Útskrift Kvennasmiðju á kvenréttindadegi

Velferð

Útskriftarhópur ásamt borgarstjóra og formanni velferðarráðs á tröppum Höfða

Það var vel við hæfi að halda útskrift Kvennasmiðjunnar í Höfða í lok dags 19. júní sl., á kvenréttindadeginum. Þennan dag voru 104 ár er frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.

Níu konur brautskráðust frá Kvennasmiðjunni í ár. Útskriftin var sérstök fyrir þær sakir að tvö hundruðasta konan lauk námi í Kvennasmiðju en fyrsta smiðjan hóf göngu sína árið 2001.  Kvennasmiðjan er rekin á vegum velferðarsviðs Reykjavíkur sem heldur utan um starfsemina í heild í samvinnu við Námsflokka Reykjavíkur.

Námið í Kvennasmiðjunni er þríþætt. Það er sjálfstyrkjandi, hagnýtt og skapandi. Sjálfstyrking er rauður þráður í námi og starfi smiðjunnar Námið tekur 18 mánuði og felst í bóklegu námi hjá Námsflokkum Reykjavíkur, bók- og verklegu námi við Hússtjórnarskóla og sumarnámskeiði þar sem áhersla er lögð á útiveru og hreyfingu. Einnig er farið í hagnýtar leiðbeiningar varðandi atvinnuleit eða frekara nám.

Það kom fram í máli borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns velferðarráðs að þetta væri eitt þeirra verkefna borgarinnar sem væri mikil ánægja með bæði hvað varðar útfærslu og árangur. 

Það er Ella Kristín Karlsdóttir deildarstjóri, Þjónustumiðstöð Árbæjar sem heldur utan um námið í Kvennasmiðju í heild sinni með samstarfi við Iðunni Antonsdóttur forstöðumann Námsflokka Reykjavíkur, sem kemur að þeim námshluta smiðjunnar sem fram fer hjá Námsflokkunum.