Unga kynslóðin velur Borgarlínu | Reykjavíkurborg

Unga kynslóðin velur Borgarlínu

miðvikudagur, 24. október 2018

Vaxandi áhugi er fyrir Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, þetta kemur fram í nýrri ferðavenjukönnun sem Land-ráð sf vann fyrir Vegagerðina. Spurt var um ferðavenjur frá ýmsum sjónarhornum, m.a. um viðhorf til Borgarlínu og líst 60% vel á hugmyndir í kringum hana.

  • Borgarlína í Málmey í Svíþjóð
    Borgarlína í Málmey í Svíþjóð
  • Innstigum í strætó hefur fjölgað.
    Innstigum í strætó hefur fjölgað.

Spurt var til að mynda: Hvernig líst ykkur á hugmyndir um borgarlínu?

Greina má að margir svarendur innan við fimmtugt kunna mjög vel við hugmyndina um Borgarlínu. Eldra fólki líst hins vegar ekki eins vel á hana. Stuðningur við Borgarlínu vex með aukinni menntun en ekkert frekar með meiri tekjum. Mikill stuðningur er við Borgarlínu hjá þeim svarendum þar sem einn eða enginn bíll er á heimilinu - en andstaða hjá þeim þar sem bílarnir eru margir.

Stuðningur vex með árunum

Stuðningur við Borgarlínu hefur vaxið að undanförnu og nú telja 26% aðspurðra Borgarlínu vera mikilvægustu framkvæmdina fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu en árið 2016 voru það 18%. Í þessari spurningu er stuðningur við bætt stofnbrautakerfi 43% árið 2018. Áhugi fyrir Borgarlínu er mestur í eldri hluta Reykjavík vestan Elliðaárvogar.

Samkvæmt könnuninni vill ungt fólk umbætur í almenningsvagnakerfi Strætó og Borgarlínu. Það vill einnig að haldið verði áfram að bæta stígakerfi í borginni og ennfremur auka fjölda bílastæða í miðbænum. Fram kemur að 48% vilja með Borgarlínunni bæta almenningssamgöngur til að minnka umferðartafir en 52% vilja gera það með því að bæta stofnbrautakerfið. Yngra fólk velur almennt Borgarlínu en þeir eldri leggja áherslu á bættar stofnbrautir.

Forgangur í framtíðinni

Spurt var hvaða framkvæmdir ættu að vera í forgangi næstu árin til að draga úr umferðartöfum. Yngri svarendur nefna oftar en þeir eldri, sveigjanleika í vinnutíma, betri stýringu umferðar með umferðarljósum og meira atvinnuframboð í úthverfum. Þeir eru einnig almennt áhugasamari um Borgarlínu, en þeir eldri sem hafa meiri trú á umbótum á stofnbrautakerfinu til að draga úr umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan í heild var að 43% nefndu Borgarlínu sem framkvæmd í forgangi en 51% umbætur á stofnbrautakerfinu.

Fleiri í strætó

Fjölgun strætisvangafarþega kom fram í umfangsmikilli könnun á ferðavenjum íbúa höfuðborgarsvæðisins sem gerð var október 2017. Þar kom fram að innstigum í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr 9,0 milljónum árið 2011 í 11,7 milljónir árið 2017. Það er um 30% aukning sem er langt umfram íbúafjölgun. 

Einnig má keppni sem haldin var í haldin var í samgönguviku 2018 og hvaða ferðamáti dygði best til að vera fyrst/ur á staðinn, sjá myndband hér.

Tenglar

Ferðavenjur sumarið 2018. Land ráð sf. Dr. Bjarni Reynarsson skipulagsfræðingur. Október 2018.

Frétt: vöxtur í samgöngum í Reykjavík.

Tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna

Rafmögnuð hraðkeppni: Hjól, bíll eða strætó