa af einstaklingsmerkjum og hafa upp á umráðamanni ef hann er skráður.
  • Ómerkt dýr er hægt að afhenda nýjum eiganda strax, en eignarhald tekur ekki gildi fyrr en eftir tvo sólarhringa.
  • Nýir eigendur/umráðamenn dýranna þurfa að uppfylla ákvæði laga nr. 55/2013 og reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra, meðal annars um merkingar og skráningar (22. gr. laganna), skjól, fæði og umönnun.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum, vinsamlegast sendið fyrirspurn á mast@mast.is.