Umferðaröryggisáætlun 2019-2023 - drög til kynningar

Samgöngur

""

Skipulags- og samgönguráð samþykkti á fundi sínum þann 5. júní síðastliðinn að leggja drög að umferðaröryggisáætlun borgarinnar 2019-2023 fram til umsagnar hjá Vegagerðinni, Samgöngustofu og Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en gefa jafnframt öðrum færi á að koma með ábendingar eða athugasemdir.

Ljósmynd/RagnarTH

Áætlunin hefur verið í vinnslu frá því haustið 2017 en borgin hefur haft umferðaröryggisáætlun frá því 1996. Á vinnslutíma þeirrar áætlunar sem hér er lögð fram hefur verið fundað tvisvar með fulltrúum Vegagerðar, Lögreglu og Samgöngustofu, í febrúar 2018 og í maí 2018. Vinnan hefur einnig verið kynnt tvisvar fyrir kjörnum fulltrúum borgarinnar, í febrúar 2018 og í nóvember 2018. Að auki hefur verið fjallað um vinnuna á málþinginu Léttum á umferðinni sem er opið öllum.

Um er að ræða fyrsta hluta umferðaröryggisáætlunarinnar. Í henni fer fram greiningarvinna, almenn markmiðasetning og gerð aðgerðaráætlunar á borgarstigi. Í kjölfarið, á grundvelli þessarar vinnu er ætlunin að vinna sérstaka áætlun með skilgreindum aðgerðum og forgangsröðun þeirra hvern borgarhluta fyrir sig sem og fyrir stofnvegakerfi Vegagerðarinnar.

Í drögum að umferðaröryggisáætlun 2019-2023 eru línurnar lagðar fyrir áframhaldandi vinnu umferðaröryggismála í borginni. Áhersla áætlunarinnar er á að fækka alvarlegum slysum og banaslysum með sérstakri áherslu á að draga úr slysum á börnum. Reykjavíkurborg einstetur sér að taka upp núllsýn á gildistíma áætlunarinnar og að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga í umferðaröryggismálum. Hugmyndafræði núllsýnar byggir á því að enginn eigi að slasast alvarlega eða látast í umferðferðarslysum.

Hér eru þrjú skjöl drög að umferðarörggisáætlun 2019-2023, stytt útgáfa hennar (samantektarskýrsla) og ítarleg slysagreiningarskýrsla sem er grundvöllur vinnunnar:

Umferðaröryggisáætlun í heild

Umferðaröryggisáætlun samantekt

Slysagreiningarskýrsla 

Tekið er við ábendingum við áætlunina á netfangið usk@reykjavik.is til 1.ágúst 2019. Endanleg umferðaröryggisáætlun verður ekki lögð fyrir til endanlegs samþykkis fyrr en að því ferli loknu og að teknu tilliti til ábendinga eins og tilefni er til.