Vegfarendur nutu sín vel á bíllausa deginum 2019

Samgöngur Umhverfi

""

Fjölbreyttum ferðamáta var fagnað í lok samgönguviku 2019, hvort sem fólk var gangandi, á hjóli, hlaupahjóli, á stultum eða brettum. Bíllausa gangan hófst við Klambratún og var haldið þaðan sem leið lá á Lækjartorg. Vegfarendur nutu sín vel.

Miklubrautin birtist í nýju ljósi á þessum kafla, fólk var glatt og spjallaði saman áhyggjulaust. Á Lækjartorgi og Lækjargötu var margt um að vera. Viðburður var við gatnamót Bankastrætis og Lækjargötu með ávörpum og tónlist. Hjólaviðgerðir, kynningarstandar, matarvagnar og fleira. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir form. skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar og Jim Walker frá Walk21 héldu stuttar ræður. 

Bíllausa gangan  er skilgreind sem fjölskylduviðburður og skrúðganga fyrir fjölbreytta ferðamáta um Miklubraut og Hringbraut að Lækjartorgi. Í göngunni voru allir mögulegir fararskjótar aðrir en einkabílar og eru t.a.m gangandi, hlaupandi, hlaupabretti, hjólaskautar, hjól, rafhjól, rafhlaupahjól, nytjahjól, burðarhjól og létt bifhjól innilega velkomin.

Samstaða og gleði var allsráðandi í göngunni og restina ráku tveir hljóðlátir raf-Strætóar sem gangandi geta fengið far með. Strætó bs studdi daginn með því að gefa frítt í strætó á þessum degi.

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.

Valdir aðilar studdu bíllausa daginn: Samtök um bíllausan lífsstíl, Ungir umhverfissinnar, Kría, Landsamtök hjólreiðamanna, Reykjavíkurborg, Hjólafærni, Stjórnarráðið og Grænni byggð.

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður á RÚV fylgdist með göngunni í hádeginu og náði tali af Birni Hákoni Sveinssyni, formanni Samtaka um bíllausan lífsstíl, á Lækjartorgi. sjónvarpsviðtal við og sýndi myndband frá deginum. Sjá hér.