Úthlutanir til 90 verkefna á Barnamenningarhátíð 2016

Umhverfi Skóli og frístund

""
Höfuðborgarstofa úthlutaði þann 25. febrúar alls 4.350.000 krónum til  90 aðila vegna verkefna á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2016. 
Höfuðborgarstofa hefur úthlutað  alls 4.350.000 krónum til 90 aðila vegna verkefna á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2016. Þeir aðilar sem fengu úthlutað eru m.a. leik- og grunnskólar, frístundamiðstöðvar, dans-, myndlista- og tónlistarskólar, háskólar, menningar- og listastofnanir, lista- og minjasöfn, sjálfstætt starfandi listhópar og listamenn, félagasamtök ýmis konar og fjölmargir aðrir. Við úthlutun framlaga vegna kostnaðar við verkefni var m.a. lögð áhersla á að viðburðirnir færu fram á vettvangi barna ýmist í  lista- og menningarstofnunum, í almenningsrými eða í skóla og frístundastarfi. Þá var haft í huga að verkefnin dreifðust jafnt milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu og sérstök áhersla var lögð á fjölmenningarlegan vinkil. Verkefnin verða gerð sýnileg á Barnamenningarhátíð í Reykjavík sem verður haldin í sjötta sinn dagana 19.-24. apríl.  
 
Á Barnamenningarhátíð er lögð áhersla á þátttöku barna, ungmenna og fjölskylda í menningarlífinu. Framlag barna og ungmenna til menningar er metið að verðleikum og litið á list þeirra sem jafn mikilvæga og list þeirra sem eldri eru. Barnamenningarhátíð er þátttökuhátíð líkt og Menningarnótt og Vetrarhátíð þar sem stofnanir og einstaklingar, sem tengjast eða hafa áhuga á barnamenningu, eru hvattir til þátttöku. Hátíðarsvæði Barnamenningarhátíðar er öll borgin, jafnt innandyra sem utan.  Áhersla er lögð á að dagskráin endurspegli jafnfræði milli list-og verkgreina. Frítt er á á alla viðburði.