Unnið samkvæmt áætlun í sorphirðu

Umhverfi

""

Mikið álag hefur verið á starfsfólki í sorphirðu hjá Reykjavíkurborg undanfarið en þrátt fyrir það er unnið samkvæmt hefðbundinni áætlun. Mikilvægt er að fólk flokki samviskusamlega plast og pappír frá heimilissorpi og nýti plássið í öllum tunnum vel án þess að yfirfylla þær.

Þrátt fyrir að það takist nú að vinna samkvæmt áætlun er enn verið að vinna upp afleiðingar verkfallsins, sem skapar aukið álag. Sorphirðan hefur enn fremur líkt og aðrir þurft að huga að sóttvörnum vegna COVID-19 og forgangsraðað verkefnum með tilliti til þeirra aðstæðna.

Sorphirðan er nú að störfum í Árbæ en hægt er að skoða áætlunina á sorphirðudagatali Reykjavíkurborgar. Þar má sjá allar tilkynningar frá sorphirðunni.

Sem fyrr er nauðsynlegt að moka frá sorpílátum og tryggja greitt aðgengi að sorpgeymslum svo hirðan gangi vel fyrir sig. Þar sem ekki er mokað má búast við að hætta þurfi við að hirða. Blandaður úrgangur þarf að vera í vel lokuðum pokum og það má ekki yfirfylla tunnurnar. Snýtubréf eiga heima í þeim pokum en ekki með pappírsúrgangi.

Alltaf er hægt að fara með plast, pappír og gler á grenndarstöðvar og endurvinnslustöðvar Sorpu. Mikilvægt er að ganga vel um grenndarstöðvarnar og ekki skilja eftir úrgang þar sem hann á ekki heima. Hjálpumst að við að halda borginni hreinni.