Tryggvi Ólafsson sýnir á Droplaugarstöðum

""

Tryggvi Ólafsson listmálari sýnir grafíkverk á Droplaugarstöðum frá 12.október til 30.nóvember 2018. Þetta er fyrsta einkasýning Tryggva á Droplaugarstöðum.

Tryggvi lærði við Myndlista og handíðaskólann árin 1960-61 og síðan við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn árin 1961-66. Tryggvi hefur notið hylli þjóðarinnar um árabil og hefur lengst af unnið að list sinni í Danmörku þar sem hann bjó í rúm 40 ár. Hann hefur sýnt víða um heim og snéri sér snemma að popplist þar sem hann nýtir sér efni og form bæði frá fortíð og nútíð.

Það er mikill skáldskapur í verkum Tryggva, þau eru póetísk, djörf og mjög persónuleg. Myndmál sitt hefur Tryggvi ætíð haldið áfram að rækta. Hann hefur orðið póetískari og jafnframt djarfari í myndmáli sínu með árunum. Ekki síst á allra síðustu tímum hefur mátt finna meiri skáldskap í verkunum, ásamt persónulegri litameðferð.

Eftir slys 2007 flutti Tryggvi til Íslands og hefur ekki getað málað síðan þá. Hann er þó ekki alveg af baki dottinn og hefur snúið sér aftur að grafíkinni, öll verkin sem hann sýnir nú eru unnin hér á landi á síðustu fjórum til fimm árum.

Tryggvi býr nú hér á Droplaugarstöðum og er hluti verkanna unninn eftir að hann flutti hingað. Sýningin er sölusýning, þeir sem hafa áhuga á að eignast verk, geta fengið upplýsingar á skrifstofu Droplaugarstaða.