Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Ráðhúsi Reykjavíkur lokar | Reykjavíkurborg

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Ráðhúsi Reykjavíkur lokar

þriðjudagur, 30. október 2018

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík (UMFR) sem verið hefur til húsa í Ráðhúsi Reykjavíkur frá ársbyrjun 2017, hefur verið lögð niður. Í staðinn verður lögð aukin áhersla á upplýsingamiðlun á rafrænu formi. 

  • Við Reykjavíkurtjörn
    Við Reykjavíkurtjörn

Með þessu er verið að bregðast við gjörbreyttu umhverfi frá því Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík var sett á laggirnar árið 1987. Ýmsir aðilar í ferðaþjónustu sinna nú almennri upplýsingagjöf og bókunarþjónustu, ólíkt því sem áður var auk þess sem miðlun upplýsinga og þjónusta er í stórauknum mæli að færast yfir á rafrænar lausnir.
 
Breytingarnar eru einnig í takt við þjónustustefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn árið 2016 en þar segir að ávallt skuli líta á rafræna sjálfsþjónustu sem fyrsta valkost fyrir notendur, hvort sem er borgarbúa eða gesti borgarinnar. Allar upplýsingar og rafræna sjálfsþjónustu má finna heimasíðunni visitreykjavik.is og á samfélagsmiðlum Instagram, Twitter og á Facebook

 Unnið er að nýrri ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg um þessar mundir og í þeirri vegferð verður hlutverk tilgangur og forgangsröðun borgarinnar í upplýsingamiðlun til ferðamanna og markaðssetningu skilgreind enn frekar.  
 
Vonast er til að ný ferðamálastefna fyrir Reykjavíkurborg líti dagsins ljós næsta vor.