“Vá ég sé hákarlinn!”

Skóli og frístund Menning og listir

""

Fjör var á Vísindavöku um helgina þar sem skóla- og frístundasvið kynnti með fleirum nýsköpun í skólastarfi með aðstoð upplýsingatækni.
Vísindavaka var haldin í 370 borgum og bæjum í 30 löndum um alla Evrópu.  

Á Vísindavöku Rannís sem haldin var í Laugardalshöll síðasta laugardag var margt forvitnilegt í boði. Þar gafst almenningi tækifæri til að kynnast viðfangsefnum fræðafólks frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum á lifandi og skemmtilegan hátt. Gestir fengu að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, kynnast ýmsum afurðum og spjalla um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Á Vísindavöku er lögð er áhersla á lifandi vísindamiðlun og virka þátttöku gesta og eru börn og ungmenni sérstaklega boðin velkomin á vökurnar 

Samstarfsverkefni NýMið, Nýsköpunarmiðju menntamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fólst í því að kynna rannsóknar- og nýsköpunarverkefni í skólastarfi. Verkefnið Makey: Makerspaces in the early years var kynnt og eins gafst gestum tækifæri til að mála með Sphero vélmenni, töfra fram nýja veruleika með grænum skjá og skoða undur hafsins, jarðarinnar og himingeimsins með viðbótar- og sýndarveruleikabúnaði. Eins var spilað af fingrum fram á liti í umhverfinu með hljómborði sem skynjar liti og yngstu gestirnir fengu að prófa verkfæri úr tæknikistum leikskóla.