Undirbúa stórt skref inn í framtíðina

Velferð

""

Á velferðarsviði Reykjavíkurborgar er unnið að því að fjölga stafrænum þjónustuleiðum, svo sem með myndsamtölum, rafrænu eftirliti og notkun snjalltækja. Innkaupadeild borgarinnar hefur nú óskað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum sem vænta má að sendi inn gögn í útboð á markaði innan EES-svæðisins um nýja hugbúnaðarlausn fyrir félagslega heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.  

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar undirbýr nú útboð vegna innleiðingar á nýrri hugbúnaðarlausn fyrir félagslega heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og aðra starfsstaði borgarinnar, þar sem slíkt kerfi myndi henta. Mikil þörf er á lausn sem mætir nútímakröfum hvað varðar skipulag þjónustu. Með upplýsingatæknikerfi fengju stjórnendur meiri yfirsýn og betri tæki og tól til að skipuleggja verkefni á borð við mönnun, vaktafyrirkomulag, verkþætti og utanumhald á daglegum rekstri. Ef vel tekst til leiðir kerfið til aukinnar skilvirkni, meiri gæða og öryggi þjónustunnar og um leið skapast tækifæri til hagræðingar. 

Liður í undirbúningsvinnunni fyrir útboðið er markaðskönnun sem innkaupadeild borgarinnar hefur sent frá sér en hún standur yfir til 12. október. Í henni er óskað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum sem líkleg eru til að senda inn gögn í útboðið á markaði innan EES-svæðisins. 

Stórt skref inn í framtíðina

Með innleiðingu á heimaþjónustukerfi væri stórt skref tekið í tækniþróun í borginni. Þetta segir Jóhanna Erla Birgisdóttir, verkefnastjóri í velferðartæknismiðju velferðarsviðs. „Krafa komandi kynslóða er skilvirk þjónusta sem gengur greiðlega fyrir sig og er einföld fyrir notendur og starfsfólk. Stöðugt er að koma fram ný tækni sem auðveldar einstaklingnum að búa sem lengst á eigin heimili. Það er því mikið atriði fyrir sveitarfélög að fylgjast með og innleiða lausnir sem koma að notum í því sambandi. Komandi kynslóðir verða í auknum mæli tæknivæddar og aukin krafa verður gerð um tæknilausnir ýmis konar og þá er mikið atriði að vera skrefi á undan við innleiðingu slíkra lausna,“ segir hún. 

Hún bendir líka á að það sé stefna velferðarsviðs að veita eins notendamiðaða þjónustu og unnt er. Með nýrri lausn sé vonast til að ná enn betri árangri en hingað til hvað það varðar. Horfa þurfi til þess hve meðferð persónulegra gagna er vandmeðfarin. Skráning og varsla upplýsinga skipti þar miklu máli. „Mikið atriði er að þeir sem hafa aðkomu að máli skjólstæðingsins hafi aðgang að upplýsingum á rafrænu formi svo hægt sé að samræma þjónustuna. Öll einföldun á samskiptaleiðum milli starfsmanna, þjónustuþega og jafnvel aðstandanda verður til mikilla bóta. Það eykur gæði, öryggi og bætir þjónustu.“

Prófa og innleiða nýja velferðartækni

Velferðartæknismiðjan hefur það hlutverk að prófa og innleiða nýja velferðartækni sem ætlað er að auðvelda fólki að búa á eigin heimilum við sem bestu lífsgæði, þrátt fyrir veikindi, heilsubrest, öldrun eða fötlun. Velferðartækni á líka að auðvelda starfsfólki að veita notendum þá þjónustu sem þeir þurfa, tryggja öryggi og bæta þjónustuna. „Þetta er í rauninni stærsta verkefni sem velferðartæknismiðja Reykjavíkurborgar hefur ráðist í og leggur að mörgu leyti grunninn að nýju verklagi og möguleikum við að innleiða tækninýjungar. Það er svo mikil þróun í velferðar- og heilbrigðistækni núna en við verðum að hafa tæknilega innviði til að geta nýtt okkur tæknina til fullnustu. Samhliða þessu erum við til dæmis að þróa nýja þjónustuleið með skjáheimsóknum í heimaþjónustunni sem hefur reynst mjög vel, ekki síst núna á tímum Covid-19. Í kjölfarið er svo markmiðið að bjóða upp á fleiri stafrænar þjónustuleiðir, til dæmis með rafrænu eftirliti, rafrænum lyfjaskömmturum og notkun ýmissa snjalltækja.“