Vegna umfjöllunar um Fossvogsskóla

Skóli og frístund Heilbrigðiseftirlit

""

Staðreyndir vegna fjölmiðlaumfjöllunar um Fossvogsskóla og þær endurbætur sem gerðar hafa verið á skólanum. 

Í marsmánuði árið 2019 var Fossvogsskóla lokað í kjölfar þess að sýnataka og mælingar í skólanum leiddi í ljós að raka- og loftgæðavandamál voru til staðar. Starfsfólk og nemendur höfðu jafnframt kvartað undan einkennum. Í því ljósi var ráðist í umfangsmiklar endurbætur á skólanum. Listi yfir þær endurbætur eru hér fyrir neðan. Fossvogsskóli var opnaður að nýju þá um haustið en í desembermánuði sama ár varð vart við leka meðfram þakglugga. Farið var í endurbætur og sýnataka og mælingar framkvæmdar að nýju nú í sumar. Niðurstaða þeirra mælinga gefa ekki tilefni til að fara í frekari framkvæmdir. Lokaúttekt Verkís lá fyrir nú í ágústmánuði en von er á lokaskýrslu Verkís um málið nú í vikunni þar sem jafnframt verður að finna niðurstöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands á tegundagreiningu þeirra sýna sem tekin voru nú í sumar.

Í lokaúttekt Verkís var ekki mælt með frekari framkvæmdum en næstu skref verða ákveðin þegar lokaskýrsla Verkís liggur fyrir.

Í því ferli sem að baki er hefur borgin ekki fengið þá ráðgjöf að rífa mannvirkið. Þegar skólar eða önnur mannvirki eru rifin vegna rakaskemmda, þá eru þær ákvarðanir teknar að vel athuguðu máli í kjölfar mælinga og sýnatöku og   ítarlegrar áhættugreiningar. Niðurstöður mælinga í Fossvogsskóla til þessa gefa ekkert tilefni til að skoða niðurrif skólans.

Nýlegar framkvæmdir við Fossvogsskóla: Nú í haust voru endurbætur gerðar á salerni eftir að leki á klósettkassa varð til þess að raki myndaðist á gólfdúk. Farið var í viðgerð á þakglugga í sumar sem lak í kjölfar slæmrar tíðar sl. vetur.

Framkvæmdir sem áttu sér stað eftir lokun: Unnið var í öllum álmum, víða var almálað, sett ný gólfefni, ný LED lýsing, ný kerfisloft, nýjar innréttingar, handlaugar ofl. Unnið var að endurbótum vegna rakaskemmda eftir forskrift frá verkfræðistofunni Verkís og Náttúrufræðistofnun Íslands. Samhliða því gekk hluti framkvæmda út á að bæta innivist og hljóðvist Fossvogsskóla.

Loftræsting: Settar voru nýjar öflugar loftræstisamstæður í Vesturland og Meginland, ásamt umtalsverðum endurbótum á stofnlögnum, endurnýjun hljóðgildra, inn- og útsogsrista ofl.

Endurnýjun þaka Vesturlands og Miðlands: Þök beggja álma voru endurgerð að miklu leyti, settur á þau eldsoðinn pappi, klæðningar endurnýjaðar að hluta, gluggakerfi endurbætt og nýtt bárujárn sett á þökin.

Glerveggur í bókasafni: Settur var nýr glerveggur í bókasafni.

Matsalur og veggir á lóð:  Settur var stór gluggi með tveimur flóttaleiðum á suðurvegg matsals, gerð aðstaða innanhúss fyrir frístund, setbekkir, tröppur og útigeymsla sunnan við matsal.

Lóðarfrágangur: Á eystri hluti lóðar skólans voru settar öflugar frárennslislagnir yfirborðsvatns, stígur var malbikaður og lóðin þökulögð. Eftir er að ljúka frágangi í kringum veggi og setbekki við matsal ásamt hellulögnum.

Reglubundið viðhald skólans: Samhliða ofanskráðum framkvæmdum var unnið að reglubundnu viðhaldi skólans eins og endurnýjun raflagna, smáspennulagna, lýsingar og gólfefna.