Upplýsingar um þjónustu í samkomubanni

Covid-19 Velferð

""

Reynt verður að hafa þjónustu Reykjavíkurborgar að mestu leyti órofna þrátt fyrir samkomubann vegna Covid-19.

Hagnýtar upplýsingar vegna þjónustu borgarinnar í ljósi samkomubanns.
Neyðarstjórn Reykjavíkur fundaði tvisvar sinnum í dag föstudag vegna samkomubanns sem tekur gildi næstkomandi mánudag til að varna smiti af kórónavírusnum Covid-19.  Í kjölfar seinni fundar neyðarstjórnar er hér yfirlit yfir þjónustu borgarinnar í samkomubanni.

Þjónusta á velferðarsviði
 

Eftir að neyðarstigi var lýst yfir þann 6. mars sl. var tekin sú ákvörðun að loka að hluta starfsstöðvum sem halda úti þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða er með undirliggjandi sjúkdóma. https://reykjavik.is/frettir/lokanir-til-ad-vernda-vidkvaema-hopa. Einnig var þjónusta skert í skammtímadvöl fyrir fötluð börn og unglinga og í dagþjálfun fyrir fatlaða einstaklinga. Sérstök áhersla hefur verið lögð á einstaklingsbundna nálgun þar sem reynt er að mæta þörfum hvers og eins.  

Félagsmiðstöðvar velferðarsviðs eru lokaðar en bent er á að það er hægt er að sækja um að fá fulleldaðan heimsendan mat alla daga vikunnar og eru máltíðir keyrðar heim að dyrum.  Sótt er um í síma 411 9450 eða á netfanginu; maturinnheim@reykjavik.is. Umsóknir þurfa að berast kl. 14:00 daginn áður.

Öll önnur þjónusta velferðarsviðs hefur verið órofin eftir það og verður það áfram eftir að samkomubann tekur gildi næstkomandi mánudag. Þar er um að ræða alla heimaþjónustu, heimahjúkrun, stuðningsþjónustu, á hjúkrunarheimilum, í íbúðakjörnum og sambýlum sem og í gisti- og neyðarskýlum.

- Aðalsímanúmer heimaþjónustu er 411 9600 kl. 8:00‒16:00

Vaktsímar hjúkrunar um kvöld og helgar:

- Íbúar í Hlíðum, Miðborg, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi ‒ vaktsími 821 2367

- Íbúar í Breiðholti, Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi og Kjalarnesi ‒ vaktsími 821 2270

- Íbúar í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi ‒ vaktsími 821 2375

Velferðarsvið vinnur eftir mjög skýrum verkferlum hvað varðar leiðbeiningar til starfsfólks, íbúa og aðstandenda en viðbragðsáætlun sviðsins var virkjuð í byrjun febrúar síðastliðinn.

 

Leikskólar og skólar verða opnir ásamt frístundastarfi en starfsdagur á mánudag
 

Mánudagurinn 16. mars verður starfsdagur í leik- og grunnskólum og frístundastarfi á höfuðborgarsvæðinu. Þar verður unnið að því að skipuleggja skóla- og frístundastarf næstu vikna. Þegar skólastarf hefst að nýju verður það með breyttu sniði og unnið samkvæmt tilmælum sóttvarnarlæknis um smitgát, aukin þrif og sótthreinsun bygginga að loknum skóladegi. Jafnframt er miðað við að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki á milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Unnið verður áfram að útfærslu á þessu um helgina og mánudag ásamt því að undirbúa sameiginlegar leiðbeiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um frístundaheimili, íþróttastarf, íþróttamannvirki, skólahljómsveitir og aðrar tómstundir barna.

 

Órofin sorphirða og vetrarþjónusta

Öll vetrarþjónusta á götum og stígum helst órofin. Þá verður sorphirða með hefðbundnu sniði ásamt almennri hreinsun borgarlandsins, umhirðu opinna svæða og allri annarri starfsemi umhverfis- og skipulagssviðs sem helst órofin þrátt fyrir samkomubann.

 

Söfn borgarinnar verða opin en viðburðum frestað

Söfn Reykjavíkurborgar, Borgarbókasafnið, Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafnið halda óbreyttum opnunartíma þrátt fyrir samkomubann en boðuðum viðburðum verður aflýst eða frestað, svo sem leiðsögnum, listsmiðjum og málþingum, á meðan samkomubannið er í gildi. Á söfnum hafa gestir tækifæri  til að hafa hæfilega fjarlægð sín á milli.  Eina undantekningin er varðskipið Óðinn sem tilheyrir Borgarsögusafni en því hefur verið lokað vegna þess hve rýmið er þröngt í skipinu.

Engin hátíð á vegum borgarinnar er á dagskrá á næstu fjórum vikum og verður staðan metin varðandi Barnamenningarhátíð og aðrar hátíðir dragist samkomubannið á langinn.

Áfram verður lögð áhersla á aukin þrif í söfnum borgarinnar umfram venjubundna ræstingu.

Snertifletir eru sérstaklega hreinsaðir að lágmarki tvisvar á dag, svo sem handrið, posar, snertiskjáir og hurðarhúnar, auk þess sem leikföng og annað sem börn hafa handfjatlað er hreinsað sérstaklega. Þrif hafa verið aukin um helgar og áhersla lögð á að tryggja gott aðgengi að handspritti, fyrir gesti og starfsmenn. Hið vinsæla verk Chromo Sapiens í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi er sömuleiðis þrifið vel og vandlega með sótthreinsiefni daglega og takmörkuðum fjölda hleypt inn í verkið hverju sinni. Áhersla er sem fyrr lögð á að taka vel á móti öllum gestum.

Aukin þrif og sóttvarnir eru einnig viðhöfð í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar í Ráðhúsi og á Höfðatorgi. 

Nánari ákvarðanir um útfærslu eða skerðingu á þjónustu til dæmis hvað varðar sundlaugar og íþróttamannvirki verða teknar um helgina í samræmi við ákvörðun og leiðbeiningar sóttvarnalæknis um samkomubann.

Reykjavíkurborg minnir fólk að gæta að almennu hreinlæti, þvo hendur vel og nota spritt til sóttvarna þar sem það er í boði.