Tvö smáhýsi í Skógarhlíð

Velferð

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum 14. maí nýja lóð á mörkum Hringbrautar og Skógarhlíðar fyrir tvö smáhýsi.

Smáhýsunum verður komið fyrir á lóðinni í anda hugmyndafræðinnar Húsnæði fyrst en hún byggist á því að það sé algjört lykilatriði til að fólk nái bata að það hafi þak yfir höfuðið. Mjög mikil þörf er á slíkum húsum á höfuðborgarsvæðinu en smáhýsin eru ætluð heimilislausum einstaklingum.

Vettvangs- og ráðgjafarteymi velferðarsviðs borgarinnar, svokallað VoR-teymi, þjónustar íbúa í smáhýsum í borginni og tryggir hreinlæti og þrifnað við húsin.

Reiturinn þar sem smáhýsin tvö verða staðsett er við jaðar íbúðabyggðar. Þau verða skermuð af til að tryggja hljóðvist og settur verður gróður í kring til að skapa skjól og betri ásýnd.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur óskað eftir fleiri lóðum fyrir smáhýsi í borginni sem búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga sína en það er á hendi umhverfis-og skipulagssviðs að útvega lóðir. Úthlutun í smáhýsi veitir íbúum þess öruggt skjól allan daginn í stað þess að þeir þurfi að leita í neyðarskýli nótt eftir nótt.  

Myndirnar hér að ofan sýna hvar smáhýsin verða í jaðri Skógarhlíðar við Miklubraut.