Útilistaverkin í Breiðholtinu

Umhverfi Menning og listir

""

Þessa dagana stendur yfir skemmtileg sýning á útilistaverkum í Breiðholtinu. Með henni bætist í listaverkaflóruna í hverfinu og er óhætt að segja að verkin veki athygli og gleði vegfarenda. Sýningin heitir Úthverfi og er hluti af sýningaröð sem nefnist Hjólið og er sniðin að þörfum hjólareiðafólks.Leiðsögn verður um sýninguna mánudaginn 12. ágúst og hefst kl.18.00 á strætóskíptistöðinni í Mjódd. 

Listaverkunum hefur verið komið upp víðs vegar við stíga og bílastæði í Breiðholtinu en kort er yfir staðsetningu þeirra á vefslóðinni hjolid.is. Sýningin er sérstaklega sniðin þannig að hjólareiðafólk og gangandi vegfarendur geti notið hennar sem best. Sýningarstjórar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir. Einnig stendur yfir í Gerðubergi sýning á verkum þeirra listamanna sem eiga útilistaverkin og kallast þau þannig á. Sýningin stendur til 25. ágúst. 

Þeir sem eiga verk á sýningunum eru:
Anssi Pulkkinen
Arnar Ásgeirsson
Baldur Geir Bragason
Halldór Ásgeirsson
Hallsteinn Sigurðsson
Kathy June Clark
Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir
Ósk Vilhjálmsdóttir
Sindri Leifsson 

Listamennirnir á sýningunni líta til sögu Breiðholtshverfisins, skoða mörk hins manngerða og náttúrulega umhverfis auk samstarfs við íbúa hverfisins. Einnig eru í Breiðholtinu skemmtileg vegglistaverk eftir Söru Riel, Erró og Ragnar Kjartansson. 

Hjólaleiðsögn um sýninguna.
Mánudag 12. ágúst kl. 18.00 − mæting við strætóskiptistöðina í Mjódd

Hjólafærni, Listasafn Reykjavíkur og Landssamtök hjólreiðamanna taka höndum saman og bjóða upp á hjólatúr með leiðsögn um sýninguna. Staldrað verður við verk og staði og sagt frá því sem fyrir augu ber. Hjólatúrinn hefst við strætóskiptistöðina í Mjódd og endar við Gamla Kaffihúsið að Drafnarfelli 18. Athugið að mæta í klæðnaði sem hæfir veðri þann daginn!
Þátttaka er öllum ókeypis.