Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjavík | Reykjavíkurborg

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjavík

mánudagur, 12. nóvember 2018

398 umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa verið í þjónustu borgarinnar það sem af er þessu ári. Í hverjum mánuði koma 10-25 nýir umsækjendur í þjónustu það má því gera ráð fyrir að heildartalan í lok árs verði um 450 manns. Þetta er fjölgun um 318 manns á fimm árum.

  • Ljósmynd er tekin í fjölmenningargöngu í Reykjavík.
    Ljósmynd er tekin í fjölmenningargöngu í Reykjavík.
  • Ljósmynd er tekin í fjölmenningargöngu í Reykjavík.
    Ljósmynd er tekin í fjölmenningargöngu í Reykjavík.

Reykjavíkurborg þjónustar umsækjendur um vernd með samningi við Útlendingastofnun. Borgin sér fólki fyrir húsnæði og framfærslu.

Ekki nóg að hafa þak yfir höfuðið

Velferðarsvið setti á fót sérstakt teymi starfsfólks til að styðja umsækjendur enn frekar á meðan þau bíða niðurstöðu umsóknar. Í ár starfa í teyminu 13 starfsmenn í tólf stöðugildum. Teymið talar 12-16 tungumál þó enska sé þeirra mest notað.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru þeir sem koma hingað á eigin vegum og sækjast eftir því að fá stöðu flóttamanns. Hælismeðferð fer í gegnum Útlendingastofnun og getur umsókn tekið allt að eitt ár. Á meðan fólk bíður þess að fá svar við umsókn þarf það fæði og húsaskjól en líka ýmsa aðstoð við aðlögun í reykvísku samfélagi.

Teymið aðstoðar umsækjendur að rata um samfélagið, þau fá strætókort, túlkaþjónustu, tungumálanámskeið og aðstoð með lýðheilsu og frístundir. Börn sækja leik- og grunnskóla. Auk þessa hefur hópurinn getað spilað fótbolta, fengið samfélagsfræðslu, farið í krikkett, danssmiðjur, myndlist og margt fleira. Með virkniverkefnum er hægt að styrkja fólk i aðlögun að samfélaginu.

Brúa bil milli ólíkra þjóðerna

Sem dæmi um slíka aðlögun hefur teymið staðið fyrir fræðslu fyrir unga karlmenn þar sem áhersla var sérstaklega lögð á menningarlæsi og mörkum í samskiptum á þeim vettvangi.

þeim er m.a. kennt hvernig koma á fram við konur á Íslandi. Það hefur skilað góðum árangri og brúað menningarlegar brýr bæði á milli ungu karlanna, sem eru af ólíku þjóðerni, og Reykvíkinga. Nýtt námskeið er nýfarið af stað fyrir 40 stráka en slík námskeið draga úr árekstrum á með á umsóknarferli stendur.

Með virkni, ráðgjöf og stuðningi verða umsækjendur um vernd ekki bara sterkari íbúar ef umsókn þeirra er samþykkt heldur fara þau líka sterkari í burtu og betur í stakk búin til að takast á við nýjar áskoranir hvort heldur er áfram á flótta eða sem nýir Íslendingar. Margir umsækjendur þjást af áfallastreituröskun og því nauðsynlegt að veita þeim sálræna aðstoð, ekki síst börnunum.

Lengi býr að fyrstu gerð

Starfsmenn teymisins horfa bjartsýn fram á veginn og hafa ótal hugmyndi um hvernig megi þjónusta umsækjendur um vernd enn frekar. Oft sé erfitt að horfa á eftir fólki sem fær synjun en það er gott til þess að vita að vandað hafi verið til verka og fólkið hafi fengið bestu þjónustu sem völ er á.

Teymið horfir sér í lagi til þess að hægt verði að gera samning við Vinnumálastofnun um að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti fengið tímabundð atvinnuleyfi á meðan beðið er svara um hæli því eins og áður segir getur ferlið tekið allt að eitt ár.

Það er samfélaginu í hag að við tökum vel á móti fólki og aðstoðum það við að finna sér hlutverk í nýju landi því lengi býr að fyrstu gerð.

Meira um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd